Kvenréttindi og líknarmál í einni sæng Eftir KRISTÍNU ÁSTGEIRSDÓTTUR 100 ár eru liðin frá stofnun HINS ÍSLENSKA KVENFÉLAGS en kveikjan að stofnun þess var ekki síst synjun konungs um stofnun háskóla á Íslandi. f við horfum yfir heiminn allan mega...

Kvenréttindi og líknarmál í einni sæng Eftir KRISTÍNU ÁSTGEIRSDÓTTUR

100 ár eru liðin frá stofnun HINS ÍSLENSKA KVENFÉLAGS en kveikjan að stofnun þess var ekki síst synjun konungs um stofnun háskóla á Íslandi.

f við horfum yfir heiminn allan mega íslenskar konur una nokkuð vel við sinn hag miðað við stöðu kvenna í flestum löndum heims. Við eigum kost á menntun og njótum mannréttinda. Við getum valið um sambúðarform og ráðið því sjálfar hvort við eignumst börn og hve mörg. Barna- og mæðradauði er með því lægsta sem þekkist í heiminum og flestar konur eiga enn sem komið er kost á vinnu. Þótt heilsa kvenna fari versnandi hér eins og víðast hvar annars staðar í heiminum ræður samfélag okkar yfir meðulum til að bæta þar úr, sé vilji til þess.

Ef við horfum aftur til þess tíma er barátta kvenna fyrir frelsi og mannréttindum hófst hér á landi og hugsum til þeirra kjara og stöðu sem formæður okkar bjuggu við á síðari hluta 19. aldar má öllum ljóst vera að við höfum náð miklum árangri. Hver áfanginn á fætur öðrum hefur náðst í baráttunni fyrir auknum réttindum og áhrifum á samfélag okkar. Réttur til menntunar, kosningaréttur og kjörgengi, atvinnuréttindi og rétturinn til að stjórna eigin lífi, allt náðist þetta smátt og smátt. Margt er þó eftir enn og er þar helst að nefna slakan hlut kvenna í áhrifastöðum, hvort sem horft er á atvinnulífið eða stjórnkerfið og þær ríkjandi áherslur sem af því leiða. Þá eru meðal brýnustu verkefna okkar að búa börnum betra líf og að draga úr þeim óþolandi launamun kynjanna sem hér viðgengst og er orðinn svo alvarlegur að jaðrar við mannréttindabrot, að mati einnar af nefndum Sameinuðu þjóðanna.

HIÐ ÍSLENSKA KVENFÉLAG

Staða íslenskra kvenna er afrakstur langrar baráttu þar sem fjöldi kvenna og karla kemur við sögu. Hinn 26. janúar sl. voru 100 ár liðin frá því að Hið íslenska kvenfélag var stofnað en það var fyrsta kvenfélagið hér á landi sem hafði kvenréttindi á stefnuskrá sinni. Þar voru að verki margar merkiskonur sem við nútímakonur eigum skuld að gjalda og vert er að minnast.

Það er erfitt að tímasetja upphaf kvenfrelsisbaráttunnar því dæmin eru mörg frá öllum öldum um konur sem ekki sættu sig við hlutskipti sitt og réttleysi og brugðust við því á einn eða annan hátt. Skipulögð kvennabarátta er rakin til frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 en skoðanasystur frönsku kvennanna var að finna bæði í Englandi og hinum nýfrjálsu ríkjum N-Ameríku. Franska kvennahreyfingin var barin niður með lögum og fallöxi óspart beitt á forystukonur. Umræðan um stöðu kvenna hélt þó áfam á fyrstu áratugum 19. aldarinnar en varð á ný að skipulagðri hreyfingu í kjölfar ráðstefnu andstæðinga þrælahalds í London 1840. Þar var konum meinaður aðgangur þótt þær væru meðal skeleggustu andstæðinga þrælahaldsins en fengu loks að sitja og hlusta á bak við tjald, þannig að þær sæust ekki. Þær bandarísku konur sem þarna voru urðu svo reiðar að þær hétu því að hefja baráttu fyrir kvenréttindum er heim kæmi og stóðu við það.

