Guðmundur Magnússon byggingameistari fæddist í Reykjavík 3. mars 1927. Hann lést á Akranesi 31. júlí 2009. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Ásbjörnsson bifvélavirki í Reykjavík, f. á Akranesi 1901, d. 1963, sonur hjónanna Ásbjörns Sigurðssonar og Sigríðar Helgadóttur, og Ingibjörg Guðmundsdóttir húsfreyja á Akranesi, síðar í Kaupmannahöfn, f. á Akranesi 1904, d. 1983, dóttir hjónanna Guðmundar Hanssonar trésmiðs á Akranesi og Marsibilar Þ. Gísladóttur. Systkini Guðmundar eru Garðar P. vélstj., f. 1924, d. 4. 1991, Ásbjörn bifreiðastj., f. 1925 og Esther R., húsfreyja í Þýskalandi, f. 1928. Þegar Guðmundur var 2ja ára var honum komið í fóstur til afasystur sinnar, Valgerðar Hansdóttur, en þar bjó fyrir móðursystir hans Hansína Guðmundsdóttir. Guðmundur ólst upp hjá Valgerði til 17 ára aldurs.

Guðmundur kvæntist 8.4. 1950 Ástríði Þóreyju Þórðardóttur, f. á Akranesi 8.3. 1929. Foreldrar hennar eru hjónin Þórður Þ. Þórðarson, bifreiðastj. og framkv.stj. á Akranesi, f. á Leirá í Leirársveit 1899, d. 1989 og Sigríður Guðmundsdóttir, f. á Sólmundarhöfða í Innri Akraneshreppi 1910. Börn Guðmundar og Ástríðar eru: 1) Emil Þór, f. 28.4. 1956, maki Guðbjörg Kristjánsdóttir. Börn þeirra eru Telma Kristín, Viktor Orri og Sara Margrét. Fyrir átti Emil Þór: a) Guðmund, móðir Hjördís Símonardóttir, unnusta Þóra Sigríður Torfadóttir, dóttir þeirra er Sædís Heba, Guðmundur átti fyrir Emil Þór, b) Melissa Ástríður, móðir Auður Matthíasdóttir, unnusti Jónas Pétur Ólason, þeirra dóttir er Tinna Diljá, og c) uppeldissonur Símon. Áður átti Guðbjörg Kristján Örn. 2) Sigríður, f. 19.4. 1958, maki Gunnar Sigurðsson. Börn Sigríðar og Páls I. Pálssonar eru: a) Guðmundur Þór, unnusta Fanney Ýr, börn hans eru Andri Már og Embla Sól og fyrir á Fanney Ísabellu Ýr. b) Páll Indriði, unnusta Anna Kvaran. c) Maríanna, unnusti Kári Daníelsson, dóttir þeirra Karen. Fyrir átti Gunnar börnin Ellu Maríu og Örn. 3) Ingibjörg, f. 13.6. 1963, maki Jón B.G. Jónsson. Börn þeirra eru a) Ástríður Þórey, unnusti Sveinn Ómar Sveinsson, b) Unnur Tara, unnusti Roni Leimu, og c) Heiðrún Hödd. Sonur Ingibjargar og Óla Páls Engilbertssonar er Óli Ingi, unnusta Elsa Birgisdóttir, og fyrir á Jón Hlyn. 4) Þórey Guðmunda, f. 3.1.1969, maki Leifur Eiríksson. Börn þeirra eru Hildur María, Magdalena Sara, og Eiríkur Alexander. Fyrir átti Leifur Kristófer Júlíus.

Samvist þeirra Guðmundar og Ástríðar náði yfir 64 ár. Guðmundur nam húsasmíði hjá Jóni Guðmundssyni frá Guðnabæ, og varð í framhaldi af því húsasmíðameistari. Hann teiknaði og byggði sér einbýlishús á lóð sem nú heitir Suðurgata 99. Guðmundur 23 ára og Ástríður 21 árs fluttu í nýtt húsið fullgert á brúðkaupsdaginn þeirra og bjuggu á þar í 45 ár. Hann var frumkvöðull á mörgum sviðum byggingatækni og mannvirkjagerðar á Akranesi. Byggði sér iðnaðarhús við Stillholt 21, og rak þar trésmíðaverkstæði og byggingastarfsemi, Trésmiðju Guðmundar Magnússonar í 44 ár, einnig Byggingavöruverslun Akraness, og Skagaplast, framleiddi steinsteypu og rak útgerð vinnuvéla og vörubifreiða. Guðmundur byggði á annað hundrað íbúða á Akranesi og útskrifaði 39 sveina í húsasmíði. Hann var einn af stofnendum Golfklúbbs Akraness síðar Golfklúbbsins Leynis, í Byggingarnefnd Akraneskaupsstaðar og félagi í Oddfellowstúkunni nr. 8 Egill.

