22. júlí 2009 | Aðsent efni | 1281 orð | 2 myndir

Hvernig getur þetta gerst?

Eftir Hörð Felix Harðarson og Ragnar H. Hall

Hörður Felix Harðarson
Hörður Felix Harðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hörð Felix Harðarson og Ragnar H. Hall: "Aðferðin sem samið var um felur í sér ívilnun til Breta og Hollendinga á kostnað Íslendinga og er að dómi undirritaðra ekki í samræmi við þá aðferð sem beita ber við úthlutun eigna Landsbankans."
SÚ EINKENNILEGA niðurstaða hefur orðið í samningum Íslands við Breta og Hollendinga að greiðsluábyrgð Íslendinga verður ekki úr sögunni þótt þrotabú Landsbankans nái að greiða 20.887 evrur upp í innstæðu hvers reikningseiganda. Þótt enginn hafi haldið því fram að Ísland eða tryggingasjóður innstæðueigenda hafi ábyrgst innstæðueigendum í Landsbankanum hærri fjárhæð varð þetta niðurstaða samninga. Hvernig getur þetta gerst?

Með lögum um tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta nr. 98 frá 1999 (tryggingasjóðurinn) var innstæðueigendum veitt takmörkuð vernd gegn greiðsluerfiðleikum íslensks banka. Veitir sjóðurinn tryggingu fyrir fullri útborgun innstæðunnar allt að jafnvirði rúmlega 20.000 evra. Í Bretlandi er kerfi sem veitir breskum sparifjáreigendum viðbótarvernd („top up“) allt að 50.000 breskum pundum. Í Icesave-samningum við umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins, sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi, er m.a. samið um lán Breta til Íslendinga til þess að mæta ætlaðri ábyrgð Íslands og skilmála þess láns. Í sérstökum uppgjörssamningi, sem ekki hefur verið birtur almenningi, mun vera ákvæði um hvernig greiðslur sem koma frá þrotabúi Landsbankans upp í forgangskröfur innstæðueigendanna, skuli skiptast milli aðila. Í greinargerð með Icesave-frumvarpinu er sagt að tryggingasjóðir Íslands og Bretlands muni þar njóta jafnræðis og það sagt vera „í samræmi við þá túlkun á gjaldþrotalögum sem almennt hefur verið uppi“.

Í lánssamningi milli Íslands og Hollands er berum orðum kveðið á um það í grein 3.1.2 b að sá hluti kröfu innstæðueigenda sem framseldur er tryggingasjóðnum (20.887 evrur) sé í öllu tilliti metinn jafngildur og þær kröfur sem Seðlabanki Hollands heldur eftir. Þá er ennfremur kveðið á um það að hvorum aðila, þ.e. tryggingasjóði og Seðlabanka Hollands, sé skylt að endurgreiða hinum fari svo að annar aðilinn endurheimti hærra hlutfall kröfunnar en hinn.

Við undirritaðir erum ósammála því að umsamin aðferð við skiptingu fjármuna úr þrotabúi Landsbankans sé í samræmi við almenna túlkun á gjaldþrotaskiptalögunum. Þvert á móti teljum við umsamda aðferð vera andstæða réttri túlkun laganna og fela í sér ívilnun til Breta og Hollendinga á kostnað Íslendinga sem nemur gríðarlegum fjárhæðum.

Samkvæmt lögum sem sett voru í kjölfar bankahrunsins eru allar kröfur sem tryggðar eru í tryggingasjóðnum forgangskröfur við slitameðferð fjármálafyrirtækis. Samkvæmt 115. gr. gjaldþrotalaganna fylgja réttindi á hendur þrotabúi kröfu sem framseld er. Í 2. mgr. 10. gr. laganna um tryggingasjóðinn segir að sjóðurinn „yfirtaki“ kröfu kröfuhafans við útborgun úr sjóðnum til innstæðueigandans.