ÝMISLEGT LÁ Í LOFTINU

Hreyfing kvenna barst yfir Atlantshafið til Englands, Þýskalands og Norðurlandanna þar sem Íslendingar sem komnir voru á kaf í eigin frelsisbaráttu kynntust hugmyndum um kvenfrelsi upp úr miðri 19. öld og báru heim. Það tók þó nokkra áratugi að finna þeim farveg og hljómgrunn í bláfátæku samfélagi bænda og fiskimanna. Einhverjar slíkar hugmyndir voru þó á ferð þegar nokkrar konur tóku sig til og stofnuðu fyrsta kvenfélagið norður í Skagafirði 1869, að ekki sé minnst á stofnun Kvennaskólans í Reykjavík 1874, en menntun kvenna var alls staðar fyrsta baráttumál kvenfrelsiskvenna. Árið 1875 var Thorvaldsenfélagið stofnað en það merka félag kvenna lagði mikið af mörkum til betra þjóðfélags, ekki síst í heilbrigðismálum sem snertu kjör kvenna á margvíslegan hátt t.d. hvað varðar aðstöðu fæðandi kvenna. Það lá því ýmislegt í loftinu áður en fyrsta kvenfélagið var stofnað sem setti kröfur um kvenréttindi beinlínis á blað, en það voru meira og minna sömu konurnar sem stóðu fyrir öllu félagsstarfi kvenna í Reykjavíkurbæ.

HÁSKÓLAMÁLIÐ VAR KVEIKJAN

Þegar 8 konur boðuðu til fundar í janúarlok 1894 vegna málefna íslensks háskóla bjuggu rúmlega 4000 manns í Reykjavík. Í þessum litla bæ voru allir helstu embættismenn landsins búsettir, þar voru stærstu verslanirnar, framhaldsskólarnir og sjávarútvegur var ört vaxandi atvinnugrein sem kallaði fólk til vinnu, alls staðar að af landinu. Sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst og var næsti áfangi hennar sá að ná framkvæmdavaldinu inn í landið með íslenskum ráðherra búsettum í Reykjavík eða Kaupmannahöfn, en um staðsetninguna var harðlega deilt. Á Alþingi átti kvenréttindabaráttan skelegga talsmenn í þeim Skúla Thoroddsen ritstjóra og Ólafi Ólafssyni fríkirkjupresti sem fluttu frumvörp þing eftir þing um ýmis réttindi konum til handa. Utan dyra þingsins fóru kraftmiklar konur með pilsaþyti um bæinn, en þær höfðu svo sem áður segir ekki enn fundið kvenfrelsisbaráttunni farveg í félögum og blöðum.

Árið 1893 samþykkti Alþingi frv. Benedikts Sveinssonar um stofnun háskóla á Íslandi. Þegar málið kom fyrir konung var frumvarpinu hafnað og vakti það mikla reiði ákafra þjóðernissinna sem vildu ná menntun embættismanna endanlega inn í landið og stofna háskóla. Í Reykjavík var starfandi presta- og læknaskóli, en menntun lögfræðinga og annarra háskólaborgara fór fram í Kaupmannahöfn. Sem svar við synjun konungs var stofnaður sjóður til styrktar Háskóla Íslands. Í hópi hinna reiðu var Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir systir Benedikts en hún ásamt fleiri konum ákvað að taka til sinna ráða, kalla saman fund kvenna og hefja fjársöfnun í háskólasjóðinn. Þetta var sjálfstæðismál, en líka kvennamál. Peningunum sem konurnar öfluðu með hlutaveltu skyldi varið til að styrkja stúlkur til náms í væntanlegum háskóla. Þetta var róttæk yfirlýsing, því konur höfðu ekki einu sinni fengið rétt til að setjast á skólabekk í Lærða skólanum við hlið pilta, en máttu þó lesa utan skóla til stúdentsprófs. Þarna var á ferð krafa um möguleika til aukinnar menntunar kvenna. Það gefur auga leið að konurnar litu svo á að það yrði mun auðveldara fyrir konur að stunda háskólanám hér heima sökum efnaleysis en að halda utan, enda kom í ljós þegar Laufey Valdimarsdóttir hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla 1910 að hún hafði ekki aðgang að því styrkjakerfi sem bauðst öllum íslenskum karlstúdentum. Þar var ekki gert ráð fyrir konum!

