Gestur Guðmundsson bóndi fæddist í Torfustaðakoti, síðar Sunnuhlíð í Vatnsdal, 20. september 1916. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 27. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðmundur Magnússon, f. 21. júlí 1874, d. 20. september 1934, og Guðrún Guðbrandsdóttir, f. 24. mars 1883, d. 13. september 1968. Systkini Gests: Björn, f. 1913, d. 2004, Guðlaugur, f. 1914, d. 2002, Kjartan, f. 1915, d. 1946, Magnús Gunnar, f. 1917, d. 2008, Sigurður, f. 1920, d. 2005, og Rannveig, f. 1923.

Gestur kvæntist árið 1953 Kristínu Hjálmsdóttur frá Hofstöðum í Borgarfirði, f. 5. október 1925, d. 4. maí 1988. Börn þeirra eru: 1) Guðrún, f. 1953, fyrrverandi sambýlismaður Einar Ólafur Jónasson, f. 1953. Börn þeirra: a) Gestur, f. 1977, b) Hafþór, f. 1979, sonur hans og Örnu Rutar Gunnarsdóttur er Veigar Bjarki, f. 2002, og c) Kristín, f. 1989, sambýlismaður Eiríkur Jónasson. 2) Birgir, f. 1959, sambýliskona Þórunn Ragnarsdóttir, f. 1960. Börn þeirra: a) Svanhildur, f. 1982, sambýlismaður Sigmundur Kristjánsson, b) Ármann Óli, f. 1983, sambýliskona Matthildur Birgisdóttir, c) Kristín, f. 1984, og d) Harpa, f. 1993. 3) Gunnhildur, f. 1965, sambýlismaður Svanur G. Bjarnason, f. 1965. Börn þeirra Kristinn, f. 1991, og Anna Berglind, f. 1992. Sonur Kristínar og fóstursonur Gests er Hjálmur Steinar Flosason, f. 1948, maki Sigrún María Snorradóttir, f. 1951. Börn þeirra: a) Elín, f. 1972, maki Örn Arnar Jónsson, börn þeirra Ágúst Orri, f. 2000, Hlynur Örn, f. 2002, fyrir átti Elín soninn Steinar Inga, f. 1997, barnsfaðir Halldór Gíslason Kolbeins, b) Arnar, f. 1980, sambýliskona Kristín Ragnarsdóttir, barn þeirra Emil Þorri, f. 2009.

Gestur ólst upp í Vatnsdalnum og bjó þar alla tíð. Fyrstu búskaparárin bjó hann í Sunnuhlíð ásamt móður sinni og síðar með Kristínu konu sinni. En síðar keyptu þau 7/10 af Kornsá í sömu sveit og fluttu þangað um vorið 1962. Hann ræktaði og byggði upp þessar tvær jarðir. Um 1980 hófu Birgir og Þórunn búskap á jörðinni ásamt Gesti og Kristínu sem smám saman drógu sig í hlé en Gestur vann áfram að búinu meðan hann hafði þrek til. Gestur var sannur bóndi og bar mikla virðingu fyrir náttúrunni. Hann var sjálfstæður og hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum.

Útför Gests fer fram frá Þingeyrakirkju í dag, 10. júlí, og hefst athöfnin kl. 13.

Æðruleysi, hlýja og umhyggja kemur upp í hugann er ég sest niður og skrifa nokkur minningarorð um föður minn, Gest Guðmundsson bónda í Vatnsdal, er lést á 93 aldursári.

Ég var lánsöm og naut þeirra forréttinda að alast upp í sveit undir handleiðslu foreldra minna sem kenndu mér að bera virðingu fyrir náttúrunni og dýrunum.

Pabbi minn, þú varst orðinn þreyttur og tilbúinn að sofna í dalnum þínum sem þú unnir svo mjög. Þú vissir að hverju stefndi og ræddir það við okkur en ósk þín var að halda sjálfstæði og reisn fram á síðasta dag sem þú og gerðir.

Í vor varst þú orðinn veikur og þann 20. maí sl. lagðist þú inn á sjúkrahús en það var jafnframt þín fyrsta sjúkrahúsvist um ævina. Því tókst þú með æðruleysi eins og öðru sem að höndum bar.

Við áttum okkar góðu og ómetanlegu spjallstundir sem ég geymi vel. Ekki vorum við alltaf sammála en við hlustuðum og virtum skoðanir og viðhorf hvors annars.

Það sem einkenndi föður minn var jákvæðni, bjartsýni og þrautseigja. Hann var einnig iðinn við að ráðleggja og leiðbeina afkomendum sínum og hann leit um öxl, horfði yfir hópinn sinn og sagði: „Það mikilvægasta í lífinu er að vera góður og gjaldgengur þjóðfélagsþegn.“

Borinn og barnfæddur Vatnsdælingur,

blíður var hann barnssálum.

Frár á fæti, laus við glingur,

fylgdist vel með þjóðmálum.

Náttúruna og dýrin dáði,

dalnum sínum unni hann.

Sjálfstæði í hjörtu sáði,

sveitin missti góðan mann.

Með bjartsýni að leiðarljóma

og lífsspeki hans kynslóðar

óttast ég ekki lífsins óma

eflist vel til lífróðrar.

Að fæðast og deyja,

þetta er gangur lífsins.

Elsku pabbi, ég vil þakka þér fyrir alla þá umhyggju og hlýju sem þú sýndir mér og fjölskyldu minni.

Þín dóttir

Gunnhildur.

Ég kom ungur drengur að Sunnuhlíð í Vatnsdal ásamt móður minni, Kristínu (Stínu), sumarið 1952, er hún réðst þangað sem kaupakona. Eins og títt var ílengdumst við í Vatnsdalnum og fluttum þangað ári síðar þegar móðir mín og Gestur gengu í hjónaband. Frá upphafi tóku Gestur og Guðrún móðir hans mér sérstaklega vel og reyndist hann mér ætíð eins og besti faðir. Ekki féllst ég á að kalla Gest pabba þótt það stæði opið en Guðrúnu kallaði ég ávallt ömmu.

Gestur bjó fyrstu búskaparár sín í Sunnuhlíð ásamt móður sinni og byggði þar upp. Við komu móður minnar inn á heimilið tók hún við búsforráðum en Guðrún vann að búinu meðan heilsa hennar leyfði.

Sunnuhlíð var á ýmsan hátt erfið búskaparjörð. Fremur landlítil og vegasamband afar erfitt fyrstu árin. Vatnsdalsáin gat verið erfiður og varasamur farartálmi og ekki síður var Klifið svokallaða mikill farartálmi að vetrarlagi og lagði Gestur sig oft í mikla hættu við að flytja mjólkina í veg fyrir mjólkurbílinn og flytja heim þann varning sem þurfti að fá úr kaupstað. Það er alveg víst að móðir mín og amma fengu ekki alltaf alla vitneskju um þessar hættuferðir fyrr en löngu síðar. Gestur var ekki endilega að hafa mörg orð um hlutina.

Kornsá var ein af stærri jörðum sveitarinnar og þar sá Gestur mikla möguleika. Hann hóf þar mikla uppbyggingu og ræktun. Aðkoman var fremur slæm og voru mörg handtökin sem þurfti að vinna. Hvorki var rennandi vatn né frárennsli í íbúðarhúsinu og var það sem og útihús í slæmu ástandi. Þessi fyrstu ár á Kornsá eru öllum í fersku minni vegna mikillar vinnu en samt á ýmsan hátt lærdómsríkur tími. Með aðkomu Birgis og Þórunnar að búskapnum drógu Gestur og Kristín sig smátt og smátt til hliðar en unnu að búinu meðan þrek leyfði.

Gestur var sannur bóndi. Hann lifði á því sem landið gaf. Auk hefðbundins búskapar stundaði hann veiðar í heiðarvötnum og veiddi fugl til matar. Hann lagði mikla fæð á ref og mink en þau dýr taldi hann mikinn skaðvald í náttúrunni, einkum hefðu þau slæm áhrif á fuglalíf og fiskigengd í ám og vötnum. Hin síðari ár ræktaði Gestur kartöflur og lagði í það mikla alúð. Nutum við öll góðs af því starfi.

