Aftökur Stalín ritaði eigin hendi undir fyrirmæli um aftöku 6.600 manna í „hreinsununum“ miklu 1937-1938. Í þessu eina skjali var mælt fyrir um aftöku tvöfalt fleiri manna en rússneska keisarastjórnin lét samtals taka af lífi af stjórnmálaástæðum hundrað árin á undan valdaráni kommúnista. Í hreinsununum miklu voru samtals um 700 þúsund manns tekin af lífi.
Aftökur Stalín ritaði eigin hendi undir fyrirmæli um aftöku 6.600 manna í „hreinsununum“ miklu 1937-1938. Í þessu eina skjali var mælt fyrir um aftöku tvöfalt fleiri manna en rússneska keisarastjórnin lét samtals taka af lífi af stjórnmálaástæðum hundrað árin á undan valdaráni kommúnista. Í hreinsununum miklu voru samtals um 700 þúsund manns tekin af lífi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson Svartbók kommúnismans, Le livre noir du communisme , kom fyrst út í Frakklandi haustið 1997, mikill doðrantur, röskar 800 blaðsíður.

Eftir Hannes Hólmstein

Gissurarson

Svartbók kommúnismans, Le livre noir du communisme , kom fyrst út í Frakklandi haustið 1997, mikill doðrantur, röskar 800 blaðsíður. Höfundar voru nokkrir franskir fræðimenn, sem notuðu tækifærið, eftir að skjalasöfn opnuðust við fall kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu, til að rannsaka rækilegar en áður hafði verið unnt, hvernig kommúnistastjórnir um allan heim á tuttugustu öld kúguðu þegna sína, tóku stjórnmálaandstæðinga af lífi eða hröktu úr landi, múlbundu fjölmiðla, virtu einskis sjálfstæði dómstóla og annarra stofnana og samtaka, skeyttu engu um hungursneyðir, sem stefna þeirra leiddi yfir þegnana, fluttu heila þjóðflokka nauðuga burt úr heimkynnum sínum og drógu eigin flokksmenn fyrir rétt eða skutu þá formálalaust í hnakkann niðri í kjöllurum leynilögreglunnar. Gerðist hið sama alls staðar, þar sem kommúnistar náðu völdum, hvort sem landið var Rússland, Kína, Víetnam eða Kúba. Hinir gætnari í hópi höfunda Svartbókarinnar (sem flestir eða allir eru fyrrverandi eða núverandi vinstrimenn) komust að þeirri niðurstöðu, að líklega hefðu um 85 milljónir manna týnt lífi beint og óbeint af völdum kommúnismans. Ritstjóri bókarinnar, Stéphane Courtois, telur, að fórnarlömbin séu mun fleiri, hátt í eitt hundrað milljónir.

Courtois spyr í formála Svartbókarinnar , hvers vegna kommúnisminn sé ekki fordæmdur í einu hljóði eins og nasisminn. Eftir fall nasismans voru leiðtogar hans leiddir fyrir rétt í Nürnberg og illvirki þeirra vandlega skilgreind. Sum ríki gengu svo langt að setja afturvirk lög um, að það teldist afbrot að hafa verið skráður í nasistaflokk, og víða er nú beinlínis bannað með lögum að efast um helför gyðinga. Til þess eru aðallega tvær ástæður. Menn vilja sýna fórnarlömbum nasismans virðingu og koma í veg fyrir, að helförin endurtaki sig. Því má spyrja, hvort ekki sé kominn tími til að sýna fórnarlömbum kommúnismans sömu virðingu og fræða fólk jafnframt á mörgu því hræðilega, sem gerðist í ríkjum undir stjórn kommúnista, ekki síst Ráðstjórnarríkjunum og Kína. Var einhver munur á því að svelta kúlakkabarn í hel í Úkraínu og gyðingabarn í gettóinu í Varsjá? Ef við megum aldrei gleyma ódæðum nasista, þá skulum við líka muna voðaverk kommúnista. Um þetta er einmitt ályktun Evrópuráðsins frá janúar 2006, sem sænski þingmaðurinn Göran Lindblad bar fram, þar sem mannréttindabrot kommúnistastjórna á tuttugustu öld eru fordæmd og hvatt til þess, að mannkyn geymi þau í minni sínu.