ÁSKORANIR OG UNDIRSKRIFTIR

Kvennafundurinn var haldinn 26. janúar 1894 í Goodtemplarahúsinu við Tjörnina. Þangað mættu um 200 konur og hlýddu á ræður Þorvaldar Thoroddsen náttúrufræðings og Þorbjargar Sveinsdóttur um háskóla. Í kjölfar þessa fundar var Hið íslenska kvenfélag stofnað. Þótt háskólamálið hafi hleypt því af stað urðu málefni kvenna í allra víðasta skilningi verkefni félagsins meðan það lifði. Félagið skipti sér af bindindismálum en um þau voru afar heitar deilur sem lyktaði með því að áfengisbann var samþykkt 1909 en skyldi komið á í áföngum. Kvenfélagskonurnar ræddu jafnrétti kynjanna og fjármál giftra kvenna en konur réðu litlu um þau þar til ný lög voru samþykkt árið 1900. Skipulögð var keyrsla á þvotti inn í laugar og í bæinn aftur, en það var gríðarlega erfitt verk fyrir húsmæður og vinnukonur að bera blautan þvott á bakinu frá laugunum og niður í bæ. Þekkt var dæmið um vinnukonuna sem datt í læk og drukknaði um 1880 vegna þess að hún gat ekki reist sig upp undan þungri byrði. 1895 var safnað undirskriftum undir áskorun um að konur fengju að njóta kennslu í Latínuskólanum (MR), skorað var á Alþingi að endurskoða hjúskaparlöggjöfina og þess krafist að konur fengju kosningarétt og kjörgengi. Undir þessa áskorun skrifuðu 2.384 konur alls staðar að af landinu. Félagið stofnaði Sjúkrasjóð Íslands til styrktar sjúklingum og einnig sjóð til styrktar gömlu uppgefnu kvenfólki sem varðist sveit.

Það sýnir áherslurnar í félagsstarfinu að ákveðið var að senda fulltrúa á Þingvallafund 1895 en þeir fundir fjölluðu um stöðu sjálfstæðisbaráttunnar. Ólafía Jóhannsdóttir sem að dómi undirritaðrar er ein allra merkasta kvenréttindakona okkar mætti til fundarins og var henni ætlað að ræða fjögur mál: kvenréttindamálið, háskólamálið, stjórnarskrármálið og bindindismálið. Það tvennt sem verður þó að teljast merkast í starfi Hins íslenska kvenfélags séð út frá þróun kvennabaráttunnar var annars vegar útgáfustarfsemi þess og hins vegar þátttakan í framboðshreyfingu kvenna á tímabilinu 1908-1916.

KÚGUN KVENNA OG FRAMBOÐSMÁL

Í upphafi var ákveðið að félagið gæfi út ársrit og kom það út í fjögur ár. Í því er að finna bæði þýddar og frumsamdar greinar sem tengja saman kvenfrelsis- og þjóðfrelsisbaráttu þessa tíma auk annars efnis. Þarna eru á ferð merkileg skrif vegna þess að verið var að kynna hugmyndaheim kvennabaráttunnar og ekki síður vegna þess að í ritunum er að finna nokkrar af þeim örfáu greinum sem til eru eftir konur um þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga. Þá er ekki síður merkilegt að árið 1900 stóð félagið fyrir útgáfu á einni helstu biblíu kvenréttindahreyfingarinnar, "Kúgun kvenna" eftir John Stuart Mill (The Subjection of Women, sem fyrst kom út í Bretlandi 1869).

