Þjórsá Engar ákvarðanir verða teknar um virkjanir í neðri hluta Þjórsár á næstunni og orkan verður ekki notuð fyrir álver á Suður- og Vesturlandi, samkvæmt núverandi stefnu stjórnvalda og Landsvirkjunar.
Þjórsá Engar ákvarðanir verða teknar um virkjanir í neðri hluta Þjórsár á næstunni og orkan verður ekki notuð fyrir álver á Suður- og Vesturlandi, samkvæmt núverandi stefnu stjórnvalda og Landsvirkjunar. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef ekki finnast leiðir til að virkja tefst uppbygging stórra atvinnufyrirtækja og hagvöxtur verður minni en ella. Það hefur einnig þau áhrif að tekjur ríkissjóðs minnka og atvinnuleysi eykst.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

ÁFORM um stórframkvæmdir til að skapa atvinnu og tekjur fyrir þjóðfélagið komast ekki til framkvæmda vegna erfiðleika við fjármögnun orkuöflunar. Þá virðast áform stjórnvalda um að stuðla að uppbyggingu stangast á við stefnu sömu stjórnvalda í málefnum Landsvirkjunar.

Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins spáir því að hálfs prósents hagvöxtur verði á næsta ári og 5% á árinu 2011, eftir nærri 11% samdrátt í ár. Forsendan fyrir þessum umskiptum er að byggt verði álver í Helguvík og álverið í Straumsvík stækkað. Gangi áform ekki eftir megi búast við áframhaldandi samdrætti á næsta ári og að hagvöxturinn 2011 verði helmingi minni en annars hefði orðið.

Veruleg óvissa er um bæði þessi verkefni og fleiri sem undirbúin hafa verið, eins og til dæmis álver við Húsavík. Álverð lækkaði verulega í heimskreppunni og möguleikar þessara fyrirtækja til að fjármagna uppbyggingu minnkuðu. Bitna erfiðleikarnir enn meira á orkufyrirtækjum en erlendum eigendum atvinnufyrirtækjanna því lánstraust Íslendinga skaðaðist illilega í bankahruninu í október. Það hefur komið fram á ýmsan hátt, meðal annars í lækkun á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar.

Staðan er þannig að orkufyrirtækin virðast ekki eiga kost á lánsfjármögnun á viðráðanlegum kjörum. Lítið vit er í því fyrir þau að ráðast í framkvæmdir þegar megnið af arðseminni hverfur í vaxtahítina. Ef ekkert verður virkjað verða stóriðjufyrirtækin heldur ekki byggð upp.

Hindrunum verði rutt úr vegi

Í stöðugleikasáttmála sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin gerðu í lok júní lofar ríkisstjórnin að greiða götu framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Einnig er rætt um að hraða undirbúningi vegna áforma um ýmsan annan iðnað, svo sem gagnaver og kísilflöguframleiðslu. „Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009,“ segir þar.

Samkomulagsgrundvöllur er milli Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan um sölu á rafmagni frá Búðarhálsvirkjun til stækkunar álversins í Straumsvík. Vegna erfiðleika við fjármögnun framkvæmda hjá báðum fyrirtækjunum hefur upphafi framkvæmda verið frestað fram á næsta ár.

Álver Norðuráls í Helguvík er einna lengst komið þeirra stóru verkefna sem rætt hefur verið um. Verklegar framkvæmdir voru hafnar fyrir hrun en hafa verið í hægagangi síðan þá. Samið var um að HS orka og Orkuveita Reykjavíkur myndu útvega nauðsynlega orku, miðað við upphafleg áform. Fyrirtækin hafa ekki getað lokið fjármögnun nauðsynlegra virkjana. Nýjasta merki þess er að Evrópski fjárfestingarbankinn hefur neitað að ganga frá lánafyrirgreiðslu til OR vegna óvissu í íslensku efnahagslífi. Þá hefur óvissu vegna breytinga á eignarhaldi HS orku ekki verið eytt að fullu.

Landsvirkjun heft

Norðurál hefur snúið sér til Landsvirkjunar og óskað eftir orku til að brúa bil, amk. Landsvirkjun hefur undirbúna virkjanakosti og með því að bæta þeirri stoð í orkuöflunina ætti að vera auðveldara að setja verkefnið á fullt þegar rofa fer til á fjármálamörkuðum.

Ákveðnar hindranir eru í vegi þess að Landsvirkjun komi að málinu, fyrir utan erfiðleika við fjármögnun. Stjórn fyrirtækisins hefur þá stefnu að ganga ekki til samninga um orkusölu til álfyrirtækja á Suður- og Vesturlandi. Ætlunin er að nota orku úr neðrihluta Þjórsár í eitthvað annað.

Undirbúningur fyrir virkjanir þar er langt kominn. Hins vegar er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og VG kveðið á um að engar ákvarðanir verði teknar um virkjanir í neðri hluta Þjórsár fyrr en rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða liggur fyrir. Áform eru um að leggja hana fyrir þingið næsta vetur. Ljóst er að ríkið mun ekki afhenda Landsvirkjun vatnsréttindin eða gefa út virkjanaleyfi fyrr en rammaáætlunin lítur dagsins ljós, þótt búið sé að leggja mikla fjármuni í undirbúning og enn sé unnið.

Mögulegt að verkefnafjármagna virkjanir

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir að allra leiða sé leitað til að fjármagna orkuframleiðslu fyrir iðjuverin. Nefnir hún möguleika á að verkefnafjármagna einstakar virkjanir.

Katrín segir að breytingar á lögum um eignarhald á orkuauðlindum, þar sem einkafjármagnið sé takmarkað við orkuframleiðslu og sölu, skapi möguleika á nýjum fjármögnunarmöguleikum. Nefnir hún að viðræður séu við lífeyrissjóðina um aðkomu þeirra. Þá sé verkefnafjármögnun möguleg þar sem erlendir jafnt og innlendir aðilar gætu tekið þátt í henni.

Iðnaðarráðherra segist ekki geta svarað því hvort Landsvirkjun geti selt orku til álvers Norðuráls í Helguvík. Verið sé að fara yfir þau mál. Spurð um eigin afstöðu til þess segir Katrín: „Ég sé það alveg fyrir mér að Landsvirkjun geti komið tímabundið að þessari orkuöflun, á meðan áfangar eru að byggjast upp og þar til þeir sem hafa samið um að leggja til orkuna geta útvegað hana.

Við erum að leita allra leiða, viljann vantar ekki,“ segir Katrín almennt um orkuöflun fyrir stjóriðju og önnur minni verkefni. „Það þarf að sjá fyrir endann á þessu svo hægt sé að byrja að virkja.“