Vissulega kemur margt í Svartbók kommúnismans á óvart, til dæmis hversu snemma ógnarstjórnin hófst í Rússlandi og hversu grimmur Lenín var, eins og sést vel af bréfum og skeytum, sem hann lét rigna yfir aðstoðarmenn sína, þar sem hann hvatti til aukinna drápa og meira miskunnarleysis. En sumt í þessari fróðlegu bók ætti ekki að koma lesendum Morgunblaðsins á óvart, því að það blað hélt fram að hruni Berlínarmúrsins og lokum kalda stríðsins uppi ágætri fræðslu um heimskommúnismann. Allir þrír aðalritstjórar blaðsins á tímabilinu 1924-1989, þeir Valtýr Stefánsson, Bjarni Benediktsson og Matthías Johannessen, voru eindregnir andstæðingar kommúnisma, fylgdust vel með því, sem um hann var upplýst, komu því til skila í blaðinu og fengu fyrir svæsnar árásir í málgögnum íslenskra kommúnista og sósíalista. Af skrifum Morgunblaðsins þessi árin má glögglega sjá, að sú afsökun dugir lítt íslenskum ráðstjórnarvinum, að fátt eða ekkert hafi verið vitað um ógnarstjórnina þar eystra.

Hungursneyðirnar 1921-1922 og 1932-1933

Eitt fyrsta dæmið um það, hversu vel Morgunblaðið fylgdist með heimskommúnismanum, var hungursneyðin í Rússlandi 1921-1922. Samkvæmt Svartbók kommúnismans féllu þá um fimm milljónir manna. Valtýr Stefánsson ritstjóri endurprentaði haustið 1924 úr danska blaðinu Politiken greinaflokk eftir sænska málfræðinginn Anton Karlgren, sem var prófessor í slavneskum fræðum í Kaupmannahafnarháskóla og hafði ferðast um öll Ráðstjórnarríkin. Þar lýsti Karlgren hinu ömurlega ástandi í landinu og fullkomnu réttleysi allra annarra en kommúnista, sem voru aðeins brot af þjóðinni. Í Lesbók Morgunblaðsins 1926 var síðan útdráttur úr bók eftir Karlgren, þar sem hungursneyðinni í Rússlandi var nánar lýst. 1 Í nóvember 1927, þegar tíu ár voru liðin frá valdaráni kommúnista, birti Valtýr hugleiðingu í Lesbók Morgunblaðsins , þar sem hann vitnaði í ádeilur danskra og sænskra jafnaðarmanna á ógnarstjórnina í Rússlandi og lýsingar Karlgrens á eymdinni þar. 2

Annað dæmi er hungursneyðin í Ráðstjórnarríkjunum 1932-1933, en hún orsakaðist af átökum kommúnista við bændur, sem vildu ekki láta af hendi meginhluta uppskeru sinnar og ganga inn í samyrkjubú. Höfundar Svartbókarinnar segja, að kastalaherrunum í Kreml hafi tekist ótrúlega vel með aðstoð vestrænna vina að leyna þessari hræðilegu hungursneyð. Samkvæmt bókinni féllu þá um 6-7 milljónir manna. En Morgunblaðið birti vorið 1933 greinar um hungursneyðina eftir breska blaðamanninn Malcolm Muggeridge, sem var fréttaritari í Moskvu og hafði kjark til að segja satt og rétt frá: „Annars vegar voru milljónir hungraðra bænda, bólginna af hungurbjúg, hins vegar hermenn, sem framkvæma skipanir „alræðisvaldsins yfir öreigunum. ... Þeir höfðu skotið eða rekið í útlegð þúsundir bænda og sums staðar alla íbúa í heilum sveitaþorpum. Þeir höfðu breytt blómlegri byggð og frjósamasta landi í sorglega auðn.“ 3 Íslenskir kommúnistar brugðust ókvæða við. Verklýðsblaðið talaði um „eina andstyggilegustu saurgreinina um ríki verkalýðsins“. 4 Rússlandsfarar úr röðum kommúnista vitnuðu einnig, þar á meðal hinn frægasti þeirra, Halldór Kiljan Laxness, sem setti þessi eftirminnilegu orð á blað: „Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilangt í „húngursneyðinni“ 1932. Það var yndisleg húngursneyð. Hvar sem maður kom, var allt í uppgángi.“ 5

