Jón H. Björnsson fæddist í Reykjavík 19. desember 1922. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 15. júlí síðastliðinn.

Útför Jóns fór fram frá Bústaðakirkju föstudaginn 24. júlí síðastliðinn.

mbl.is/minningar

Kynni okkar Jóns hófust 1952 er hann kom frá námi úr Cornell-háskóla sem landslagsarkitekt með magistersgráðu. Jón H. eins og hann er nefndur í okkar hópi var ráðinn kennari við Garðyrkjuskólann. Þá var langt til Hveragerðis, kennarar og nemendur bjuggu á staðnum og deildu kjörum. Við nemendur vorum spenntir að sjá þennan nýja kennara. Jón rann í hlaðið á stórum bíl sem minnti um margt á lúxusjeppa nútímans. Með honum kom andblær úr fjarlægum heimi.

Jón var skemmtilegur kennari með lifandi framsögn. Hann notaði leikræna tjáningu á þann hátt að menn skildu fræðin fyrr og betur. Hvað mig varðar leiddi kennsla Jóns mig til frekara náms í landslagsarkitektúr. Kennslan uppfyllti ekki athafnaþrá Jóns. Hann vildi meiri umsvif og stuðla að framþróun í skrúðgarðyrkju. Árið 1953 stofnaði Jón Alaska gróðrarstöðina með garðbyggingu og lóðahönnun sem viðfangsefni. Jón bætti við garðplöntustöð með áherslu á aukið úrval runna og minni trjáa sem þá voru nær ófáanleg. Uppfullur af hugmyndum og athafnaþrá hófst Jón handa við að byggja upp fyrirtæki sitt. Uppistaðan í starfshópnum var garðyrkjufræðingar sem fylgdu Jóni úr Garðyrkjuskólanum. Það hefur þurft undraverðan kjark og framtak að byggja upp slíkt fyrirtæki sem Alaska var. Að sýna fram á þörfina og finna verkefni allan ársins hring var afrek sem kostaði frumkvæði, útsjónarsemi og áróður meðal almennings og ráðamanna. Til dæmis tókst Jóni að sameina menn um að skreyta Reykjavíkurbæ fyrir jólin. Þetta var mikið verkefni og erfitt enda í fyrsta sinni gert eins og margt annað sem Alaska gróðrarstöðin kom að.

Jón varð landsþekktur er hann ferðaðist um landið með kvikmynd sína um fræsöfnunarferð með Árna bróður sínum til Alaska árið 1951. Jón sýndi myndina sjálfur og útskýrði á lifandi hátt. Jón hafði uppi áróður fyrir gróðri og görðum, flutti útvarpserindi, skrifaði greinar og kom hugmyndum á framfæri hvar sem mögulegt var.

Eitt minnisstæðasta verkið frá fyrsta árinu er Hallargarðurinn í Reykjavík. Vegna tímaskorts fékk Jón teiknara til samstarfs. Ég var fyrstur og síðan Pálmi Arngrímsson garðyrkjufræðingur, Hrólfur Sigurðsson listmálari og loks Dieter Roth, síðar heimskunnur listamaður. Allir unnum við okkar störf undir handleiðslu meistarans. Hallargarðurinn er enn í nánast upprunalegri mynd og mikilvægur í miðborginni.

En lífið var ekki bara dans á rósum. Í vorhretinu 1963 urðu miklar skemmdir á trjágróðri og tók það sinn toll. Það komu lægðir í reksturinn og erfiðir tímar inni á milli.

Jón var frábær arkitekt og teiknari og iðkaði myndlist sér til skemmtunar allt fram á síðustu ár. Víst er að viðskiptavinir hans fengu mikið fyrir sinn snúð. Teikningar Jóns eru í senn listrænar og upplýsandi. Notagildi og samband íbúðar og garðs var ávallt haft að leiðarljósi. Persónulega á ég Jóni að þakka uppeldi í garðyrkju, áhuga á landslagsarkitektúr, vináttu og samvinnu gegnum árin. Ég kveð Jón H. með söknuði og votta aðstandendum hans samúð mína og virðingu.

Reynir Vilhjálmsson.

