Lizzie Fyrirmynd að Ófelíu í þessu fræga málverki Millais.
Lizzie Fyrirmynd að Ófelíu í þessu fræga málverki Millais.
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur kolbrun@mbl.is DESPEARTE Romantics er nýleg bók eftir Franny Moyle þar sem hún beinir sjónum að konunum í lífi forrafaelítanna svonefndu og örlögum þeirra.

Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

kolbrun@mbl.is

DESPEARTE Romantics er nýleg bók eftir Franny Moyle þar sem hún beinir sjónum að konunum í lífi forrafaelítanna svonefndu og örlögum þeirra. Bresku forrafaellítarnir sóttu innblástur til ítalskrar málaralistar fyrir daga Rafaels. Blómatími þeirra var um og eftir miðja 19. öld og konurnar í lífi þeirra urðu ofurfyrirsætur síns tíma.

Meðal persóna í þessari bók eru málararnir Dante Gabriel Rossetti, John Everett Millais og William Morris og fyrirsæturnar Lizzie Siddal og Jan Morris. Það var yfirleitt lítil hamingja í einkalífi þessa fólks, ástarsambönd voru flókin og bág andleg og líkamleg heilsa setti mark sitt á lífshlaupið.

Átröskun og þunglyndi

Hin unga hattagerðarkona Lizzie Siddal er fyrirferðarmikil í bókinni. Hún var ung að árum þegar John Everett Millais hafði hana að fyrirmynd að Ófelíu þar sem hún flýtur látin niður á. Myndin, sem er máluð á tímabilinu 1851-52, er ein af þekktustu myndum breskrar listasögu. Lizzie tók hlutverk fyrirsætunnar alvarlega og lá tímunum saman í ísköldu baði meðan Millais, sem þá var 22 ára, teiknaði hana. Hún varð fárveik á eftir, hugsanlega af lungnabólgu, og náði sér aldrei fyllilega eftir það. Lizzie bjó með Dante Gabriel Rossetti sem kvæntist henni eftir að þau höfðu verið í sambúð í tæpan áratug en þá var Lizzie orðin afar heilsuveil. Eftir að Lizzie fæddi andvanda dóttur fór heilsa hennar enn versnandi. Hún var háð lyfjum og þjáð af átröskun og þunglyndi. Hún fyrirfór sér 29 ára gömul vegna framhjáhalds eiginmanns síns.

Lík grafið upp

Rossetti var harmi sleginn vegna andláts hinnar ungu eiginkonu sinnar. Hann hafði dundað við að yrkja ljóð og setti eina handritið sem hann átti af þeim í gröf eiginkonu sinnar. Seinna sá hann mjög eftir því að hafa verið svo örlátur og lét grafa upp lík Lizzie til að endurheimta ljóðahandritið. Ljóðin komu seinna út í bók sem Rossetti tileinkaði Jane Morris, eiginkonu vinar síns William Morris, sem hann var þá mjög ástfanginn af. Jane endurgalt tilfinningar hans og William Morris leitaði huggunar hjá Georgie, eiginkonu málarans Edward Burne Jones.

Dramatísk bók

Þær sögur sem hér hafa verið lauslega raktar eru einungis brot af þeirri ástaróreiðu sem einkenndi líf forrafaelítanna.

Lesendur Desperate Romantics fá gott og dramtískt lesefni í hendur en hætt er við að þeim þyki eigin ævi fremur hversdagsleg í samanburði við öll tíðindin á blaðsíðunum.