Lýsingar á Ráðstjórnarríkjunum

Á fjórða áratug sagði Morgunblaðið lesendum sínum frá ýmsum þeim, sem dvalist höfðu um lengri eða skemmri skeið í Ráðstjórnarríkjunum, en snúið þaðan vonsviknir. Einn var hinn heimsfrægi franski rithöfundur André Gide. Birti blaðið í ársbyrjun 1937 útdrátt úr ferðapistlum hans, þar sem sagði frá biðröðum og vöruskorti í rússneskum borgum, flökkubörnum á vegum úti, fáfræði þegnanna um önnur lönd og skilyrðislausri dýrkun Stalíns. 6 Morgunblaðið birti um sama leyti lýsingar dansks búfræðings, sem starfað hafði í Rússlandi, Arne Strøm, á eymdinni, kúguninni og ringulreiðinni þar eystra. 7 Í Gerska æfintýrinu haustið 1938 beindi Halldór Laxness spjótum sínum breiðum að þeim Gide og Strøm. Raunar kom annað rit út á íslensku í sama mund og ævintýrabók Laxness, Þjónusta, þrælkun, flótti, eftir finnska prestinn Aatami Kuortti, sem þjónað hafði lúterskum, finnskumælandi söfnuði í Karelíu, verið sendur í þrælkunarbúðir og tekist að flýja þaðan til Finnlands. Um þá bók sagði í ritdómi í Morgunblaðinu: „Þetta er sönn saga, og þess vegna heldur hún lesandanum hugföngnum frá upphafi til enda. Lífið á þrælastöðinni er svo ógurlegt, að ekkert fær því lýst annað en köld og látlaus frásögn.“ 8

Í Svartbók kommúnismans er vitnað í bókina Úr álögum eftir þýska kommúnistann Jan Valtin, sem hét réttu nafni Richard Krebs, en þar greindi höfundurinn, sem horfinn var frá fyrri skoðun, frá undirróðri og spellvirkjum kommúnista í verkalýðsfélögum Norðurálfunnar. Upplýsti hann meðal annars, að dyggir íslenskir kommúnistar í þjónustu Eimskipafélagsins notuðu skip þess til að flytja leyniskjöl milli landa. Morgunblaðið birti sumarið 1941 útdrátt úr bókinni, en fyrri hluti hennar kom út á íslensku haustið 1941 og hinn síðari þremur árum síðar. 9 Réðust Halldór Kiljan Laxness og aðrir íslenskir sósíalistar harkalega á þetta „falsrit“. 1 0 En dr. Þór Whitehead prófessor staðfesti frásögn Krebs eftir öðrum heimildum í bók sinni, Kommúnistahreyfingunni á Íslandi , 1979 og nafngreindi þann Íslending, sem sá aðallega um flutning leyniskjalanna. 1 1 Morgunblaðið hélt ótrautt áfram að fræða lesendur sína á þeim hörmungum, sem ráðstjórnarþegnar byggju við. Öll Lesbók blaðsins í árslok 1945 var lögð undir kafla úr bók eftir ungverska rithöfundinn Arthur Koestler, Skýjaglópnum og flokksjálkinum (The Yogi and the Commissar), þar sem bágum lífskjörum rússneskrar alþýðu og þrælkunarvinnu í fangabúðum var skilmerkilega lýst. 1 2 Í Þjóðviljanum kvað ungur sósíalisti, Jónas Haralz hagfræðingur, Morgunblaðið hafa sett nýtt met í „siðlausri blaðamennsku“ með því að birta þessa kafla úr riti Koestlers. 1 3