Í byrjun árs 1908 stóðu mál þannig að lög gengu í gildi sem veittu giftum konum kjósenda í Reykjavík og Hafnarfirði rétt til að bjóða sig fram og kjósa til bæjarstjórnar. Einn stærsti áfanginn í baráttu kvenna var þá eftir en það var kosningaréttur og kjörgengi til Alþingis. Framundan voru bæjarstjórnarkosningar og konur sáu að nú var tækifæri til að sýna og sanna að þær ættu erindi í pólitík, að þær vildu aukin réttindi og myndu nýta þau. Þegar hér var komið sögu var mikill skriður kominn á kvenréttindabaráttuna. Kvenréttindafélag Íslands hafði verið stofnað 1907 sem kosningaréttarfélag í tengslum við alþjóðahreyfingu kvenna, en konurnar í Hinu íslenska kvenfélagi vildu ekki breyta sínu félagi, leggja líknarstörfin á hilluna og snúa sér eingöngu að réttindamálum kvenna. Það breytti þó ekki því að félagið var til í kosningaslaginn og tók formaður félagsins Katrín Magnússon sæti efst á kvennalistanum sem vann frækilegan sigur í kosningunum 1908, er fjórar konur settust fyrstar kvenna í bæjarstjórn Reykjavíkur.

KVENFÉLAGASAMBAND VERÐUR TIL

Á næstu árum var baráttan fyrir kosningarétti og kjörgengi til Alþingis efst á baugi, en er hann náðist 1915 áttu kvenfélagskonur drjúgan þátt í þeirri ákvörðun að minnast kosningarréttarins með því að reisa landspítala og söfnuðu fé til hans. Næstu áratugina sinnti félagið ýmis konar félagsmálum, beitti sér fyrir húsmæðrafræðslu og húsmæðraskólum og loks var þáverandi formaður félagsins Ragnhildur Pétursdóttir fremst í flokki þeirra sem vildi sameina öll kvenfélög landsins í eitt kvenfélagasamband, sem varð að veruleika 1930. Hugmynd Ragnhildar og fleiri kvenna var sú að skapa vettvang sem gæfi konum kost á að hafa áhrif á ákvarðanir um málefni heimilanna og fjölskyldnanna í landinu m.a. með því að Kvenfélagasambandið yrði viðurkenndur umsagnaraðili um lagafrumvörp, líkt og Búnaðarfélagið um málefni bænda. Forystukonur kvenfélaganna vildu fá húsmóðurstarfið viðurkennt sem starf sem krefðist menntunar og því var eitt helsta baráttumál þeirra að komið yrði á skipulagðri húsmæðrafræðslu. Húsmæðraskólar risu um allt land en breyttir þjóðfélagshættir kipptu grundvellinum undan þeim er konur tóku að streyma út á vinnumarkaðinn og afla sér ýmis konar starfsmenntunar upp úr 1960. Það má segja að með þróun Kvenfélagasambandsins, þjóðfélagsbreytingum og nýjum félögum af ýmsu tagi hafi saga Hins íslenska kvenfélags verið öll.

FORYSTUKONUR

Hið íslenska kvenfélag var fjölmennt félag framan af og þar störfuðu konur sem létu til sína taka með einum og öðrum hætti í bæjarlífinu. Hér er aðeins ráðrúm til að nefna formennina en fleiri ættu vissulega skilið umfjöllun.

Fyrsti formaður Hins íslenska kvenfélags var Sigþrúður Friðriksdóttir úr Akureyjum, en um merkileg hjónabandsmál hennar og systra hennar má lesa í grein eftir Lúðvík Kristjánsson (Vestræna 1981). Sigþrúður giftist Jóni Péturssyni háyfirdómara og kom hún víða við félags- og skólamál kvenna á síðasta fjórðungi 19. aldar. Þorbjörg Sveinsdóttir tók fljótlega við formennskunni og undir hennar stjórn var sú merka útgáfa sem áður er getið. Þorbjörg var afar merkileg kona og eru til af henni margar sögur. Hún þótti mjög pólitísk, hélt ræður á opinberum fundum sem var harla fátítt um konur á hennar tíð. Hún var hatrammur andstæðingur Valtýskunnar sem gekk út á það að þegar íslenskur ráðherra fengist yrði hann staðsettur í Kaupmannahöfn. Það sjónarmið taldi Þorbjörg og fleiri jaðra við landráð. Í ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar er að finna sögu af Þorbjörgu sem höfð er eftir Þuríði systur séra Árna. Þuríður átti leið um Skólavörðustíginn þar sem Þorbjörg bjó og sá hvar ljósmóðirin var úti við hlaðinn grjótgarðinn umhverfis húsið og grýtti steinum út á stíginn. Við nánari athugun kom í ljós að Þorbjörg var svo reið vegna umræðna á Alþingi að hún skeytti skapi sínu á veggnum þar sem annað betra bauðst ekki. Hún hafði hvorki kosningarétt né kjörgengi þar sem landsmálin áttu í hlut og hefur eflaust sviðið sárt undan því.