Gestur var einstaklega barngóður og hafði gott lag á börnum og unglingum. Oft voru mörg börn og unglingar í sveit hjá Stínu og Gesti og mörg hver árum saman. Í þeim fáu frístundum sem gáfust frá önnum dagsins var Gestur til í að bregða á leik með okkur krökkunum og þá var oft mikið fjör á bænum. Í minningunni eru stundir eftir hádegismatinn sérstaklega minnisstæðar. Þá hugðist Gestur halla sér augnablik og lagðist þá gjarnan á gólfið í borðstofunni. Ekki voru þessar stundir alltaf rólegar því hann hafði alveg sérstakt lag á að laða að sér yngstu börnin og nutu þau þess að hnoðast á honum eða nota hann sem fjall fyrir bíla eða önnur leikföng sem þá voru gjarnan búsmalinn.

Við fjölskyldan viljum þakka Gesti fyrir samfylgdina og þær fjölmörgu samverustundir sem við nutum saman. Blessuð sé minning hans.

Hjálmur Steinar Flosason.

Gestur er dáinn, starfsþrekið þrotið og hvíldin kærkomin. Samt erum við aldrei viðbúin, fráfallið óvænt og sárt.

Gestur var duglegur og framsýnn bóndi sem byggði upp tvær jarðir í dalnum sem hann unni svo heitt og var heimili hans alla tíð. Hann átti Kristínu, yndislega konu, sem stóð með honum í einu og öllu en féll frá langt fyrir aldur fram.

Gestur var ákveðinn, fastur fyrir og hafði ætíð skoðanir á mönnum og málefnum. Hann fylgdist vel með pólitík fram á síðustu stundu og hafði jafnan ákveðnar skoðanir á málum líðandi stundar. Þeir sem lentu í rökræðum við hann kannast við það þegar hann fór í skúffuna, fann úrklippu úr Mogganum, slengdi henni fram og sagði: „Hana! Lestu. Hér stendur þetta.“ Eða þegar hann sló öll vopn úr höndum viðmælenda sinna og sagði: „Þú hlýtur nú að sjá þetta sjálfur. Þú svona greindur maðurinn.“

Gestur afi var maður sem gott var að leita til og hafði alltaf tíma fyrir afabörnin. Það var stutt að skjótast til afa og oft gripið í spil. Hann hafði mjög gaman af að spila og kenndi mörgum börnum að spila. Þegar Harpa var tveggja ára var hann búinn að kenna henni á spilin og fimm ára var hún orðin gjaldgeng í manna. Það mátti engan tíma missa, slíkur var áhuginn. Afi spilaði alltaf til sigurs og gaf engum slag enda þurfa allir bæði að læra að sigra og tapa.

Gestur hafði mikinn áhuga á íþróttum og ég er ekki í nokkrum vafa að sem ungur maður í dag væri hann á fullu í þeim. Þegar aldurinn færðist yfir og starfsorkan minnkaði lét hann engan íþróttaviðburð í sjónvarpi fram hjá sér fara. Horfði oft á beinar útsendingar langt fram á nótt. Systkinunum leiddist ekki þessi íþróttaáhugi hans. Hann var góður í marki, hittinn á körfu og þegar sú yngsta fékk badmintonspaða keypti hann sér annan til að spila við hana. Það var ekki til sú íþróttagrein eða græjur til íþróttaiðkunar sem slæddust inn á heimilið sem hann var ekki til í að prófa.

Þegar amma Stína dó fannst Ármanni Óla ekki hægt að afi byggi einn en fimm heima hjá sér svo hann flutti að heiman, tæplega fimm ára, og fór að búa hjá afa. Reyndar komu þeir báðir í mat yfir. Með tímanum taldi hann afa tilbúinn að búa einan og flutti aftur heim. Gestur taldi það líka og smátt og smátt fór hann að sjá um sig sjálfur. Eldaði, þreif og þvoði þvott og fór það vel úr hendi.

Kartöflurnar hans Gests voru sér kapítuli. Á hverju vori taldi hann að nú þyrfti að stækka garðinn. Eitt vorið þegar Birgir mótmælti sagði Gestur að Gunnhildur ætlaði að setja niður grænmeti og hún þyrfti líka pláss. Garðurinn var stækkaður en ekkert bólaði á gulrótarplöntum eða öðru slíku frá Selfossi. Stóð líklega aldrei til. En það fór vel um kartöflur í plássinu. Hann hafði sitt fram „sá gamli“. Svo var vökvað, hvernig sem viðraði, og hverri arfakló sem vogaði sér að kíkja upp úr moldinni samstundis kippt upp. Natnin var einstök og kartöflurnar góðar.

