Auraspjall Áríðandi er að foreldrar kenni börnum sínum að fara með peninga og útskýri hvað peningar eru.
Auraspjall Áríðandi er að foreldrar kenni börnum sínum að fara með peninga og útskýri hvað peningar eru. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjármálalæsi Íslendinga er dapurt og kannanir sýna að fleiri foreldrar uppfræða börn sín um kynlíf en fjármál. Á Degi fjármálalæsis verður áhersla á að foreldrar tali við börn sín um fjármál.
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Fjármálalæsi gengur út á meira en peninga, það gengur út á að sýna fyrirhyggju, sem er gott í lífinu almennt. Einn mikilvægasti lærdómurinn í fjármálalæsi er sá að peningar eru ekki allt. Það að vera fjármálalæs er að sýna almenna skynsemi, en vandamálið við almenna skynsemi er að hún er ekkert svo almenn,“ segir Breki Karlsson forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, en eftir tvær vikur verður Dagur fjármálalæsis á Íslandi, þann 18.september.

„Við ætlum að fá fólk til að hugsa um fjármálin sín heildrænt og hvetja fólk til að ræða þessi mál við börnin sín. Mikill meirihluti fólks vill fá fræðslu í eigin fjármálum, sérstaklega eftir að kreppan skall á. Við bankahrunið vöknuðu margir upp við þann vonda draum að þeir voru illa að sér í fjármálalæsi, bæði í eigin fjármálum sem og samfélagsins. Það er ekki sjálfgefið að fólk viti hvað verðbólga er, hvernig hún er mæld og hvernig hún hefur áhrif á einstaklingana. Vissulega hefur orðið vakning í fjármálalæsi hér á landi, en sú vakning er sprottin upp af neyð og því að fólk er komið í mikil vandræði vegna utanaðkomandi aðstæðna.“

Íslendingar fá falleinkunn

Breki gerði rannsókn síðastliðinn vetur þar sem kom berlega í ljós að mikil brotalöm er á fjármálalæsi Íslendinga. „Ef gefin væri einkunn út frá niðurstöðum þessarar rannsóknar, þá er meðalfjármálalæsi Íslendinga undir fimm, eða fall. Því miður er það svo í fjármálum að margir hafa lært af slæmri reynslu en það getur verið mjög dýrt. Einmitt þess vegna er áríðandi að læra að höndla með peninga og því fyrr því betra. Við þurfum að skilja hvernig peningar virka og ákveða hvaða hlutverki við viljum að þeir gegni í lífi okkar. Við vitum öll að við getum ekki keypt hamingju fyrir peninga en þegar allt kemur til alls þá verðum við að höndla með peninga.“

Sníða sér stakk eftir vexti

Breki segir að fjármálalæsi snúist líka um að gera áætlanir, setja sér fjárhagsleg markmið og sníða sér stakk eftir vexti. „Tökum sem dæmi unga manneskju sem vill starfa sem tónlistarmaður, þá þarf að taka inn í reikningsdæmið að vinnutíminn er á þeim tíma sem flestir slappa af, um kvöld og helgar. Einnig eru tekjumöguleikar ekki mjög miklir fyrir íslenska tónlistarmenn, nema auðvitað ef viðkomandi slær mjög rækilega í gegn. En það er ekki þar með sagt að fólk eigi ekki að kjósa að vinna við eitthvað skapandi þó það gefi ekki mikið af sér í aðra hönd, málið er bara að sníða sér fjárhagslega umgjörð í samræmi við það. “

Ekki kennt í skólum landsins

Fjárhagslegt læsi snýst líka um að geta brugðist við breytingum í þjóðfélaginu sem hafa áhrif á fjarhag einstaklinga, til dæmis þeim breytingum sem kreppa hefur í för með sér. „Það skiptir miklu máli að skapa sér fjárhagslegt svigrúm til að takast á við óvænt útgjöld. Meðalyfirdráttur á hvert íslenskt heimili var í september í fyrra 700.000 krónur. Þetta er augljóslega óhagstætt, fólk er þá að lifa um efni fram og borga 15% vexti af þessum yfirdrætti. Betra er að endurskipuleggja sig, vera á núllinu og leggja frekar fyrir í varasjóð til að eiga fyrir óvæntum útgjöldum.“ Breki segir að áherslan á Degi fjármálalæsis í þetta sinn sé að foreldrar tali við og upplýsi börn sín um fjármál. „Kannanir sýna að fleiri foreldrar uppfræða börn sín um kynlíf en fjármál. Í ljósi þess að hér á Íslandi er hæsta fæðingartíðni í Evrópu og efnahagslífið eins og það er, þá er nokkuð ljóst að við þurfum að tala meira um fjármál við börnin okkar og þá í víðum skilningi. Því miður er engin skipulögð kennsla í fjármálalæsi, hvorki í grunnskólum né framhaldsskólum. Vissulega er komið inn á þetta í einstaka skólum í lífsleikni en það fer alveg eftir kennurum hversu vel er farið í þessi mál.“

Börn sjá sjaldan peninga

„Fólk þarf ekki að hræðast að tala um fjármál við börnin sín. Fólk á ekki að líta á sjálft sig sem sérfræðinga heldur þjálfara barna sinna. Hafa ber í huga að samkvæmt rannsóknum eru börn líkleg til að erfa fjármálaviðhorf og -hegðun foreldra sinna. Því skiptir máli að vera þeim góð fyrirmynd. Foreldrar sem hafa kannski gert einhver mistök í fjármálum eiga einmitt að nýta þá reynslu til að kenna börnum sínum hvernig á að forðast að lenda í því sama. Við getum gert það á uppbyggjandi hátt, til dæmis með því að kenna þeim að þó við höfum ekki efni á að kaupa eitthvað eða gera eitthvað núna, þá getum við reynt að leggja fyrir til að hafa efni á því seinna. Ég legg til að fjölskyldur hafi í hverri viku svolítinn fund, einhverskonar auratal, en passa auðvitað að efnið hæfi aldri barnanna. Fyrir tíu ára barni er hægt að útskýra hvernig þúsundkall skiptist í tíu hundraðkalla en táningur gæti haft áhuga á því hvaða kostnaður fylgi því að taka bílpróf. Það er ótrúlega margt sem sprettur upp í svona samtölum.“

Breki segir að hægt sé að byrja mjög snemma að útskýra fyrir börnum muninn á þörf og löngun þegar kemur að neyslu, sérstaklega út frá auglýsingum sem beint er að börnum. „Börn sjá líka svo sjaldan peninga nú orðið. Við borgum reikningana okkar í gegnum heimabanka og við borgum fyrir vörur í verslunum með plastkortum. Í augum barnanna virðist því kannski eins og uppspretta peninga sé ótæmandi. Við þurfum því að kenna þeim að fara með peninga og útskýra hvað peningar eru.“

Ritgerðasamkeppni

Í tengslum við Dag fjármálalæsis verður haldin ritgerðasamkeppni í framhaldsskólum. Ritgerðaefnið á að tengjast slagorði dagsins sem er: Fjármál eru ekki feimnismál, og er vísun í fræga smokkaherferð landlæknisembættisins frá 1985.

Efni ritgerðanna getur því verið um hvað sem er sem tengist slagorði dagsins.

Ritgerðirnar eiga að vera 800 orð og sigurvegarinn fær verðlaun og vinningsritgerðin verður birt í Morgunblaðinu.

Nánari upplýsingar um samkeppnina má fá á síðunni:

www.fe.is