Eftir dauða Þorbjargar 1903 tók Katrín Skúladóttir Magnússon við formennsku og gegndi henni til ársins 1924. Katrín var eiginkona hins virta læknis Guðmundar Magnússonar og var um árabil eins konar yfirhjúkrunarkona og aðstoðarlæknir hans þótt hún hefði ekki menntun til þess, auk þess að sitja í bæjarstjórn, nefndum bæjarins og sinna félgasstörfum. Síðasti formaður Hins íslenska kvenfélags var Ragnhildur Pétursdóttir úr Engey. Hún var hússtjórnarkennari um skeið og mjög virk í félagslífi kvenna. Hún var í framboði á kvennalista í Reykjavík 1912 og 1916. Ragnhildur skrifaði m.a. bækling gegn Ingibjörgu H. Bjarnason þegar Ingibjörg sem fyrst íslenskra kvenna tók sæti á Alþingi (kjörin af kvennalista 1922) gekk í Íhaldsflokkinn við stofnun hans, en það taldi Ragnhildur svik við málstað kvenna. Ragnhildur varð fyrsti formaður Kvenfélagasambands Íslands, jafnframt formennsku í Hinu íslenska kvenfélagi. Eftir dauða Ragnhildar í byrjun árs 1961 lognaðist þetta merka félag út af, enda tímarnir breyttir og þess skammt að bíða að konur risu upp undir öðrum formerkjum en kvenréttindakonurnar gömlu.

Það er mikið vatn runnið til sjávar frá því að synjun konungs á frumvarpi um stofnun háskóla á Íslandi kveikti þann eld sem varð til þess að fyrsta kvenréttindafélagið var stofnað sem um leið var líknarfélag. Af félaginu og þeim konum sem þar störfuðu er mikil og merkileg saga sem enn er óskráð. Sú saga minnir okkur á að kvennabarátta nútímans á sér rætur og að við eigum öllum þessum konum mikið að þakka. Það minnsta sem við getum gert er að halda minningu þeirra á lofti og kynna verk þeirra þeim kynslóðum Íslendinga sem eiga eftir að vaxa úr grasi. Sagan er til þess að læra af henni og til að gefa okkur viðmið, þannig að við áttum okkur á því hvar við stöndum og hvert við stefnum.

Höfundur er alþingismaður.

Heimildir: Bríet Héðinsdóttir: Strá í hreiðrið, Reykjavík 1988.

Gísli Jónsson: Konur og kosningar, Reykjavík 1977.

Kristín Ástgeirsdóttir: Félagsstörf kvenna á Íslandi, Húsfreyjan 1. tbl. 1990.

Lúðvík Kristjánsson: Heimasæturnar í Akureyjum, grein í Vestrænu, Reykjavík 1981.

Ragnhildur Pétursdóttir: Fimmtíu ára minning Hins íslenska kvenfélags, Nýtt kvennablað 1944.

Sigríður Th. Erlendsdóttir: Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992, Reykjavík 1993.

Sigríður Thorlacius: Margar hlýjar hendur, Reykjavík 1981.

Þórbergur Þórðarson: Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar I. Mál og menning 1982.

1)

Íslenzk 19. aldar kona, Málfríður Sveinsdóttir í Reykjavík, íklædd faldbúningi með spaðafald á höfði. Hún var um þetta leyti frammistöðustúlka í Klúbbnum í Reykjavík. Það var þó hvorki hún né stallsystur hennar í höfuðstaðnum, sem fyrstar urðu til þess að mynda kvenfélag. Til þess urðu skagfirskar konur fyrstar.

2)

Ólafía Jóhannesdóttir til hægri og fóstra hennar, Þorbjörg Sveinsdóttir. Þorbjörg var ræðumaður á 200 kvenna fundi 26. janúar, 1894 og ræddi þá um háskóla. Í kjölfar fundarins var Hið íslenska kvenfélag stofnað.