Kúgunin í Kína

Eftir sigur kommúnista haustið 1949 í borgarastríðinu í Kína tók við sams konar ógnarstjórn og í Ráðstjórnarríkjunum. Sumar og haust 1952 birti séra Jóhann Hannesson trúboði, sem hafði lengi dvalist í Kína og talaði málið, tvo greinaflokka í Morgunblaðinu um kínverskan kommúnisma. Kvað hann milljónir manna hafa verið teknar þar af lífi eftir valdatöku kommúnista. Efnt hefði verið til fjöldafunda, þar sem „stéttaróvinir“ hefðu verið pyndaðir og jafnvel drepnir fyrir framan aðra fundarmenn. Milljónir manna væru vistaðar í þrælkunarbúðum. Ekkert málfrelsi væri í landinu, en flóttamaður einn hefði sagt sér, að hann sæi ekki eins eftir því og þagnarfrelsinu, sem sér hefði verið enn dýrmætara, því að allir væru neyddir til að gera hróp að fórnarlömbum kommúnista og stunda „sjálfsgagnrýni“. Sá, sem þegði, væri talinn glæpamaður. 1 4 Samkvæmt Svartbók kommúnismans var ekkert ofsagt í skrifum séra Jóhanns. Líklega tóku kommúnistar 2-5 milljónir manna af lífi í sveitum landsins 1945-1949 og eina milljón í borgum og bæjum 1950-1957. 1 5 Vakti Morgunblaðið dyggilega athygli á máli Jóhanns. 1 6

Íslenskir sósíalistar brugðust hins vegar að venju illa við. Grein í Þjóðviljanum eftir Ísleif Högnason, fyrrverandi alþingismann, sem hafði þá nýlega verið í boðsferð í Kína, bar fyrirsögnina: „Þér skrökvið, séra Jóhann.“ Þar kvað Ísleifur kynni sín af kínverskri alþýðu hafa sannfært sig um, að það hlyti að vera ósatt, sem séra Jóhann hafði fullyrt, að menn hefðu verið grafnir lifandi í Kína og áhorfendur haft skemmtun af. 1 7 Svartbók kommúnismans segir hins vegar, að nokkur dæmi séu um slíkar aftökuaðferðir í Kína eftir valdatöku kommúnista.) Magnús Kjartansson ritstjóri hæddist í Þjóðviljanum að „barnaskap hinnar sólbrenndu hetju frá Hong Kong, að þessum vegmóða ferðalang, sem villtist ungur inn í prestshempu og fór um hálfan hnöttinn til að boða heiðingjum kristna trú, fékk spark í rassinn og vaknaði loksins á réttri hillu í lífinu heima á Íslandi: blaðamaður hjá Mogganum“. 1 8 Morgunblaðið lét þetta þó ekki á sig fá, og vorið 1956 lýsti það á þremur heilsíðum ógnarstjórn kommúnista í Kína, kúgun, fjöldaaftökum, þrælkunarbúðum. „Hvergi á blóðugum ferli kommúnismans hafa hryðjuverk hans komist á svo gífurlegt stig sem í Kína.“ 1 9 Einnig var nokkuð sagt í blaðinu frá hinni miklu hungursneyð í Kína 1958-1961, eftir að „Stóra stökkið fram á við“ hafði mistekist, 2 0 en líklega gerði enginn Vesturlandamaður sér þá í hugarlund, hversu óskapleg hún var: Samkvæmt Svartbók kommúnismans týndu þá um 30 milljónir manna lífi. Líklega var þetta mannskæðasta hungursneyð veraldarsögunnar.