Til þess að komast að réttri niðurstöðu í þessu efni er lykilatriði að hafa hugfast að forgangskrafa hvers innstæðueiganda er ein krafa. Þótt nýr aðili eignist hluta hennar vegna innlausnar eða framsals verða ekki til margar hliðsettar forgangskröfur heldur eru það margir aðilar sem eiga sömu forgangskröfuna. Þegar íslenski tryggingarsjóðurinn greiðir út fyrstu 20.000 evrurnar af innstæðunni til reikningseigandans innleysir (yfirtekur) hann jafnframt samsvarandi hluta kröfunnar, þ.e. réttinn til fyrstu 20.000 evranna sem úthlutað verður upp í kröfuna. Sama gildir um breska kerfið. Að því marki sem það greiðir viðbót við íslensku trygginguna til innstæðueigandans eignast það samsvarandi hluta kröfunnar. Innstæðueigandinn heldur eftir þeim hluta forgangkröfunnar sem er umfram það sem ábyrgðaraðilarnir hafa greitt honum út og á rétt til úthlutunar úr þrotabúinu ef fé til úthlutunar verður umfram þá fjárhæð sem Íslendingar og Bretar tryggðu.

Hér á eftir fylgja þrjú dæmi. Í öllum tilvikum er til einföldunar miðað við að þrotabú Landsbankans úthluti 50% upp í forgangskröfur. Miðað er við að allar fjárhæðir séu í evrum og ábyrgð Íslands nái til 20.000 evra en ábyrgð Breta til þess sem umfram er allt að 50.000 evrum. Engin ábyrgð sé á innstæðum umfram 50.000 evrur. Tekin eru dæmi um þrjá reikninga þar sem innstæða er 20.000, 50.000 og 100.000 evrur.

Í fyrsta dæminu er við það miðað að fyrst sé úthlutað frá þrotabúinu en greitt sé frá ábyrgðaraðilunum þegar úthlutun úr þrotabúinu er lokið. Í öðru tilvikinu er miðað við að ábyrgðaraðilarnir hafi greitt út ábyrgðarfjárhæðirnar áður en til úthlutunar úr þrotabúinu kemur. Tæpast getur leikið vafi á að útkoman í þessum tveimur tilvikum hlýtur að eiga að vera hin sama. Í þriðja tilvikinu er úthlutunin í samræmi við skilning undirritaðra á fyrirliggjandi samningum við Breta og Hollendinga sem nú er til meðferðar á Alþingi.

I.

Eignir Landsbanka seldar strax. Úthlutað úr þrotabúi áður en greitt er úr ábyrgð.

Breskur innstæðueigandi á 100.000 evra reikning. Hann fær greiddar 50.000 evrur frá bankanum. Þar með reynir hvorki á ábyrgð Íslands né Bretlands.

Breskur innstæðueigandi á 50.000 evra reikning. Hann fær greiddar 25.000 evrur frá bankanum. Ekki reynir á ábyrgð Íslands þar sem úthlutun er umfram ábyrgðina. Bretar þurfa að borga 25.000 evrur.

Breskur innstæðueigandi á 20.000 evra reikning. Hann fær greiddar 10.000 evrur frá bankanum. Ísland þarf að uppfylla skyldu sína um skaðleysi upp að 20.000 evrum og greiðir því 10.000 evrur. Ekki reynir á bresku ábyrgðina þar sem innstæðueigandinn hefur fengið allt sitt greitt.

II.

Ábyrgð greidd út. Úthlutað úr þrotabúi síðar.

Breskur innstæðueigandi á 100.000 evra reikning. Hann fær 20.000 evrur frá Íslandi sem tekur yfir þann hluta kröfu innstæðueigandans. Hann fær 30.000 evrur frá Bretunum sem taka yfir þann hluta kröfunnar. Krafan er forgangskrafa að upphæð 100.000 evrur og fær sem slík 50.000 evrur í úthlutun. Þær ganga til ábyrgðaraðilanna sem hafa innleyst fyrstu 50.000 evrurnar í kröfunni. Þetta leiðir til sömu niðurstöðu og í dæmi 1A, þ.e. innstæðueigandinn fær 50.000 evrur frá bankanum og enginn kostnaður lendir á ábyrgðaraðilunum þar sem ekki reyndust vera fyrir hendi þær aðstæður sem ábyrgðin tekur til.