Ég kveð háaldraðan tengdaföður með þakklæti og tel mig betri manneskju að hafa fengið að kynnast honum.

Hvíldu í friði, elsku Gestur.

Þórunn.

„Það eina sem maður veit þegar maður fæðist er að maður deyr,“ en þetta hefur hann afi minn sagt mér reglulega síðustu 20 ár og nú er hann fallinn frá. Minningar mínar um hann afa eru ansi margar og skemmtilegar. Oft fór ég í sveitina til afa og ömmu með rútunni þegar ég var lítill pjakkur. Þegar á Blönduós var komið biðu afi og amma og tóku á móti mér með bros á vör. Í sveitinni fór maður í öll störf með afa en alltaf fékk maður að leika sér þegar úthaldið var brostið við vinnuna. Hann afi var mikill áhugamaður um íþróttir og voru Ólympíuleikarnir í miklu uppáhaldi. Sumarið 1984 voru þeir haldnir í Los Angeles og horfðum við afi alltaf þegar hann hafði tíma á íslensku keppendurna keppa og þá sérstaklega íslenska handboltalandsliðið sem náði glæsilegum árangri á þessum leikum, alltaf sat amma með okkur að horfa en hún var nú reyndar alltaf meira upptekin við prjónaskapinn heldur en að horfa á sjónvarpið. Því gladdi það mig mjög mikið síðasta sumar þegar við nafnarnir sátum saman og horfðum á íslenska landsliðið 24 árum seinna á Ólympíuleikum ná silfrinu og er það mér ógleymanlegt hvað afi var stoltur Íslendingur þá eins og öll þjóðin, þó að honum hafi þótt við hafa tapað gullinu en ekki unnið eitthvert silfur! Það eru nú sennilega ekki margir sem læra að elda sem eru orðnir eldri en sjötugir en eftir að amma féll frá þá lærði afi að elda ofan í sig og gerði hann það bara með miklum ágætum og minnist ég alltaf rabbagrautsins sem hann eldaði og var alveg eins og amma gerði hann alltaf. Alltaf þegar maður hringdi eða kom í sveitina þá spurði afi mann um hvernig gengi í skólanum eða vinnunni og hvort allir væru ekki hressir, síðan var yfirleitt gripið í nokkur spil. Stjórnmál voru alltaf mikið áhugamál hjá afa og ræddum við þau ansi oft og mikið og ekki vorum við alltaf sammála en aldrei var ég eins stoltur og þegar afi 85 ára gamall sagði sig úr Framsóknarflokknum og sagði að þetta væri ekki flokkurinn sem hann hefði alltaf kosið. Það er ekki hægt að minnast á allt það sem afi gerði í gegnum tíðina en ég verð að minnast á það þegar hann dreif sig til Akureyrar og ákvað að gefa Mæðrastyrksnefnd mjög svo myndarlega peningaupphæð en þetta hafði hann og ömmu alltaf langað til að gera og var afi virkilega ánægður með að hafa látið af þessu verða. Í síðustu heimsókn minni til afa á Kornsá áður en hann fór inn á sjúkrahús sátum við saman og horfðum á handboltaleiki sem ég kom með frá leikjum Akureyrar-handboltafélags síðasta vetur og var afi virkilega stoltur að sjá barnabarn sitt vinna þessa leiki.

Svefninn langi laðar til sín

lokakafla æviskeiðs

hinsta andardráttinn

andinn yfirgefur húsið

hefur sig til himna

við hliðið bíður Drottinn.

Það er sumt sem maður saknar

vöku megin við

leggst útaf á mér slökknar

svíf um önnur svið

í svefnrofunum finn ég

sofa lengur vil

þegar svefn minn verður eilífur

þá finn ég aldrei aftur til

(Björn J. Friðbjörnsson og Daníel Ágúst Haraldsson)

Blessuð sé minning þín, afi minn.

Þinn dóttursonur

Gestur.

Nú er hann afi okkar dáinn, farinn til hennar ömmu sem hann saknaði svo mikið.

