10. júlí 2009 | Fólk í fréttum | 237 orð | 1 mynd

Jónas Sen gerir átta þætti um átta íslenska söngvara

Björk Jónas og Björk ferðuðust um heiminn til að kynna Volta-plötuna.
Björk Jónas og Björk ferðuðust um heiminn til að kynna Volta-plötuna. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Birgi Örn Steinarsson biggi@mbl.is JÓNAS Sen tónlistarmaður vinnur nú að nýrri sjónvarpsþáttaröð fyrir RÚV er ber heitið Átta raddir. Þættirnir verða átta talsins og í hverjum þeirra tekur hann fyrir einn íslenskan söngvara.
Eftir Birgi Örn Steinarsson

biggi@mbl.is

JÓNAS Sen tónlistarmaður vinnur nú að nýrri sjónvarpsþáttaröð fyrir RÚV er ber heitið Átta raddir. Þættirnir verða átta talsins og í hverjum þeirra tekur hann fyrir einn íslenskan söngvara. Þar á meðal verður Björk Guðmundsdóttir.

„Við erum búnir að taka upp megnið af viðtölunum og svo til alla tónlistina. Við klárum að vinna þetta núna í lok ágúst,“ segir Jónas en þættirnir verða sýndir einhvern tímann eftir áramót. „Þetta verð auk Bjarkar Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Þóra Einarsdóttir, Garðar Thór Cortes, Diddú, Ásgerður Júníusdóttir, Arndís Halla Ásgeirsdóttir og Bjarni Thor Kristinsson. Þetta er búið að vera ofsalega gaman. Þetta hefur verið mjög mikil vinna en skemmtileg.“

Ný tónlistaratriði verða kvikmynduð fyrir hvern þátt en auk þess að vera umsjónarmaður þáttanna mun Jónas leika með í einhverjum atriðanna. Upptökurnar með Björk fara fram í lok ágúst en Jónas vill alls ekki gefa upp hvaða lög hún kemur til með að syngja þar.

Eftirvinnsla hefst í haust og vonast Jónas til að þættirnir fari í loftið sem fyrst eftir áramót. Hann þvertekur ekki fyrir að einhverjar utanaðkomandi klippur rati inn í þættina í eftirvinnslunni en ekkert hefur þó verið ákveðið um það ennþá.

Jón Egill Bergþórsson er upptökustjóri þáttanna en þeir unnu saman áður að þáttunum Tíu fingur.

Óþreyjufullir aðdáendur Bjarkar sem geta ekki beðið eftir hennar framlagi til sjónvarpsseríunnar geta þá séð Björk og Jónas Sen saman á tónleikum á Voltaic, nýútkominni tónleikamynd söngkonunnar.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.