Við Jón vorum samferða í Alaska í 10 ár. Vil ég fá að þakka honum af alhug og öllu hjarta, ógleymanlegan tíma skemmtilegan og lærdómsríkan, mig langar að tileinka honum þetta ljóð Davíðs Stefánssonar, því Jón var frumkvöðull síns tíma og okkar, langt á undan sinni samtíð. Takk fyrir allt, kæri Jón, fyrir allt og allt.

Ég finn það gegnum svefninn,

að einhver læðist inn

með eldhúslampann sinn,

og veit, að það er konan,

sem kyndir ofninn minn,

sem út með ösku fer

og eld að spónum ber

og yljar upp hjá mér,

læðist út úr stofunni

og lokar á eftir sér.

Ég veit að hún á sorgir,

en segir aldrei neitt,

þó sé hún dauða þreytt,

hendur hennar sótugar

og hárið illa greitt.

Hún fer að engu óð

er öllum mönnum góð

og vinnur verk sín hljóð –

Sumir skrifa í öskuna

öll sín bestu ljóð.

Ég veit að þessi kona

er vinafá og snauð

af veraldlegum auð,

að launin, sem hún fær,

eru last og daglegt brauð.

En oftast er það sá,

sem allir kvelja og smá,

sem mesta mildi á. –

Fáir njóta eldanna,

sem fyrstir kveikja þá.

(Davíð Stefánsson.)

Elínu og fjölskyldunni vottum við okkar innilegustu samúð.

Hlín Eyrún Sveinsdóttir og Sigþór Hólm Þórarinsson.

Í dag minnast íslenskir landslagsarkitektar Jóns H. Björnssonar og hins mikla brautryðjendastarfs er hann lagði til fagstéttarinnar allrar. Ég minnist þess fyrst að hafa heyrt nafns hans getið á heimili ömmu minnar og afa við Bergstaðastræti. Þau voru ein af fyrstu viðskiptavinum Jóns er hann kom heim frá námi í Bandaríkjunum – fyrstur íslenskra landslagsarkitekta – og réðu hann til starfa til að gera endurbætur á garði sínum. Óskir þeirra voru þrjár; þau vildu geta borðað úti; húsbóndinn þyrfti góða sólbaðsaðstöðu og það yrði að vera hægt að spila krokket á grasflötinni. Þetta leysti Jón H. Björnsson með miklum sóma og margar af sólríkustu minningum úr æsku tengjast einmitt samverustundum í þessum litla garði hans Jóns. Löngu seinna lágu leiðir okkar saman er ég valdi þá starfsstétt sem hann hafði lagt grunninn að. Jón H. tók öllum nýjum starfsfélögum vel. Hann gladdist yfir fjölgun í stéttinni, góðu verki og miðlaði af örlæti þekkingu sinni og fróðleik. Hann var rökfastur, frjór í hugsun og fljótur að greina hismi frá kjarna. Hann var skemmtilegur félagi. Jón H. Björnsson markaði djúp spor í vitund samferðamanna sinna. Hann lagði brautina fyrir okkur hin sem á eftir komum. Hann plægði akurinn. Hann gerði okkur hinum hlutina svo miklu auðveldari. Nú er hann lagður upp í sína hinstu för. Megi hann njóta fararheilla til þeirra stranda er bíða okkar allra.

Ragnhildur Skarphéðinsdóttir.

