Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is „ENGAR breytingar voru gerðar frumvarpi til neyðarlaga hvað varðar skilanefndirnar. Það að Seðlabankinn hafi verið strikaður út og FME sett í staðinn er einfaldlega rangt,“ segir Björgvin G.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

„ENGAR breytingar voru gerðar frumvarpi til neyðarlaga hvað varðar skilanefndirnar. Það að Seðlabankinn hafi verið strikaður út og FME sett í staðinn er einfaldlega rangt,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra.

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að miklar breytingar hefðu verið gerðar á frumvarpinu rétt áður en það var lagt fyrir Alþingi hinn 6. október sl. Nánast alls staðar þar sem Seðlabankinn kom við sögu hefði nafn hans verið strikað út og nafn Fjármálaeftirlitsins, FME, sett í staðinn. Hlutverk Seðlabankans hefði þannig verið minnkað og ábyrgðin falin FME. „Það stóð aldrei annað til en að FME hefði þessar heimildir en ekki Seðlabankinn,“ segir Björgvin. Hann segir að grunnur að neyðarlögunum hafi legið fyrir hjá viðbragðshópi Seðlabanka, FME og þriggja ráðuneyta. „Ég sá þessi drög aldrei öðruvísi en nákvæmlega eins og þau voru kynnt,“ segir hann.

„Ég var ekkert á landinu þegar þetta var til meðferðar,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, en hún fór í aðgerð vegna veikinda sinna hinn 29. september. „Ég þekki ekki hvernig unnið var að neyðarlögunum í ríkisstjórninni,“ segir hún. Daginn eftir setningu laganna, hinn 7. október, lagði Geir H. Haarde til á fundi nokkurra ráðherra að skipaður yrði starfshópur til að hafa yfirumsjón með efnahagsaðgerðum stjórnvalda, að því er fram kemur í bókinni Hruninu eftir Guðna Th. Jóhannesson. Lagði Geir til að Davíð Oddsson yrði formaður hópsins. Ráðherrar Samfylkingarinnar munu hafa beðið um fundarhlé en síðan hafnað tillögunni með öllu.

Spurð hvort hún hafi haft vitneskju um þennan fund segir Ingibjörg svo ekki vera. „Þetta var viku eftir að ég fór í aðgerð og ég var ekkert inni í myndinni þá viku.“

Björgvin G. sat umræddan fund. „Við töldum að það væri heppilegra að hafa þetta milliliðalaust, beint undir ráðherrana,“ segir hann. Því hafi þeir hafnað tillögu Geirs.