Breskur innstæðueigandi á 50.000 evra reikning. Hann fær 20.000 evrur frá Íslandi sem tekur yfir þann hluta kröfu innstæðueigandans. Hann fær 30.000 evrur frá Bretunum sem taka yfir þann hluta kröfunnar. Krafan er forgangskrafa að upphæð 50.000 evrur og fær sem slík 25.000 evrur í úthlutun. 20.000 evrur ganga til Íslands en 5.000 evrur ganga til Bretlands. Innstæðueigandinn fær í sinn hlut 50.000 evrur eins og tryggt er af Íslandi og Bretlandi. Ísland greiðir ekkert enda var úthlutun af eignum bankans umfram ábyrgð Íslands. Bretar sitja uppi með 25.000 evrur í kostnað vegna ábyrgðarinnar. Niðurstaðan er sú sama og í tilviki 1B að framan.

Breskur innstæðueigandi á 20.000 evra reikning. Hann fær 20.000 evrur frá Íslandi. Úr þrotabúinu greiðast 10.000 evrur sem ganga til Íslands. Ekki reynir á bresku ábyrgðina þar sem innstæðan var innan þeirra marka sem Ísland ábyrgist. Innstæðueigandinn er skaðlaus en Ísland situr uppi með 10.000 evra kostnað vegna ábyrgðarinnar. Sama niðurstaða og í lið 1C að ofan.

III.

Niðurstaða samkvæmt samningi við Breta og Hollendinga.

Breskur innstæðueigandi á 100.000 evra reikning. Hann fær greiddar 20.000 evrur frá Íslandi. Hann fær greiddar 30.000 evrur frá Bretlandi. Úr þrotabúi Landsbankans greiðast 50.000 evrur sem skipast þannig að Ísland fær 10.000 evrur, Bretland 15.000 evrur og reikningseigandinn 25.000 evrur. Þrjár sjálfstæðar og jafnréttháar kröfur sem fá 50% úthlutun hver. Innstæðueigandinn hefur þannig fengið 75.000 evrur þótt ekki hafi verið úthlutað nema 50.000 úr þrotabúinu og engin trygging taki til þess að hann fái neitt greitt umfram 50.000 evrur.

Breskur innstæðueigandi á 50.000 evra reikning. Hann fær greiddar 20.000 evrur frá Íslandi og 30.000 evrur frá Bretlandi. Úr þrotabúi Landsbankans er úthlutað 25.000 evrum sem skiptast þannig að Ísland fær 10.000 evrur en Bretar 15.000 evrur. Ísland situr uppi með kostnað þótt úthlutun úr þrotabúi Landsbankans hafi verið umfram það sem Ísland ábyrgðist.

Breskur innstæðueigandi á 20.000 evra reikning. Hann fær greiddar 20.000 evrur frá Íslandi. Ekki reynir á bresku ábyrgðina þar sem innstæðueigandinn hefur fengið allt sitt greitt. Ísland fær 10.000 evrur upp í ábyrgðina frá þrotabúinu.

Aðferðin sem samið var um felur í sér ívilnun til Breta og Hollendinga á kostnað Íslendinga og er að dómi undirritaðra ekki í samræmi við þá aðferð sem beita ber við úthlutun eigna Landsbankans. Gríðarlegir hagsmunir eru hér í húfi fyrir íslensku þjóðina. Við hljótum að spyrja – kemur til álita að Alþingi samþykki samninginn sem liggur fyrir?

Höfundar eru hæstaréttarlögmenn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.