Kommúnismi í öðrum löndum

Í stuttri blaðagrein verður að fara fljótt yfir sögu, og er hér fátt eitt nefnt af mörgu. En Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir framferði kommúnista í Mið- og Austur-Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld. Til dæmis birti blaðið fróðlegan greinaflokk 1946 eftir íslenskumælandi mann frá Litháen, Teodoras Bieliackinas, um undirokun Eystrasaltsþjóða. 2 1 Blaðið sagði einnig frá hreinsunum og sýndarréttarhöldum í Mið-Evrópu, meðal annars hinum illræmdu Slánský-réttarhöldum í Tékkóslóvakíu haustið 1952. Þar var einn sakborninga dr. Rudolf Margolius, sem verið hafði aðstoðarviðskiptaráðherra, og var honum gefið að sök að hafa gert viðskiptasamninga við Ísland og nokkur önnur vestræn ríki. Í forystugrein daginn eftir aftöku Margoliusar sagði Morgunblaðið : „Mjög fróðlegt verður að sjá skýringar Þjóðviljans á „sök“ þessa tékkneska kommúnistaleiðtoga, sem nú hefur látið líf sitt í snörunni fyrir að kaupa íslenskan fisk. ldquo 2 2 Magnús Kjartansson svaraði í Þjóðviljanum, að „sakamannaást“ Morgunblaðsins ætti sér skýringar: „Tilgangurinn er sá að reyna að fá Íslendinga til að hætta að hugsa um kjör sín, en deila í staðinn um ókunna brotamenn í fjarlægu landi.“ 2 3

Eftir leyniræðu Níkíta Khrústsjovs um illvirki Stalíns og innrás Kremlverja í Ungverjaland 1956 sungu íslenskir sósíalistar nokkru lægra en áður um dýrðina eystra, og eftir innrásina í Tékkóslóvakíu 1968 þagnaði lofsöngurinn nánast. Dró að sama skapi úr kappi Morgunblaðsins við að upplýsa um ógnarstjórnina. En blaðið gerði þó rússneskum andófsmönnum góð skil, ekki síst Aleksandr Solzhenítsyn, sem kom orðinu „Gúlag“ inn í allar tungur heims. Matthías Johannessen ritstjóri skráði í blaðið merkileg viðtöl við rithöfundana Andrej Sinjavskíj og Valeríj Tarsis. Fréttagreinar Elínar Pálmadóttur blaðamanns um ódæði rauðu kmeranna í Kambódíu eftir 1975 vöktu einnig mikla athygli. Margt var birt í Morgunblaðinu á áttunda og níunda áratug um kúgun kommúnista á Kúbu og öðrum kommúnistaríkjum. Eftir hrun Berlínarmúrsins og fall sósíalistaríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu árin 1989-1991 minnkaði á hinn bóginn áhugi Morgunblaðsins á að flytja fréttir af voðaverkum kommúnista. Voru ritstjórar blaðsins því eflaust fegnir, að kalda stríðinu var lokið, og vildu ekki efna til frekari illdeilna. En Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, og fleiri benda á, að eftir seinni heimsstyrjöld var talið nauðsynlegt að gera upp við nasismann í stað þess að leiða hann hjá sér. Hvort tveggja var, að fórnarlömb nasismans áttu það skilið og mannkyn verður að læra að þekkja og forðast svipuð fyrirbæri. Gildir ekki hið sama um kommúnismann? Hvað sem því líður, gátu Morgunblaðsmenn við fall kommúnismans tekið sér með góðri samvisku í munn orð úr hinni helgu bók: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“

1. „Frá Rússlandi“, Mbl . 7., 11., 13. og 14. nóvember 1924 og 3. og 9. janúar 1925; „Bændur og bolsivikkar í Rússlandi,“ Lesbók Morgunblaðsins 10. og 17. október 1926.

2. V[altýr] St[efánsson]: „Ráðstjórnarafmælið“, Lesbók Morgunblaðsins 20. nóvember 1927.

3. „Frá Rússlandi“, Mbl . 19. júlí 1933. Sbr. einnig „Hungursneyð og drepsóttir í Rússlandi“, Mbl . 6. ágúst 1933; „Hungursneyðin í Rússlandi“, Mbl . 23. ágúst 1933.

4. „Hungurlygarnar um Sovét-Rússland“, Vbl . 22. ágúst 1933

5. Halldór Kiljan Laxness: „Rússland úr lofti“, Sovétvinurinn , 2. árg. 5. tbl. (september 1934), 4.-5. bls.

6. „Heim frá Sowjet“, Lesbók Morgunblaðsins 10. janúar 1937.

7. „Þriggja daga greinaflokkur. Bækur um Rússland“, Mbl . 1., 2. og 3. júlí 1937.

