Hagstæð lán? Íslensk ungmenni hafa litla fjármálafræðslu fengið.
Hagstæð lán? Íslensk ungmenni hafa litla fjármálafræðslu fengið. — Morgunblaðið/RAX
„ÞAÐ er óneitanlega dapurlegt að það hafi þurft þjóðargjaldþrot til að breyta áherslunum,“ segir í umfjöllun Neytendastofu um „bankaböl góðærisins,“ sem birt var í gær.
„ÞAÐ er óneitanlega dapurlegt að það hafi þurft þjóðargjaldþrot til að breyta áherslunum,“ segir í umfjöllun Neytendastofu um „bankaböl góðærisins,“ sem birt var í gær.

Neytendastofa rifjar þar upp ásækna markaðssetningu bankanna sem beindist sérstaklega að ungu fólki og námsmönnum og virtist markmiðið „einna helst vera að skuldsetja þjóðina“.

Sem dæmi má nefna að auglýsingar sem sýndu ungt fólk fagna því hvernig yfirdráttur hafi „reddað“ þeim gallabuxunum og gáfu í skyn að fullkomlega eðlilegt væri fyrir nema að fjármagna tölvu- og bílakaup og útskriftarferðir með lánum.

Sölumönnum bankanna hafi jafnan verið hleypt gagnrýnilaust inn í framhaldsskóla og þeir hafi jafnvel sést á rölti um kirkjugarðana til að telja unglinga í garðyrkjustörfum á að skrifa undir flókna samninga um séreignalífeyrissparnað.

Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, segir það íhugunarefni að eina fjármálakennslan sem flestum unglingum hafi staðið til boða hafi verið á vegum hagsmunaaðila, þ.e.a.s. bankanna.

Bæði foreldrar og yfirvöld hafi brugðist í því að fræða börn og unglinga um fjármál, bæði hafi skort til þess þekkingu sem og námsefni.

Breki segir hinsvegar sem betur fer mikla vitundarvakningu vera og hefst skipuleg kennsla á framhaldsskólastigi með námsefni sem hann hefur m.a. þróað í vetur. una@mbl.is

Neytendasamtökin segja markaðssetningu vafasama

Í Morgunblaðinu í gær var fjallað um gagnrýni á markaðssetningu bankanna. Ranglega var sagt að Neytendastofa hefði gagnrýnt bankana. Hið rétta er að Neytendasamtökin gagnrýna bankana fyrir að beina markaðssetningu að ungu fólki og námsmönnum þannig að tilgangur þeirra virtist að skuldsetja þjóðina.