Afi var alveg ótrúlegur maður sem við erum svo heppin að hafa kynnst. Þegar við hugsum um afa er orðið þakklæti það sem leitar á hugann. Þakklæti fyrir að sýna okkur alla þessa þolinmæði, þakklæti fyrir að sýna okkur og kenna okkur hluti sem við höfðum hvorki séð né prufað áður. Þakklæti fyrir að vera til staðar fyrir okkur þegar á þurfti að halda. Síðast en ekki síst þakklæti fyrir allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum, hvort sem það var við spilaborðið, í labbitúrunum eða við þessa hverdagslegu iðju.

Elsku afi okkar, fyrir þetta og svo margt annað viljum við þakka þér. En við vitum að þú fylgist með og leiðbeinir okkur þar sem þú situr nú við hliðina á ömmu.

Blessuð sé minning þín.

Hafþór Einarsson, Kristín Einarsdóttir og Veigar Bjarki.

Elsku afi.

Nú ertu kominn upp til himna til ömmu Stínu og við erum alveg viss um að þið eruð að horfa niður á fallegu sveitina ykkar. Þar verður tómlegt án þín. Það voru forréttindi að fá að alast upp svona nálægt þér og endalausar minningar sem við eigum saman. Þær eru jafn misjafnar og þær eru margar en allar fullar af gleði og leik. Margt er það sem við minnumst öll saman en annað meira hvert fyrir sig.

Fyrir eitt okkar eru það helst óteljandi ferðir upp á háls. Oftast á hestum að reka kindur. Í hverri ferð var farið yfir helstu örnefni, talað um gróður og dýr og ef heppnin var með hleypt á moldargötum eða árbakkanum.

Fyrir annað eru það veiðiferðir í Refskegg. Fyrst á gamla Land Rovernum og svo Lödunni með tilheyrandi ökukennslu um leið og augun sáu upp fyrir stýrið og fæturnir náðu niður á pedalana. Og auðvitað þegar hann flutti inn hjá afa fimm ára gamall. Fannst það ósanngjarnt að afi væri einn sín megin eftir að amma dó og við hin fimm hinumegin.

Fyrir það þriðja eru það stundirnar sitjandi á öxlunum á honum meðan hann hélt vatnsglasi uppi svo það væri hægt að dýfa greiðunni reglulega í og greiða honum ofsa fínt.

Fyrir það fjórða og yngsta sem hafði ekki alltaf öll hin í kringum sig var afi heimsins besti leikfélagi. Alltaf til í boltaleik, badminton eða að spila. Að vera ein heima var aldrei vandamál því hún var jú ekki ein, afi var bara nokkur skref í burtu.

Öll munum við sakna þess að geta ekki lengur farið yfir og fengið köku og mjólk, spjallað um daginn og veginn og auðvitað tekið í spil. Afi nennti sko alltaf að spila. Þær eru líklega frekar taldar í vikum eða mánuðum en dögum stundirnar sem við höfum spilað við hann manna, kasínu, rússa og ólsen. Harpa var ekki orðin tveggja ára þegar hann var búinn að kenna henni að þekkja spilin og það var ómögulegt að hafa hana hjá sér þegar var spilað því hún kjaftaði alltaf frá hvað maður átti á hendi.

Afi var mikill áhugamaður um íþróttir og holla hreyfingu og það var sama hvort hann var vakandi eða sofandi þegar maður kom yfir til hans, hann var alltaf tilbúinn að taka smáleik. Uppáhaldsleikurinn þegar afi var „sofandi“ var að hoppa yfir prikið. Þá hélt hann priki út í loftið meðan hann lá í sófanum sem hann lagði sig í og við hoppuðum yfir mismunandi hæðir.

Öll fengum við hjálp frá afa við að læra að hjóla. Engin voru hjálpardekkin á hjólinu svo hann hljóp á eftir okkur, hélt í bögglaberann og sleppti svo þegar við vorum komin á ferð.

Hann stóð ósjaldan í marki í fótbolta og var ótrúlega hittinn í körfubolta. Það kom fyrir að ekkert okkar var úti en svo heyrðist bolti skoppa, þá stóð afi við körfuna og var að taka nokkur skot.

