Umferðaröryggi Samgönguráðherra segist bjartsýnn á að ljúka undirbúningi, hönnun og skipulagsmálum vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar á næsta ári, en þá á að skera framlög til samgöngumála niður um rúma átta milljarða.
Umferðaröryggi Samgönguráðherra segist bjartsýnn á að ljúka undirbúningi, hönnun og skipulagsmálum vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar á næsta ári, en þá á að skera framlög til samgöngumála niður um rúma átta milljarða. — Morgunblaðið/Jóhann Óli Hilmarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þar sem grunnvinnu vegna jarðganga og samgöngumiðstöðvar er lokið hafa þau verkefni forgang. Framlög til samgöngumála verða skorin niður um átta milljarða króna á næsta ári.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

Á MÓTI niðurskurði á framlögum ríkisins til samgöngumála koma útboð tveggja verka í einkaframkvæmd, en um er að ræða Vaðlaheiðargöng og samgöngumiðstöð í Reykjavík.

Kristján Möller samgönguráðherra segir að þessi tvö verk séu til skoðunar því þau hafi verið komin mun lengra en til dæmis áframhaldandi tvöföldun Suðurlands- og Vesturlandsvegar. „Skipulagsmál og undirbúningur vegna Suðurlands- og Vesturlandsvegar er ekki kominn eins langt,“ segir Kristján spurður hvers vegna áherslan sé lögð á þessi tvö verkefni, en nokkur krafa hefur verið um tvöföldun Suðurlandsvegar með það fyrir augum að auka umferðaröryggi.

Grunnvinnu lokið

„Við búum að því varðandi Vaðlaheiðargöng að fyrirtækið Greið leið [einkahlutafélag á Akureyri] hefur unnið að undirbúningi undanfarin fimm til sex ár. Það var búið að kosta jarðvegskannanir og alla vinnu varðandi skipulag vegna Vaðlaheiðarganga,“ segir Kristján. Hann segir að af hálfu Flugstoða hafi verið unnin ákveðin þarfagreining og grunnvinna vegna samgöngumiðstöðvar í Reykjavík. „Við bíðum bara eftir grænu ljósi frá borginni varðandi skipulag, hvar við megum byggja og hvernig.“ Kristján segir að það sama gildi um samgöngumiðstöðina og Vaðlaheiðargöng, ríkið búi þar að ákveðinni grunnvinnu sem hafi verið unnin.

Lífeyrissjóðirnir munu líklega koma að fjármögnun þessara verkefna, en að sögn Arnars Sigurmundssonar, formanns Landssamtaka lífeyrissjóða, eru lífeyrissjóðirnir tilbúnir að leggja 90-100 milljarða króna á næstu fjórum árum í opinberar framkvæmdir með lánum til ríkisins eða lánum til einkaaðila með ríkisábyrgð. Lífeyrissjóðirnir líta á þetta sem verðuga fjárfestingu, en um er að ræða mikla örvun fyrir atvinnulífið.

Fjármálaráðuneytið hefur skipað sérstaka nefnd sem á að annast viðræður við lífeyrissjóðina vegna aðkomu þeirra að opinberum framkvæmdum.

Kristján segir að þrátt fyrir niðurskurð verði árið í ár „annað mesta framkvæmdaár Íslandssögunnar“. Kristján vísar til þess að útgjöld til vegamála í ár verði 1,6 prósent af vergri landsframleiðslu.

Af stórum verkefnum sem unnið er að má nefna Bolungarvíkurgöng og Héðinsfjarðargöng, en þeim á að ljúka um mitt næsta ár, að sögn Kristjáns. Af stórum vegaframkvæmdum má nefna framkvæmdir á Vopnafjarðarheiði, við Ísafjarðardjúp, Hófaskarðsleið, Suðurstrandaveg og Bræðratunguveg með nýrri Hvítárbrú.

Niðurskurður árið 2010

Á næsta ári á að skera framlög til samgöngumála niður um rúma átta milljarða. „Miðað við þessar tölur verður úr tæpum tíu milljörðum að spila á næsta ári,“ segir Kristján. Hann segist bjartsýnn á að ljúka undirbúningi, hönnun og skipulagsmálum vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar á næsta ári.

Hvaða verkefnum verður frestað?

Í upphafi ársins var gert ráð fyrir 20,9 milljarða króna framlagi ríkisins til stofnkostnaðar í vegagerð. Vegna niðurskurðar lækkaði upphæðin í 17,5 milljarða króna.

Vegagerðin var búin að bjóða út 12 verk vegna vegaframkvæmda á þessu ári. Áætlaður verktakakostnaður vegna þessara útboða var 5,2 milljarðar en samanlögð upphæð verksamninga var 3,2 milljarðar króna. „Verk sem við vitum að voru komin í ferli voru til dæmis Arnarnesvegur, Reykjarbraut í Húnavatnssýslu. [...] Á þessu ári voru komin á dagskrá í útboðsröð fyrsti áfanginn við tvöföldun Suðurlandsvegar, seinni áfangi Suðurstrandarvegar og ýmis fleiri verkefni,“ segir Kristján Möller samgönguráðherra.

Þremur verkefnum í útboðsferli, sem búið var að opna tilboð í, verður líklega að fresta vegna sparnaðar. „Það er Álftanesvegur, Laxárdalsvegur og ný brú á þjóðvegi 1 á Ystu Rjúkanda [Norður-Múlasýslu]. Það er ekki klárt hvort af þeim verkefnum verður,“ segir Kristján.