Breki Karlsson
Breki Karlsson
Eftir Breka Karlsson: "Það er mikilvægt að fjölskyldur ræði saman um fjármál, en rannsóknir sýna að fjármál séu orðin meira feimnismál en kynlíf."
FJÁRMÁLALÆSI er getan til að lesa, greina og fjalla um þá þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklinga. Það snýst ekki um að verða ríkur heldur sníða sér stakk eftir vexti. Það þarf ekki að koma á óvart að samkvæmt rannsóknum er staða fjármálalæsis Íslendinga ekki góð. Börnum er kennt að lesa, skrifa og reikna í skólum, en enn sem komið er er fjármálalæsi nánast einvörðungu á herðum foreldra og samkvæmt rannsóknum tala um tveir þriðju hlutar foreldra við börnin sín um kynlíf en einungis þriðjungur uppfræðir þau um fjármál. Því má segja að fjármál séu orðin meira feimnismál en kynlíf. Við það verður ekki búið.

Nú þegar haustar að er góð ástæða til að setjast niður með fjölskyldunni og taka upp nýja fjölskylduhefð: Auratal. Hugmyndin er að fjölskyldan safnist reglulega saman og tali um hvernig peninga er aflað, þeim eytt og þeir sparaðir. Viðfangsefni auratals er undir þér komið en hugmyndin er alltaf sú sama: að veita börnunum þínum ómetanlega kennslu í fjármálalæsi.

Við viljum öll börnunum okkar bara það besta, hvort sem það snýr að heilsu eða menntun, og að efla færni þeirra í fjármálum er hluti af því. Þegar kemur að kennslu í fjármálalæsi eru foreldrar oft bestu kennararnir. Það á að vera gaman, alvöru, reglulegt, sveigjanlegt og þú þarft að vera fyrirmynd.

Gaman – Auratalið á að vera skemmtileg samverustund allrar fjölskyldunnar og alls ekki of langt. Tengja má auratalið við eitthvað sem börnin hlakka til svo sem pizzu-kvöld. Hægt er að ná að fara yfir víðan völl á hálftíma án þess að neinn verði of þreyttur.

Alvöru – Tengdu auratalið við eitthvað sem er fjölskyldunni mikilvægt. Ef fjölskyldan er til dæmis að hugsa um að kaupa sjónvarp eða safna fyrir ferðalagi mætti nota auratalið til að ræða málið og fá innlegg frá öllum fjölskyldumeðlimum. Ef fjárhagserfiðleikar steðja að er rétt að tala við börnin um stöðu mála en gæta þess þó að valda þeim ekki óþarfa áhyggjum.

Reglulegt – Það er auðveldara fyrir alla ef auratal fjölskyldunnar er alltaf á sama tíma. Ennfremur er gott ef börnin vita hvers er von.

Til dæmis mætti sammælast um einfalda dagskrá:

1) útborgun vasapeninga,

2) spurningar eða athugasemd um fjármál,

3) aðalumræðuefni vikunnar rætt (ferðalagið eða sjónvarpið),

4) fundi slitið með því að spila fjármálatengdan leik, svo sem Matador.

Sveigjanlegt – Börn á mismunandi aldri hafa mismunandi þarfir og hugmyndir um fjármál. T.d. gæti 10 ára barn velt fyrir sér hvað þúsundkall sé margir hundraðkallar, á meðan táningur hefði áhuga á að pæla í kostnaði við bílpróf. Gefðu hverju barni tíma til að tjá sig um fjármál og fáðu alla fjölskyldumeðlimi til að hlusta.

Fyrirmynd – Notaðu auratalið til að sýna börnunum þínum að þú hugsir mikilvægar fjármálalegar ákvarðanir í gegn, að þú borgir reikninga á réttum tíma og að þú farir vel með peninga. Við foreldrar hikum stundum við að kenna börnunum okkar um fjármál þar sem við erum langt frá því að vera fullkomin sjálf. Líttu á þig sem þjálfara, en ekki sérfræðing og bentu börnum þínum á hvað þú gerir rétt og hvar þú mættir bæta þig. Leyfðu börnunum að læra af bæði mistökum þínum og sigrum. Fleiri tillögur um hvernig ræða megi við börn og unglinga um fjármál má finna á www.fé.is.

Höfundur er forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi.