Hrannar B. Arnarsson
Hrannar B. Arnarsson
Eftir Hrannar Björn Arnarsson: "...að Jóhanna Sigurðardóttir vinnur sleitulaust í þágu almennings..."

FORSÆTISRÁÐHERRAR eiga aldrei frí. Samt er það svo að í flestum öðrum löndum en á Íslandi er viðurkennt að þeir eigi rétt á að taka sér frí, a.m.k. einhvern hluta af venjulegum sumarleyfistíma. Það eru hins vegar engir venjulegir tímar á Íslandi og ráðherrar jafnt sem þingmenn hafa verið í nánast stöðugri vinnulotu síðan í október á sl. ári. Um núverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, gildir þetta reyndar um undanfarin rúm tvö ár. Það mætti því teljast eðlilegt að skilningur væri á því að forsætisráðherra væri utan Stjórnarráðsins nokkra dagparta í september til þess að safna kröftum fyrir þingbyrjun 1. október og veturinn sem allir vita að verður annasamur og erfiður. Því er ekki að heilsa eins og við sjáum í fjölmiðlum þessa dagana.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur undanfarna 7 mánuði leitt ríkisstjórnarsamstarf tveggja ríkisstjórna Samfylkingar og Vinstri grænna á einhverjum erfiðustu og kröfuhörðustu tímum sem íslensk ríkisstjórn hefur nokkurn tíma starfað á. Afköst og árangur ríkisstjórnarinnar þennan tíma er án nokkurs vafa meiri en nokkurrar annarrar ríkisstjórnar í lýðveldissögunni. Verkin hafa verið látin tala frá fyrsta degi.

Á sama tíma ríkir einhugur og samstaða í Samfylkingunni og er flokkurinn óumdeild kjölfesta íslenskra stjórnmála eftir glæsilegan kosningasigur flokksins undir forystu Jóhönnu.

Hver forsætisráðherra hefur sitt eigið verklag eins og dæmin sanna. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gengið lengra í valddreifingu og samráði innan sinnar ríkisstjórnar en flestir forverar hennar. Sú staðreynd ætti enda að blasa við að tími forsætisráðherra er afar dýrmætur og verkefnum hans þarf því að forgangsraða. Forsætisráðherra svarar fyrir störf ríkisstjórnarinnar í heild. Í því felst að sjá til þess að þau verk sem stjórnin setur sér og henni eru falin af Alþingi nái fram að ganga. Ráðherrar stjórnarinnar fylgja eftir sínum sérsviðum og svara fyrir þau á opinberum vettvangi. Gagnrýnt er að forsætisráðherra sé ekki nægilega á tali við fulltrúa erlenda fjölmiðla. Það er að sönnu ekki efst í forgangsröð ráðherrans en þar með er ekki sagt að erlent fjölmiðlafólk sé vanrækt af ríkisstjórninni. Þeir erlendu blaðamenn sem Morgunblaðið hefur til að mynda leitt fram á síðum sínum hafa fengið og tekið viðtöl við ráðherra í ríkisstjórninni og ekki annað vitað en að þeir hafi fengið umbeðin svör svikalaust.

Aðgengi að ráðamönnum á Íslandi er almennt heldur gott miðað við það sem annars staðar þekkist. Þegar litið er til baka verður ekki komist hjá því að álykta að núverandi forsætisráðherra gefi forverum sínum í embætti ekkert eftir þegar kemur að sýnileika og virkum samskiptum við fjölmiðla.

Af þessu tilefni er rétt að undirstrika að forsætisráðherra hefur undantekningalítið haldið 1-2 fundi með íslenskum blaðamönnum í hverri viku undanfarna sjö mánuði. Á sama tíma hefur forsætisráðherra haldið fjóra fjölmenna blaðmannafundi með erlendum fjölmiðlum auk ýmissa annarra samskipta við erlenda fjölmiðla.

Undanfarinn hálfan mánuð hefur ekkert frést af formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Á meðan er endurtekið kvartað yfir því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sé ekki nógu sýnileg þótt haldnir hafi verið tveir blaðamannafundir eftir ríkisstjórnarfundi í sl. viku. Stef af þessu tagi, þegar menn þykjast ekki sjá það sem gert er, eru kunnugleg úr pólitískri umræðu og þurfa því ekki að koma á óvart. Fólk getur velt því fyrir sér hvaða tilgangi það þjónar að hamra sífellt á því að forsætisráðherra sinni ekki verkum sínum.

Þrjátíu ára ferill í stjórnmálum hefur sýnt að Jóhanna Sigurðardóttir vinnur sleitulaust í þágu almennings í landinu þótt það sé ekki alltaf í kastljósi fjölmiðla. Hún kann að stíga fram á réttum tíma með sinn boðskap. Þann tíma velur hún sjálf en hvorki fjölmiðlar né andstæðingar í stjórnmálum.

Höfundur er aðstoðarmaður forsætisráðherra.