8. M[agnús] J[ónsson]: „Þjónusta, þrælkun, flótti“, Mbl . 9. desember 1938.

9. „Richard Jensen og kommúnistaflokkur Danmerkur“, Mbl . 22. júlí 1941; „Kommúnistaflokkarnir í Moskvasambandinu [Komintern] máttu ekki vera fjárhagslega sjálfstæðir!“ Mbl . 23. júlí 1941; „Svipmyndir af norska kommúnistaflokknum“, Mbl . 24. júlí 1941; „Óbreytti liðsmaðurinn og „öreiginn“ í loðkápunni“, Mbl . 25. júlí 1945.

10. Halldór K. Laxness: „Vondur félagsskapur“, Nýtt dagblað 1. september 1941.

11. Þór Whitehead: Kommúnistahreyfingin á Íslandi (Reykjavík 1979), 52. bls.

12. Arthur Koestler: „Trúin á Sovét“, Lesbók Morgunblaðsins 29. desember 1945.

13. Jónas Haralz: „Hið nýja met Morgunblaðsins í siðlausri blaðamennsku. Falsspámaðurinn Koestler afhjúpaður“, Þjv . 6. janúar 1946.

14. Jóhann Hannesson: „Trúfrelsi á pappírnum en í heimi raunveruleikans kúgun og ófrelsi“, Mbl . 13. mars 1952; sami: „Um Asíumál“, Mbl . 10., 13., 14., 15., 16., 27., og 28. ágúst 1952; „Hvert stefnir kommúnisminn í Kína?“ Mbl . 19., 21., 23. og 28. október og 4. nóvember 1952. Séra Jóhann birti einnig greinaflokk vorið 1953 í Mbl ., „Friðarstefnur og friðarhugsjónir“, Mbl . 6., 7. og 8. mars 1953.

15. Svartbók kommúnismans , grein um Kína eftir Jean-Louis Margolin.

16. „Lýðræðis-einræði alþýðunnar“, Mbl . 16. ágúst 1952 (forystugrein); „Voru þurrkaðir út“, Mbl . 4. október 1952 (forystugrein); „Reykjavíkurbréf“, Mbl . 19. október 1952; „Leiðinlegur andlegur lasleiki“, Mbl . 9. nóvember 1952.

17. Ísleifur Högnason: „Þér skrökvið, séra Jóhann“, Þjv . 11. mars 1953.

18. Lupus [Magnús Kjartansson]: „Trúboði Morgunblaðsins“, Þjv . 18. mars 1953.

19. „Hryðjuverk kommúnista í Kína eru svo gífurleg að nær ofvaxið er mannlegum skilningi að trúa þeim“, Mbl . 12. apríl 1956. Beindist frásögnin aðallega að lögreglumálaráðherranum, Luo Ruiqing, sem þar var nefndur að fyrri tíðar rithætti Lo Jui-ching.

20. „Hungursneyðin í Kína“, Mbl . 17. febrúar 1961 (forystugrein).

21. Teodoras Bieliackinas: „Flóttamennirnir frá Eystrasaltslöndunum“, Mbl . 18. desember 1945; „Athugasemd“, Mbl . 4. janúar 1946; „Níu spurningar til Hendriks Ottóssonar“, Mbl . 27. janúar 1946; „Bak við „járntjaldið““, Mbl . 2. og 3. ágúst 1946; „Undirokun smáþjóðar, Byron og Þórbergur Þórðarson“, Mbl . 8. ágúst 1946; „Reiður Rússavinur með rangan málstað“, Mbl . 17. ágúst 1946; „Sannleikurinn um Eystrasaltslöndin“, Mbl . 27. og 28. ágúst 1946. Kveikjan að fyrstu skrifum Bieliackinasar var, þegar Jónas Haralz birti greinina „Baltnesku flóttamennirnir í Svíþjóð“ í Þjv . 29. nóvember 1945.

22. „Líflátinn fyrir að gera fiskkaupasamning við Ísland!“ Mbl . 5. desember 1952; „Galt líf sitt fyrir íslenskan fisk“, Mbl . 6. desember 1952 (forystugrein).

23. „Hugleiðingar Örvarodds“, Þjv . 11. desember 1952.