Breki Karlsson
Breki Karlsson
Eftir Breka Karlsson: "Mikilvægi eflingar fjármálalæsis hefur líklega aldrei verið meira en einmitt nú og verður mikilvægur þáttur í þeirri uppbyggingu sem framundan er."

MIKILVÆGI eflingar fjármálalæsis hefur líklega aldrei verið meira en einmitt nú. Spyrja má hvort skortur á fjármálalæsi hafi átt þátt í því efnahagshruni sem orðið hefur á Íslandi, en hitt er víst að bætt fjármálalæsi verður að koma til í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Hvað er fjármálalæsi?

Fjármálalæsi er getan til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjárhagslega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklinga. Fjármálalæsi byggist á þekkingu, viðhorfum og hegðun og innifelur marga þætti, svo sem:

– Grundvallarfærni í stærðfræði ásamt skilningi á útreikningi vaxta og vaxtavaxta.

– Þekkingu á ávinningi og áhættu við ákvarðanir í fjármálum, svo sem sparnað, lántökur og fjárfestingar.

– Skilning á grundvallar fjármálahugtökum svo sem á sambandi áhættu og ávöxtunar, tímavirði peninga og á algengustu fjármálaafurðum sem í boði eru hverju sinni.

– Getuna til að vita hvenær á að leita aðstoðar sérfræðinga, hvert á að leita, hvaða spurninga á að spyrja, skilja svörin og átta sig á mögulegum öðrum hagsmunum sérfræðinganna.

– Þekkingu á eigin gildum og þeim þáttum sem móta viðhorf okkar til fjármála.

Fjármálalæsi skiptir máli

Fjármál eru alltumlykjandi í dagsins önn og flestallir taka stórar eða litlar fjárhagsákvarðanir á degi hverjum. Eins er varla hægt að fylgjast með fréttum án þess að fjallað sé um málefni er varða fjármál einstaklinga. Til að geta tekið upplýstar ákvarðanir og skilja umfjöllunarefni frétta til fulls þarf fjármálalæsi. Í heimi sem verður sífellt flóknari er fjármálalæs einstaklingur betur í stakk búinn til að taka upplýstar ákvarðanir er varða efnahagslega velferð hans en sá sem er illa læs á fjármál. Að öllu öðru jöfnu er fjármálalæs einstaklingur líklegri til að sníða sér stakk eftir vexti, fjárfesta skynsamlegar og stýra fjármálum sínum betur. Slæmar ákvarðanir, byggðar á vankunnáttu í fjármálum, geta aftur á móti haft afar slæmar og varanlegar afleiðingar. Samkvæmt erlendum rannsóknum getur skortur á fjármálalæsi haft veruleg neikvæð áhrif á efnahag einstaklinga og leitt til erfiðleika við daglega útgjaldastjórnun og vandamála við setningu langtímamarkmiða, svo sem við húsnæðiskaup, starfslok og lífeyristöku. Þá leiðir slík vankunnátta til þess að fólk verður verr í stakk búið til að mæta fjárhagslegum skakkaföllum.

Sýnt hefur verið fram á að fjármálalæsi almennings hafi áhrif á hegðun fjármálafyrirtækja og þannig á efnahagslegan stöðugleika. Ennfremur að fjármálalæsi hafi áhrif á skiptingu gæða í þjóðfélaginu og þannig áhrif á langtíma hagvaxtarmöguleika. Fjármálalæsi getur þannig haft mikil og góð áhrif á uppbyggingu heilbrigðs fjármálakerfis þar sem bætt fjármálalæsi almennings leiðir ekki bara til betri reksturs heimila, heldur minnkar það einnig útlánaáhættu lánveitenda. Fjármálalæs almenningur veitir fjármálastofnunum heilbrigt aðhald. Fólk myndi betur skilja þá þjónustu sem fjármálastofnanir bjóða og þá áhættu og ávinning sem hún innifelur.

Fjármálalæsi hefur áhrif

Erlendar rannsóknir sýna glögglega að kennsla í fjármálalæsi hefur bein áhrif á efnahag fólks út lífið. Þeir sem fá fjármálalæsiskennslu leggja meira fyrir og eru betur í stakk búnir til að takast á við fjárhagsleg áföll, auk þess sem þeir hafa meira á milli handanna en jafn tekjuháir einstaklingar sem ekki hafa stundað nám í fjármálalæsi. Í rannsókn á fjármálalæsi Íslendinga, sem gerð var síðastliðinn vetur og nálgast má á www.fé.is, kemur fram að þrátt fyrir fremur litla þekkingu á fjármálum hafa Íslendingar mikinn áhuga á því að fá fjármálalæsisfræðslu. Á undanförnum árum var aðgengi að lánsfé gott og mörg íslensk heimili voru mjög skuldsett, jafnvel fyrir efnahagsþrengingarnar, sem síðan gerðu illt verra. Bætt fjármálalæsi myndi hafa beina þýðingu fyrir getu heimilanna í landinu til að stýra skuldum sínum betur.

Efling fjármálalæsis er hafin

Það er ljóst að efling fjármálalæsis er mikilvægt skref í uppbyggingu á Íslandi til framtíðar og þar beitir Stofnun um fjármálalæsi sér af öllum mætti. Við það nýtur stofnunin áratuga reynslu samstarfsaðila í Bretlandi og Bandaríkjunum. Nú í haust hefst einmitt tilraunakennsla í fjármálalæsi á framhaldsskólastigi með námsefni sem stofnunin þróar og standa vonir til að strax næsta vor hafi allir skólar aðgang að námsefni við hæfi framhaldsskólanema. Það er von mín að sú kennsla í fjármálalæsi sem nú fer af stað sé aðeins vísir að því sem koma skal og að innan fárra ára getum við öll sagt með stolti að við séum fjármálalæs.

Höfundur er forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi.