Stuðningur Íranir um allan heim hafa haldið uppi mótmælum til stuðnings málstað Mir Hossein Mousavi.
Stuðningur Íranir um allan heim hafa haldið uppi mótmælum til stuðnings málstað Mir Hossein Mousavi. — AP
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is ÞÚSUNDUM mótmælenda lenti saman við óeirðalögreglu á götum Teheran, höfuðborgar Írans, í gær og hrópaði fjöldi þeirra: „Hvar er atkvæðið mitt?

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

ÞÚSUNDUM mótmælenda lenti saman við óeirðalögreglu á götum Teheran, höfuðborgar Írans, í gær og hrópaði fjöldi þeirra: „Hvar er atkvæðið mitt?“ Að sögn vitna notaði lögreglan táragas og kylfur til að dreifa hópi allt að 3.000 mótmælenda sem höfðu safnast saman við Ghoba-moskuna í norðurhluta borgarinnar. Þetta eru fyrstu mótmælin á götum Teheran í fjóra daga, en öflug mótmæli höfðu átt sér stað allt frá því að niðurstöður forsetakosninganna voru birtar hinn 13. júní síðastliðinn.

Að sögn AP -fréttastofunnar lýstu vitni átökunum sem ofbeldisfullum, mótmælendur hafi beinbrotnað auk þess sem lögreglan hafi barið eldri konu. Erfitt er að staðfesta slíkar fréttir þar sem starfsfrelsi erlendra fréttamanna í Íran er mjög takmarkað.

Basij-sveitirnar berja fólk til hlýðni á næturnar

„Á meðan augu heimsins beinast að átökum á götum Írans að degi til gera Basij-sveitirnar hrottalegar árásir á heimili fólks á næturnar,“ segir Sarah Leah Whitson, yfirmaður mannúðarsamtakanna Human Rights Watch í Mið-Austurlöndum. Íbúar í norður Teheran segi að meðlimir Basij-sveita yfirvalda reyni að kveða niður mótmælahróp íbúa af þökum heimila sinna með því að sparka niður hurðum og berja heimilismenn. Orðrómur um viðlíka árásir hafi heyrst úr öðrum hlutum borgarinnar. Þá hafa mannúðarsamtök sagst hafa heimildir um í það minnsta 2.000 handtökur í landinu „ekki aðeins [fólk] sem hefur verið handtekið og síðan sleppt, heldur sem er lokað í fangelsum,“ sagði talsmaður Alþjóðasamtaka um mannréttindi (FIDH) í samtalið við AP .

Írönsk yfirvöld handtóku í gær átta íranska starfsmenn breska sendiráðsins í Íran og vöktu reiði breskra yfirvalda. Að sögn írönsku Fars -fréttastofunnar voru starfsmennirnir handteknir fyrir að hafa „átt töluverðan þátt“ í uppþotum undangenginna vikna.

Utanríkisráðherra Bretlands, David Miliband, sagði að lausn starfsmannanna væri forgangsatriði breskra stjórnvalda. Evrópusambandsþjóðirnar hétu því, að sögn Milibands í gær, að svara öllum ofsóknum diplómata í Íran „sameiginlega og af festu“.