LÖGREGLAN á Suðurnesjum handtók á laugardag karlmann sem hafði veist að lögreglumönnum eftir að þeir tóku hund úr hans vörslu. Eigandinn hafði farið í útilegu á föstudag og skilið hundinn eftir í bílskúr í Reykjanesbæ.

LÖGREGLAN á Suðurnesjum handtók á laugardag karlmann sem hafði veist að lögreglumönnum eftir að þeir tóku hund úr hans vörslu.

Eigandinn hafði farið í útilegu á föstudag og skilið hundinn eftir í bílskúr í Reykjanesbæ. Er lögreglan kom í bílskúrinn blöstu við ömurlegar aðstæður. Hvorki var fóður né vatn hjá hundinum og hland og saur á gólfi en hundurinn mun alltaf hafa verið hafður í bílskúrnum og honum lítið sinnt, samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Lögreglan tók hundinn í vörslu sína en er eigandinn kom heim úr útilegunni kvartaði hann við lögreglu um að hundurinn hefði verið fjarlægður. Reynt var að útskýra málið fyrir honum en hann brást illur við og réðst á lögregluna. Tveir lögreglumenn meiddust í átökunum og þurftu að leita læknis.

Manninum hefur verið sleppt en héraðsdýralæknir og Umhverfisstofnun hafa málið til rannsóknar.