„Garðlist er ein sú fegursta list sem til er. Efnið sem garðlistamaðurinn vinnur með er síbreytilegt í formi og litum, eftir árstíðum og aldri. Hér vinnum við úr lifandi efni. Í stað penna eða penslastrika myndlistarmannsins eru línur garðsins gerðar af röðum runna, trjáa eða gangstíga“. Þessi tilvitnun er sótt í grein sem Jón H. Björnsson ritaði í Lesbók Morgunblaðsins 17. júní 1973 og lýsir vel tilfinningum Jóns til ævistarfsins. Ungur valdi hann sér garðyrkjuna sem farveg. Úr þeim ranni lista og menningar sem hann var sprottinn úr tókst honum að flétta saman innsæi listamannsins, athygli fræðimannsins og elju athafnamannsins. Að loknu námi í Ameríku, kom Jón til starfa hér á Íslandi. Með sterka sýn, nýjar hugmyndir og orku til að takast á við verkefni sem fáir landar hans höfðu jafnvel minnstu hugmynd um að væri til. Jón byggði upp fyrirtækið Alaska sem annaðist ræktun garðagróðurs, hönnun og byggingu garða. Alaska varð og mikilvægur skóli fyrir ungt fólk sem vildi helga sig skrúðgarðyrkju sem alvöru faggrein. Jón fór ótroðnar slóðir, þar fór saman orka athafnamannsins og sterk sýn hans á að bæta umhverfi landa sinna. Hann rak sig víða á horn en lét það ekki aftra sér heldur hélt sinni sýn, reisn, staðfestu og sjálfstæði. Hann var ekki öðrum háður, þurfti svigrúm og frelsi til að skapa. Af þeim fjölmörgu verkum sem Jón vann og hafði umsjón með er athyglisvert að aðeins örfá voru unnin fyrir sveitarfélög eða opinbera aðila. Segir það ef til vill mest um sjálfstæði hans. Eitt þessara verka er Hallargarðurinn í Reykjavík sem var tímamótaverk og jafnframt eitt fyrsta verkefni hans er hann kom frá námi, með nýja sýn á útlit og notkun almenningsgarða. Jóni féll afar þungt að sjá nýlega hugmynd að breytingum á garðinum og lagðist gegn þeim. Honum var umhugað um hugverk sitt.

Jón var afar góður kennari, vinsæll fyrirlesari þar sem honum tókst að smita fólk af sínum óbilandi áhuga á fræðunum – draga upp einfaldar myndir og miðla þekkingu. Jón lét ekki kerfið og hefðbundnar, gamlar fastmótaðar hugmyndir stöðva sig – jafnvel ekki náttúruöflunum tókst að knésetja hann eftir vorhretið 1963 þar sem grunninum var kippt undan hans rekstri.

Við stofnun Félags íslenskra landslagsarkitekta 1978 kynntumst við Jóni og áhuga hans. Fáir af meðlimum félagsins hafa sýnt meiri áhuga og mætt oftar á fræðslufundi og alltaf var Jón tilbúinn að ræða málin, spyrja, velta hlutum fyrir sér en ekki síst koma með nýja sýn, byggða á djúpum skilningi áhuga og reynslu. Síðast í vor mætti Jón á fundi í FÍLA. Skrúðgarðyrkjan, garðplöntufræðin og landslagsarkitektúr hér á Íslandi eiga Jóni mikið að þakka. Með ævistarfi sínu lagði Jón mikilvægan grunn að þessum ungu fræðigreinum. Hann var brautryðjandinn og eftir hann liggja yfir 600 hönnunarverk sem nú eru í vörslu byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur. Þessi fjársjóður veitir ótal möguleika á rannsóknaverkefnum og munu halda uppi merki fræðimannsins og hugsjónamannsins.

Auður Sveinsdóttir og Einar E. Sæmundsen.

Jón H. Björnsson landslagsarkitekt hefur nú kvatt eftir nokkurra mánaða snörp veikindi. Allir sem þekktu Jón sáu hæfileika hans og fagmennsku. Jón átti og stýrði um árabil merku fyrirtæki, gróðrarstöðinni Alaska við Miklatorg. Hann og fyrri kona hans, Margrét Gunnlaugsdóttir, studdu marga unglinga með því að ráða okkur í vinnu í skólaleyfum. Hjá þeim var gott að vinna. Fyrir tæpum 40 árum réðst ég fyrst í sumarvinnu í Alaska. Það var ekki oft sem þau voru bæði hjónin í versluninni, enda vann Margrét heima og hlúði að fallegu heimili þeirra við Skaftahlíð í Reykjavík. En þarna, þetta vor, í eins miklu sólskini og hefur verið undanfarna daga, voru þau einhverju sinni bæði við vinnu í Alaska og leiðbeindu unglingum um það sem þurfti að gera, hlúa að pottablómum og afskornum blómum eða vökva og undirbúa sumarblóm til sölu. Áður hafði mér fundist ævintýralegt að koma í gróðrarstöðina í miðjum bæ – sem lá við alfaraleið en þó ekki þar sem það þurfti að keyra eða hjóla út af aðalveginum til að komast í verslunina. Á þessum árum var mikið að gera í jólaverslun í Alaska, og ég held að verslunin hafi mótað jólaskreytingar þeirra ára mikið.

