Verðlaun Björn Már Ólafsson, nemandi á náttúrufræðibraut í MR, fékk verðlaun fyrir bestu ritgerðina í ritgerðarsamkeppni sem fram fór á Degi læsis. Það var Breki Karlsson sem afhenti Birni viðurkenninguna.
Verðlaun Björn Már Ólafsson, nemandi á náttúrufræðibraut í MR, fékk verðlaun fyrir bestu ritgerðina í ritgerðarsamkeppni sem fram fór á Degi læsis. Það var Breki Karlsson sem afhenti Birni viðurkenninguna. — Morgunblaðið/Heiddi
Björn Már Ólafsson, nemandi á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum í Reykjavík, fékk viðurkenningu fyrir bestu ritgerðina í ritgerðasamkeppni í framhaldsskólum sem efnt var til á degi fjármálalæsis. Ritgerðin fer hér á eftir.
Björn Már Ólafsson, nemandi á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum í Reykjavík, fékk viðurkenningu fyrir bestu ritgerðina í ritgerðasamkeppni í framhaldsskólum sem efnt var til á degi fjármálalæsis. Ritgerðin fer hér á eftir.

Fyrir 20 árum þótti kynlíf hið mesta feimnismál. Fyrir þann tíma þóttu þeir sem ræddu opinskátt um kynlíf „uppreisnarseggir“ og var oftast reynt að þagga niður í þeim og skoðununum sem þeir tjáðu öðrum. Síðan var eins og tímarnir breyttust og aðstæður í heiminum urðu frjálslyndari. Gerð voru kennslumyndbönd til kynfræðslu í skólum og alls staðar fór að ríkja samfélagsleg sátt um að í lagi væri að ræða kynlíf opinskátt. Þessi þróun virðist því miður ekki hafa átt sér stað í fjármálum og er það greinilega að koma í ljós á tímum sem þessum. Af hverju er „tabú“ að ræða fjármál opinskátt? Alvarleg vandamál geta komið upp hjá ungu fólki jafnt í fjármálum sem og í kynlífi og er ein helsta forvörn beggja mála opin umræða þar sem unglingurinn sjálfur fær að tjá skoðanir sínar. Einnig eru bæði tilvik vandamál sem snerta ekki einungis unglinga heldur fólk á öllum aldri. Allir einstaklingar eiga að hafa þann rétt að geta lært á eigin fjármál á sem flestum mennta- og atvinnustigum og framboðum af fjármálanámskeiðum verður aldrei ofaukið.

Eitt aðalvandamálið við kynlíf unglinga fyrir 20 árum var fáfræðslan.

Lítil kennsla var í skólum og upplýsingar um kynlíf var erfitt að nálgast.

Á heimilunum var kynlíf „tabú“ og því lítið hægt að fræðast um hættur og áhættur kynlífs þar. Afleiðingarnar af þessu voru ótímabærar þunganir og kynsjúkdómar. Lýsingunni á þessu ástandi svipar mjög til ástands fjármálalæsis í dag. Engin kennsla er í skólum, ekki má ræða fjármál á heimilunum og um afleiðingarnar af þessu má lesa í dagblöðum á degi hverjum. Fólk á öllum aldri eyðir um efni fram, skuldsetur sig langtum meira en æskilegt er og sýnir óábyrga hegðun í fjármálum. Af hverju eru fjármál „tabú“ á heimilunum? Laun og skuldsetning eru mál sem foreldrar vilja sem minnst tala við börnin sín um, en þetta þagnarbindindi skapar fleiri vandamál en það leysir. Einhvers staðar verður fólk að læra hversu mikilvægur sparnaður og ábyrgðarfull lántaka er og hvernig hún getur skilað sér til frambúðar.

En hvar skal hefjast handa? Alveg eins og með kynfræðslu er nauðsynlegt að kenna fólki ábyrga hegðun áður en því er hent út í djúpu laugina. Að hefja kennslu fjármálalæsis á framhaldsskólastigi er til dæmis of seint, því þá hafa flestir krakkar þegar fengið smjörþefinn af því hvernig er að hafa pening á milli handanna í gegnum unglingavinnu. Alveg eins á kynfræðsla að hefjast áður en unglingar verða kynþroska, ekki eftir. Að sama skapi verða foreldrar að gera börnin sín meðvitaðari um peninga, útgjöld og eyðslu auk þess sem að allir unglingar ættu að læra að lesa á sinn eigin launaseðil því þótt ótrúlegt sé eru fjölmargir unglingar sem kunna það ekki! Stutt leit á netinu sýnir að einu stofnanirnar sem reglulega halda fjármálanámskeið fyrir unglinga eru bankarnir. Sömu bankarnir og gáfu fólki fjármálaráðleggingar fyrir hrun sem hafa komið mörgum heimilum í vandræði. Þykir fólki allt í lagi að bankarnir séu þeir einu sem kenna ungu fólki á fjármál eftir þeirra hagsmunum? Kennsla í fjármálalæsi verður að færast á breiðari grundvöll, heimili verða að aflétta þögninni, skólar verða að koma því á námskrána og samfélagið verður að viðurkenna vandamálið: Fjármál eru ekki feimnismál!