21. ágúst 2009 | Íþróttir | 647 orð | 2 myndir

„Ævintýri líkast“

Friðrik Friðriksson og Nanna Leifsdóttir, foreldrar Fanndísar Friðriksdóttur, eru á leið til Finnlands til að fylgjast með Evrópumeistaramótinu frá hliðarlínunni

Samvinna Friðrik Friðriksson og Nanna Leifsdóttir, foreldrar Fanndísar Friðriksdóttur, eru á leið til Finnlands til að fylgjast með EM.
Samvinna Friðrik Friðriksson og Nanna Leifsdóttir, foreldrar Fanndísar Friðriksdóttur, eru á leið til Finnlands til að fylgjast með EM. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Friðrik Friðriksson, fyrrum landsliðsmarkvörður í knattspyrnu og eiginkona hans, gamla skíðadrottningin Nanna Leifsdóttir, ætla að skella sér til Finnlands og fylgjast með íslenska kvennalandsliðinu á Evrópumótinu en dóttir þeirra, Fanndís...
Friðrik Friðriksson, fyrrum landsliðsmarkvörður í knattspyrnu og eiginkona hans, gamla skíðadrottningin Nanna Leifsdóttir, ætla að skella sér til Finnlands og fylgjast með íslenska kvennalandsliðinu á Evrópumótinu en dóttir þeirra, Fanndís Friðriksdóttir, er í landsliðshópnum þar sem hún er næstyngsti leikmaður liðsins. Fanndís er 19 ára gömul, leikur í stöðu kantmanns og er bæði fljót og leikin. Hún er uppalinn hjá ÍBV en kom til Breiðabliks fyrir fimm árum.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

,,Það verður gaman og spennandi að fylgjast með liðinu. Þetta verður ,,brekka“ en það getur allt gerst. Ég held að það ráðist töluvert mikið í fyrsta leiknum á móti Frökkum hvert framhaldið verður. Það er lykilleikur í riðlinum en ef maður lítur raunsætt á hlutina þá eru líkurnar ekkert svakalega miklar á að Ísland komist upp úr riðlinum,“ sagði Friðrik í samtali við Morgunblaðið. Friðrik lék á sínum tíma 26 leiki með íslenska A-landsliðinu en síðasti leikur hans var gegn Færeyingum á Norðfjarðarvelli árið 1995 þar sem Íslendingar höfðu betur, 2:0.

Ekki annað hægt en að fara út

Hefur ekki verið rætt mikið á heimilinu um Evrópumótið?

,,Jú, við erum búin að ræða mikið um mótið og okkur hjónunum fannst ekki hægt annað en að fara út og verða vitni að þessum sögulega viðburði fyrst einn af fjölskyldumeðlimunum er svo heppinn að fá að vera þátttakandi. Við erum búin að fylgjast með Fanndísi á vellinum frá því hún var í 7. flokki í Eyjum og það er ótal leikir og mót sem við höfum fylgt henni í. Eðlilega er komin mikil spenna hjá henni. Við sátum með henni í gær og spjölluðum við hana og maður sá að það var kominn glampi í augun á henni. Ég held að henni þyki það bara gott að hafa okkur á hliðarlínunni. Við höfum verið það allan hennar feril og það heyrir til undantekninga ef maður er ekki á svæðinu þegar hún keppir.“

Friðrik er afar ánægður með uppganginn sem átt hefur sér stað í kvennafótboltanum síðustu árin. ,,Þetta hefur verið ævintýri líkast og rosalega gaman að sjá framfarirnar. Það hefur verið ákaflega vel staðið að kvennaknattspyrnunni og til að mynda æfir Fanndís sjö sinnum í viku og það er töluvert meira en ég gerði þegar ég var í þessu á fullu,“ segir Friðrik, sem var einn allra besti markvörður landsins á árum áður og gerði garðinn frægan með Fram, ÍBV og íslenska landsliðinu. Spurður hvort karlalandsliðið muni einhvern tímann standa í sömu sporum og kvennalandsliðið sagði hann; ,,Ef við tökum líkindafræðina þá gerist það einhvern tímann. Það er hins vegar mun erfiðara fyrir karlaliðið að komast á stórmót og ég sé það ekki alveg fyrir mér að það gerist á næstunni. En með betri æfingaaðstöðu og þeirri staðreynd að það koma upp mjög sterkir árangar öðru hvoru þá gæti það tekist hjá karlalandsliðinu. KSÍ vinnur vel hvað yngriflokkastarfið varðar og ég trúi því að þetta náist einhvern tímann.“

Veit hvar á að setja boltann framhjá markverðinum

En getur gamli markvörðurinn gefið dóttur sinni einhver ráð sem koma henni til góða úti á vellinum?

,,Jú blessaður vertu. Ég veit hvar á setja boltann framhjá markverðinum. Ég veit hvar veiku punktarnir eru hjá þeim,“ sagði Friðrik og hló dátt. ,,Jú við ræðum um ýmislegt, ekki síst andlega þáttinn og það sem gerist fyrir utan völlinn. Við hjónin gerum okkur grein fyrir því að Fanndís er með þeim yngstu í hópnum og er að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu. Hún hefur átt mjög gott sumar með Breiðabliki og landsliðunum og er sá leikmaður sem Sigurður Ragnar getur notað til að fríska upp á sóknarleikinn. Hún hefur hraðann og ef leikirnir þróast á þann veg að við verðum að brjóta þá upp þá ég hef ég fulla trú á að hún nýtist vel. Ég vona að hún fái eitthvað að spreyta sig en það sem mestu máli skiptir er að liðinu vegni vel og það geri góða hluti á mótinu.“

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.