Á heimilið í Skaftahlíð var mjög gaman að koma, en Inga Svala dóttir Jóns og Margrétar er mikil vinkona mín. Það var líflegt í Skaftahlíðinni þar sem voru fjórir fjörugir unglingar. Börn Jóns hafa vafalítið orðið fyrir áhrifum frá pabba sínum, en Inga Svala er doktor í plöntuvistfræði og tvö systkinanna eru arkitektar. Jón hafði mikil áhrif á umhverfi í Reykjavík eins og þekkt er þar sem verk hans Hljómskálagarðurinn er í hjarta bæjarins. Jón og skapandi umhverfi Alaska hafði einnig mikil og jákvæð áhrif á menningu í Reykjavík. Við Stefán vottum fjölskyldunni allri samúð.

Inga Þórsdóttir.

Mér er ljúft að minnast fyrsta landslagsarkitektsins á Íslandi og færa honum þakkir fyrir hans frumkvöðlastarf í faginu í meira en fimmtíu ár. Þegar Jón H. Björnsson kom til landsins árið 1953 eftir námsdvöl í Cornell-háskóla í Ithaca NY og byrjaði að hasla sér völl sem landslagsarkitekt á Íslandi var umhverfismenning okkar Íslendinga nokkuð frumstæð. Eflaust hefur Jón oft mætt litlum skilningi þegar hann hefur kynnt sína þjónustu á þessum fyrstu starfsárum sínum. Án efa hefur það átt sinn þátt í því að Jón útvíkkaði starfsþátt sinn með því að stofna garðplöntufyrirtækið Alaska samhliða því að reka teiknistofu.

Með tilkomu Alaska fjölgaði í garðflóru Íslands því Jón vann ötullega að því að kynna fyrir Íslendingum nýjar plöntur sem hann flutti inn frá svæðum þar sem vaxtarskilyrði voru áþekk þeim íslensku. Má því með sanni segja að Jón H. hafi ekki aðeins verið frumkvöðull á starfssviði landslagsarkitektúrs á Íslandi heldur einnig á sviði garðplöntuframleiðslu.

Í tíu ár var Jón H. eini landslagsarkitektinn á Íslandi og það var ekki fyrr en tæpum tuttugu og fimm árum síðar sem Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) var stofnað af fyrstu fimm íslensku landslagsarkitektunum. Að sjálfsögðu var Jón H. í þeim hópi og hefur hann ætíð verið mjög áhugasamur og virkur félagi í FÍLA, hvort sem það var á fyrstu starfsárum félagsins eða eftir að hann varð gerður að heiðursfélaga árið 1993. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í FÍLA í gegnum árin, verið í stjórn þess ásamt því að vera í hinum ýmsu nefndum. Hann hefur alltaf verið mjög duglegur að mæta á viðburði sem félagið hefur staðið fyrir, nú síðast í apríl við opnun innsetningarinnar „Með blóm í haga“ sem var framlagt FÍLA til hönnunardaga. Þrátt fyrir að þá hafi verulega verið af honum dregið var auðséð að hugurinn dró hann hálfa leið því áhugi á starfsemi FÍLA var ennþá jafn brennandi og áður. Þar var ljúfmennið Jón hvers manns hugljúfi þegar hann rifjaði upp ýmsa atburði og uppákomur á vettvangi FÍLA í gegnum árin.

Við í Félagi íslenskra landslagsarkitekta eigum eftir að sakna þess að sjá ekki Jón framar á viðburðum félagsins. Munum við sjá til þess að minningu heiðursmannsins Jóns verði haldið á lofti um ókomin ár innan Félags íslenskra landslagsarkitekta, þess sem plægði akurinn fyrir okkur hin. FÍLA vottar fjölskyldu Jóns H. Björnssonar innilegustu samúð.

Fyrir hönd FÍLA,

Hlín Sverrisdóttir formaður.