Það var ekki leiðinlegt að hjálpa afa að taka upp kartöflurnar því alltaf var nesti haft með, molar og súkkulaði í poka svo reglulega þurfti að stoppa til að fá smánesti hjá honum.

Við eigum eftir að sakna þín mikið, elsku afi, en það eru sem betur fer endalausar minningar sem við eigum um þig.

Svanhildur, Ármann Óli, Kristín og Harpa.

Gamall Land Rover silast upp Grímstunguna. Í honum er eldri maður að kveða og með honum tveir ljóshærðir drengir um fermingu. Árið er 1976, það er bjart sumarkvöld og þeir eru á leið inn í Refskegg, veiðivatn inni á heiðinni. Maðurinn er Gestur Guðmundson bóndi á Kornsá í Vatnsdal en strákarnir erum við frændurnir sem skrifum þessi orð.

Þetta var fyrsta minningin sem kom upp í hugann þegar við fréttum að Gestur væri fallinn frá. Okkur frændurna, gömlu kaupamennina, langar að minnast hans. Veiðiferðirnar upp í Refskegg eru ógleymanlegar. Okkur fannst Gestur vera í essinu sínu þegar við fórum fram á Grímstunguheiði til fiskjar í Refskeggi. Oft voru kveðnar vísur, sagðar sögur af gangnamönnum, svaðilförum fyrr á tímum og jafnvel að menn hafi fiskað svo vel að þeir þurftu að fórna síðu nærbuxunum sínum til að bera aflann heim. Þetta voru sögur sem við frændurnir drukkum í okkur. Síðan voru netin lögð, skotið í mark og okkur kennt að fara með byssur. Þessar ferðir eru með dýrmætustu minningum okkar úr dvölinni á Kornsá.

Þegar við lítum til baka gerum við okkur grein fyrir því hversu mikilvægt það var að vaxa upp í öryggi og undir handleiðslu manns sem leyfði manni að þroskast á eigin forsendum en leiddi okkur áfram þá leið sem hann taldi besta. Gestur var glaðlyndur maður, pólitískur, veiðimaður og náttúrubarn. Það voru oft fjörugar umræður um pólitík þegar verið var að stinga út eða baksa við önnur bústörf. Ekki minnkaði pólitískur áhugi þegar árunum fjölgaði og ekki vorum við alltaf sammála. En þegar búið var að þrátta var stutt í brosið, dillandi hláturinn og grín gert að öllu saman.

Gesti var umhugað um að menn færu vel með það sem þeim var trúað fyrir. Ekki mátti misbjóða vélunum né verkfærum sem notuð voru. Í seinni tíð þegar við komum norður í rjúpnaferðir þá skoðaði hann iðulega byssurnar okkar og aðgætti hvort þær væru vel þrifnar. Ef svo var ekki þá var vandað um fyrir okkur. Eftir það voru byssurnar ávallt í góðu standi. Þeir sem hafa umsjón með ungu fólki hefðu gott af því að skoða hvernig Gestur hafði sérstakt lag á því að biðja okkur að ganga til mismunandi verka. Okkur var aldrei skipað, heldur var sagt „Reynir, þar sem þú ert svo léttur á fæti, viltu þá ekki hlaupa fyrir lambið þarna“ eða „Haukur, þar sem þú ert svo laginn við vélar, viltu þá ekki skipta um tinda með mér“. Við beiðnir sem þessar gengu allir viljugir til verka. Svo hrósaði hann okkur fyrir ef við gerðum vel og sagði „þetta var lipurt hjá þér“. Ef honum mislíkaði þá skammaði hann okkur en gerði það með því að leiðbeina okkur þannig að við skildum hvað hann átti við. Þegar vistinni lauk tók hann okkur afsíðis, þakkaði okkur fyrir og greiddi okkur fyrir sumarvinnuna. Það voru ávallt stoltir og ánægðir ungir menn sem fóru heim úr sveitinni.

Við frændurnir eru þakklátir fyrir þau forréttindi að hafa fengið að vera samferða Gesti og vera í sveit hjá honum og Stínu frænku. Það sem við lærðum hjá þeim gerði okkur að betri mönnum og við búum að því enn þann dag í dag.

Haukur Óskarsson

og Reynir Sigurðsson.