Um nokkurt skeið hafa kærur Fjármálaeftirlitsins á hendur sex blaðamönnum vegna meints brots á bankaleynd verið að velkjast um í kerfinu. Í gær var þeim öllum vísað frá. Forsendur frávísunarinnar eru ólíkar, en niðurstaðan endanleg.
Um nokkurt skeið hafa kærur Fjármálaeftirlitsins á hendur sex blaðamönnum vegna meints brots á bankaleynd verið að velkjast um í kerfinu. Í gær var þeim öllum vísað frá. Forsendur frávísunarinnar eru ólíkar, en niðurstaðan endanleg.

Í hlut áttu Agnes Bragadóttir og Þorbjörn Þórðarson, blaðamenn á Morgunblaðinu, Kristinn Hrafnsson, sem var fréttamaður Kompáss þegar kæran kom fram, og Reynir Traustason, ritstjóri DV, og Ingi F. Vilhjálmsson, blaðamaður á DV.

Athyglisverðast er að skoða ástæðuna fyrir frávísun mála Þorbjörns, Reynis og Inga. Þar reyndi á 58. grein laga um fjármálafyrirtæki. Sú grein snýst um þagnarskyldu og er svohljóðandi: „Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.“

Mat Björns L. Bergssonar, setts ríkissaksóknara, var að svo væri ekki. Ef leynd á gögnum hefði verið rofin yrði hún ekki endurvakin í höndum annarra.

Þetta virðist vera nokkuð rökrétt niðurstaða, en nú vaknar sú spurning hvort hún verði fordæmisgefandi. Hulda Árnadóttir, lögmaður blaðamannanna þriggja, kveðst í samtali í Morgunblaðinu í dag telja að túlkun saksóknara hafi ákveðið fordæmisgildi. „Ég myndi ætla að allir, sem eru að vinna með þessi lög, bæði FME og handhafar ákæruvaldsins, væru bundnir af þessari túlkun ríkissaksóknara á ákvæðinu af því hann er æðsti handhafi ákæruvalds í landinu,“ segir hún.

Það er umhugsunarefni að Fjármálaeftirlitið skuli hafa ákveðið að kæra blaðamennina sex, en það varð þó til að knýja fram þá niðurstöðu, sem fékkst í gær. Sérstaklega mikilvæg er niðurstaða ríkissaksóknara í málum Þorbjörns, Reynis og Inga. Ekkert frelsi er þó án ábyrgðar og áminning Huldu um að blaðamenn verði eftir sem áður að virða friðhelgi einkalífsins og vega og meta hvort upplýsingar, sem þeir fái í hendur, eigi í raun erindi við almenning er þörf. Frelsi fjölmiðla til að fjalla um mikilvæg mál er grundvallaratriði. Það er á ábyrgð fjölmiðla að kunna að fara með það frelsi.