Rannsókn Sigurlaug og Þóra Kristín rannsökuðu hvernig fjármálaráðgjafar gefa ráð.
Rannsókn Sigurlaug og Þóra Kristín rannsökuðu hvernig fjármálaráðgjafar gefa ráð. — Morgunblaðið/Heiddi
Eftir Sigrúnu Ásmundsdóttur sia@mbl.is „ÁSTÆÐAN fyrir því að við fórum í hulduheimsóknir er að það skekkir ekki myndina.
Eftir Sigrúnu Ásmundsdóttur

sia@mbl.is

„ÁSTÆÐAN fyrir því að við fórum í hulduheimsóknir er að það skekkir ekki myndina. Ráðgjafinn sem er að gefa ráð er að veita venjulegum viðskiptamanni bankans ráðgjöf og fær ekkert að vita að verið sé að taka niður upplýsingar,“ segir Sigurlaug Sverrisdóttir. Hún ásamt Þóru Kristínu Arnarsdóttur gerði rannsókn fyrir lokaritgerð þeirra í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík. Rannsóknin fólst í því að 12 bankaútibú voru heimsótt, þrjú frá hverjum bankanna; KB banka, Landsbanka Íslands, Íslandsbanka og Byr. Rannsóknin var gerð sl. sumar og markmiðið var að komast að því hvernig og hvort fjármálaráðgjafar veittu ráð samkvæmt aðstæðum hvers og eins. Stöllurnar fengu utanaðkomandi fólk til að fara í bankann fyrir sig og leita ráða, svokallaðar hulduheimsóknir.

Niðurstöðurnar voru mjög einsleitar og því var ekki talið að gera þyrfti nákvæmari rannsókn heldur. „Niðurstöðurnar segja okkur í rauninni að umgjörðin er þannig að sú ráðgjöf sem fólki er veitt er stöðluð. Væntanlega er ráðgjöfunum sagt að þeir eigi að bjóða fólki upp á ákveðinn pakka, bara eins og við vorum hræddar um að hefði verið gert fyrir hrun,“ segir Sigurlaug. „Það er í raun sagt það sama við alla, burtséð frá þörfum þeirra,“ bætir hún við og segir að þarfir þeirra sem fóru í hulduheimsóknina hafi verið mjög mismunandi; m.a. einhleyp barnlaus skólastúlka rétt undir þrítugu, skuldlítil og eignalaus, og hjón um sextugt sem voru yfirskuldsett, búin að missa allar eignir sínar, og höfðu auk þess skrifað upp á ábyrgðir fyrir son sinn, og allt þar á milli. „Ætla mætti að stúlkan hlyti að fá öðruvísi fjármálaráðgjöf en hjónin,“ segir Sigurlaug. „Það var hins vegar ekki gerður neinn greinarmunur á þessum viðskiptamönnum.“

Enginn af þeim tólf ráðgjöfum sem veittu fjármálaráðgjöf spurði um áhættuþol, fjárhagsleg markmið, framtíðaráform, hugsanlegan tekjumissi eða hvort viðkomandi einstaklingur hefði skrifað upp á ábyrgð fyrir annan. „Það er ekki verið að horfa á einstaklinginn,“ segir Sigurlaug.

Dagur fjármálalæsis var í gær og af því tilefni sögðu Sigurlaug og Þóra Kristín frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á málþingi sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í tilefni dagsins.