Guðmundur verður jarðsunginn frá Akranesskirkju í dag, föstudaginn 14. ágúst, og hefst athöfnin kl. 14.

mbl.is/minningar

Elsku pabbi.

Þetta gerðist allt svo ótrúlega hratt. Það liðu aðeins sex vikur frá þú greindist með illvígan sjúkdóm þar til þú varst dáinn. Þú sem varst svo heilbrigður bæði á sál og líkama. Ég er samt þakklátur fyrir að hafa verið þér við hlið með mömmu þegar þú kvaddir.

Ég trúi því að hinum megin taki vel á móti þér þeir ástvinir sem á undan eru farnir, amma Ingibjörg, afi Magnús, afi Þórður á Hvítanesi, Aage Emil og Þórður frændi. Mig grunar að þú sért þegar byrjaður að skoða þig um, athuga að hverju megi dytta og hvort ekki megi laga eitthvað.

Ég minnist þín sem dugnaðarforksins og frumkvöðulsins, sem teiknaðir og reistir þér einbýlishús við Suðurgötuna og fluttir inn í það aðeins 23 ára gamall, á giftingardaginn ykkar mömmu þann 8. apríl árið 1950. Á Suðurgötunni bjugguð þið mamma síðan í 45 ár. Þú teiknaðir einnig og byggðir þér stórt iðnaðarhús við Stillholt á Akranesi fljótlega eftir að þú kláraðir nám þitt í húsasmíði hjá Jóni í Guðnabæ. Þú stofnaðir Trésmiðju Guðmundar Magnússonar í iðnaðarhúsinu þínu, og síðan eftir að hafa tvöfaldað stærð þess húss nokkrum árum seinna þá stofnaðir þú Byggingavöruverslun Akraness, þaðan sem þú seldir byggingarefni um allt land og enn nokkrum árum seinna stofnaðir þú fyrirtækið Skagaplast sem framleiddi einangrunarplast til bygginga. Þessi fyrirtæki voru öll rekin undir sama þaki við Stillholtið í 44 ár.

Á meðan þú varst að læra húsasmíðina þá keyrðir þú einnig leigubíl og ótrúlegt til þess að hugsa að þú hafir á sama tíma verið að byggja húsið ykkar við Suðurgötuna, enginn tími fór til ónýtis. Draumur þinn var að fara til Danmerkur og læra arkitektúr eða tæknifræði en sennilega hefurðu bara ekki mátt vera að því, naust þess að gefa framtaksseminni lausan tauminn og þú hlífðir þér hvergi í því að byggja upp þín fyrirtæki. Eftir eldsvoða sem varð á Stillholtinu árið 1966 þar sem allt brann til kaldra kola byggðir þú allt upp aftur og enn stækkaðir þú allt iðnaðarhúsið, nú í þriðja sinn.

Meðan þú rakst byggingafyrirtæki þitt þá tókstu að þér nema í húsasmíði og samtals urðu nemarnir hjá þér 39. Þú teiknaðir og byggðir einnig fjölda bygginga og íbúða á Akranesi, nokkur húsanna sem þú byggðir eru kennileiti á Akranesi eins og Íþróttahúsið við Vesturgötu, Landsbankahúsið við Skuldartorg og fleiri ótalin hús sem bera þér vitni um þá vandvirkni sem þér hafði lærst.

Þú varst einn af stofnfélögum Golfklúbbs Akraness sem síðar hlaut nafnið Golfklúbburinn Leynir og þú gerðist einnig félagi í Oddfellowreglunni, í stúku nr. 8: Egill.

Eftir að mesta annríkinu lauk byggðir þú ykkur mömmu sælureit uppi í Stóra Fjalli, þar sem þið dvölduð oft, stundum langdvölum. Þú og mamma elskuðuð að eyða sumrinu saman þar og á veturna voruð þið oft bara tvö á svæðinu, sitjandi fyrir framan arininn á köldum vetrarkvöldum, alltaf jafn ástfangin, rétt eins og þið hefðuð bara kynnst í gær.

Elsku pabbi, þakka þér fyrir allt það mikla sem þú hefur gert fyrir okkur á þinn hógværa hátt.

Við munum passa upp á mömmu sem syrgir nú elskulegan maka sinn en stendur sig þó svo ótrúlega vel. Þú varst henni svo mikið, ekki bara elskulegur eiginmaður heldur varstu nú síðustu árin einnig augun hennar. Við munum alltaf minnast þín.

Bless, elsku pabbi, elsku tengdapabbi og elsku afi.

Emil Þór, Guðbjörg,

börn og barnabörn.

Pabbi leggur ekki bílnum sínum oftar hér við Espigrundina og kíkir í heimsókn. Alltaf þegar hann kom var það með bros á vör, strauk manni um vanga og kyssti. Hann elskaði að hafa fólk í kringum sig og spjalla um líðandi stund og ekki var verra ef hann náði fótboltakvöldi með Gunnari og ef þau yngri voru í heimsókn þótt þau væru með hávaða og læti.

Mín fyrsta minning um pabba er þegar hann fór með okkur fyrst 1962 til ömmu Imbu til Köben og keyrði svo með okkur á WV bjöllu til Nürnberg til Esther frænku, það var mikið ævintýri fyrir fjögurra ára hnátu.

Pabbi var einn af stofnendum Golfklúbbsins á Akranesi og skiptust félagarnir á að slá völlinn og fékk ég yfirleitt að fara með honum, en ekki náði hann að smita mig af golfbakteríunni, Gummi Þór fékk hana, ég fæ hana kannski síðar.

Þegar ég var unglingur og vantaði sumarvinnu, eitthvað annað en að leggja saman debet og kredit og nokkrar vinkonur mínar vantaði líka vinnu réð hann okkur í byggingavinnu til sín, og vorum við við þá vinnu nokkur sumur, bæði inni á verkstæði og í smíðavinnu úti og bý ég að þeirri reynslu. Ef einhver í fjölskyldunni stóð í framkvæmdum stóð ekki á pabba að hjálpa til. Hann var ávallt boðinn og búinn jafnt með undirbúning sem framkvæmdir, alveg fram á síðasta dag. Sumarbústaðurinn hans uppi í Stóra-Fjalli ber gott vitni um hans fallega handbragð og vandvirkni. Þar leið honum best og þar vildi hann vera öllum stundum.

Fyrir nokkrum árum komu foreldrar mínir með okkur Gunnari niður til Nürnberg. Þetta var honum mikils virði að heimsækja systur sína og fjölskyldu hennar á heimaslóð þeirra og keyra þar upp um allar sveitir.

Gummi Þór, elsta barnabarnið, var honum sérlega nákominn og á hans fyrstu árum fékk hann að fylgja afa sínum í vinnuna. Er það Gumma mjög sárt að geta ekki fylgt afa sínum síðasta spölinn.

Orðin úr Kórintubréfi eru eins og skrifuð fyrir pabba: „Kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu, umber allt, kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

Hvíldu í friði, elsku pabbi minn.

Sigríður Guðmundsdóttir.

Það er sárara en tárum taki að þurfa að kveðja þig, elsku pabbi minn. Þú sem alltaf varst til staðar fyrir mig og reyndar alla sem til þín leituðu. Ég minnist þín sem dugnaðarforks, alltaf eitthvað að smíða og gera. Þegar þú rakst fyrirtækið þitt með fullt af mannskap í vinnu varst þú alltaf mættur fyrstur allra og hættir síðastur allra. Metnaðurinn að hafa allt fyrsta flokks fylgdi þér alltaf. Þú byggðir sumarhúsið þitt uppi að Stóra-Fjalli og handbragð þitt þar mun alltaf lifa. Þar leið þér vel og vildir helst vera þar öllum stundum, þar gastu verið að dytta að og gera bústaðinn eins og þú vildir hafa hann. Ótrúlegt hvað þér tókst einum að framkvæma þar. Ég man þegar ég og Sigga komum með fjölskyldur okkar og fengum að hjálpa til við að leggja gólfið í opna rýminu og mála það sem málað var, þá þurfti að sparsla í öll naglaförin fyrst áður en mátti mála yfir, ótrúlega smámunasamur varstu en við fórum eftir því sem þú vildir, bústaðurinn skyldi vera með þínu lagi. Ég man líka hvað þú hjálpaðir okkur Jóni að gera pallinn okkar, þar var nákvæmin höfð í fyrirrúmi eins og allt annað hjá þér, elsku pabbi minn og yndislegur tíminn sem þú bjóst hér hjá okkur á meðan. Þú varst alltaf boðinn og búinn að hjálpa okkur öllum systkinunum með tölu við okkar framkvæmdir. Þó þú værir kominn á aldur var verið að fá þig til ýmissa verka er sneri að smíðum bæði á Akranesi og víðar. Þú hafði mikla ánægju af að ferðast, varst alveg ótrúlega fróður um svo margt og gaman að sitja og spjalla við þig um heima og geima, aldrei kom maður að tómum kofanum, sama hvað um var rætt.Alltaf varstu þakklátur sjálfur ef eitthvað var að þér rétt, því þú varst frekar í því hlutverki að gefa en þiggja. Ég man alltaf eftir því 2001 þegar ég kom til þín með einkanúmerið E 154 sem þú hafðir eftir það á bílnum þínum, hvað þú varst hrifinn en ætlaðir samt ekki að geta tekið við því, þá gerðum við með okkur samkomulag og það varð til þess að þú tókst við því og við vorum bæði ánægð. Veikindi þín bar brátt að og hefur þú sjálfsagt verið kvalinn lengur en þú lést uppi, aldrei kvartaðir þú, pabbi minn, alltaf sami rólegheitamaðurinn, ljúfur og góður maður. Ég á eftir að ylja mér á góðu stundunum sem ég og fjölskylda mín áttum með þér, síðast 20. júní þegar Ástríður Þórey mín útskrifaðist frá HÍ, þessar góðu stundir urðu svo margar bæði hér heima og í Svíþjóð. Ég minnist þess aldrei að þú hafir hallmælt nokkrum manni, þú vildir alltaf að allt væri í sátt og samlyndi í kringum þig. Missir mömmu er mikill, þið búin að vera gift í tæp 60 ár, þú varst henni svo góður eins og öllum þínum börnum, aldrei gerðir þú upp á milli neinna, allir voru þér jafn dýrmætir.

Ég á eftir að minnast orða þinna, pabbi minn, sem þú hvíslaðir í mín eyru undir það síðasta, þau mun ég geyma í hjarta mínu og eru mér ómetanleg á þessari stundu, einnig fékk ég tækifæri til að segja þér hvað þú værir mér mikils virði og hvað ég elskaði þig mikið og það veit guð að ég á eftir að sakna þín mikið, elsku pabbi minn. Hafðu þakkir fyrir allt og megi Guð vera með þér, elskan. Hvíl í friði. Þín dóttir

Ingibjörg.

Fagmaður fram í fingurgóma eru orð sem eiga vel við um föður minn sem fallinn er nú frá. Öll hans verk bera vandvirkni hans merki og aldrei var kastað til hendinni, hversu smátt eða stórt sem verkið var. Allt var gert eftir bestu getu og með bestu fáanlegu tækjum og efnivið. Starfaði langt fram yfir löggiltan eldriborgaraaldur og áhugasamur um iðn sína allt til síðasta dags.

Áhugasamur um allt það sem undirrituð tók sér fyrir hendur, í námi og starfi. Aldrei kröfuharður en ávallt sannfærður um að hvert sem verkefnið var þá yrði það leyst vel af hendi. Slík trú og hvatning er ómetanleg. Stoltur afi sem hafði óbilandi trú á barnabörnum sínum í námi og leik. Alltaf til staðar fyrir fjölskylduna sína, rólegur og traustur.

Elsku mamma, missir þinn er sár en minningarnar ótal margar og góðar. Megi góður Guð styrkja þig í sorginni.

Þórey Guðmunda.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku afi minn.

Það var ekki hægt að fá betri afa en afa Gumma. Að muna eftir brosinu þínu bætir daginn og huggar tómt hjarta. Að vita að þú ert kominn á betri stað þar sem þér líður vel bætir upp fyrir missinn. Þín verður sárt saknað en vel minnst.

Fel þú, Guð, í faðminn þinn,

fúslega hann afa minn.

Ljáðu honum ljósið bjarta,

lofaðu hann af öllu hjarta.

Leggðu yfir hann blessun þína,

berðu honum kveðju mína.

(L.E.K.)

Maríanna.