19. mars 1994 | Menningarblað/Lesbók | 2413 orð

r atvinnusögunni Mjólkurskólinn á Hvanneyri og Hvítárvöllum Eftir BJARNA

Úr atvinnusögunni Mjólkurskólinn á Hvanneyri og Hvítárvöllum Eftir BJARNA GUÐMUNDSSON Tilgangurinn með kennslunni í Mjólkurskólanum skyldi vera að undirbúa "stúlkur í mjólkurmatseld svo, að þær geti tekið að sér störf og stjórn á mjólkurbúum hér á landi".

Úr atvinnusögunni Mjólkurskólinn á Hvanneyri og Hvítárvöllum Eftir BJARNA GUÐMUNDSSON Tilgangurinn með kennslunni í Mjólkurskólanum skyldi vera að undirbúa "stúlkur í mjólkurmatseld svo, að þær geti tekið að sér störf og stjórn á mjólkurbúum hér á landi".

íðasti fjórðungur nítjándu aldarinnar var fremur óhagstæður íslenskum landbúnaði. Harðindin 1881­1887 voru einhver hin grimmustu sem sögur fara af, en undir aldamótin áraði betur. Til kreppu kom svo er sett var innflutningsbann á lifandi sauðfé til Bretlands árið 1896. Kjötmarkaðurinn var þröngur. Til mikilla vandræða horfði fengist ekki úr bætt. Nýrra úrræða var leitað.

Um þessar mundir höfðu Danir unnið sér góðan markað erlendis fyrir smjör, einkum þó í Englandi. Álitið var að smjörsala til Englands væri ein helsta framtíðarvon íslensks landbúnaðar. Athyglin beindist því að mjólkurframleiðslunni sem fram að þessu hafði einkum miðast við daglegar þarfir sveitaheimilanna.

Íslenskir búnaðarmenn kynntust nýjungum á þessu sviði erlendis, einkum þó í Danmörku og Noregi, þar sem mjólkuriðnaðurinn var kominn nokkuð á legg. Einn þessara manna var Sigurður Sigurðsson frá Langholti í Flóa; af mörgum nefndur Sigurður ráðunautur. Hann ferðaðist um Norðurlönd á árunum 1897­1899 og kynnti sér mjólkuriðnaðinn sérstaklega. Sigurður ritaði ítarlega grein um athuganir sínar í Búnaðarrit árið 1899. Var það sannfæring hans að mjólkurbúin væru eitt "það fyrsta og helzta" er gæti bjargað landbúnaðinum. Í greininni kynnti Sigurður hugmyndir sínar um eflingu mjólkuriðnaðar. Meginatriði þeirra var að samhliða stofnun mjólkurbúanna, "ef ekki á undan" yrði að koma verkleg kennslustofnun í meðferð mjólkur, smjör- og ostagerð. Sigurður benti á að kennslustofnunin gæti vel verið í sambandi við einhvern búnaðarskólann, ellegar þá sem sérstakur skóli. "Til að byrja með", skrifaði hann, "hygg jeg bezt að komið væri á fót kennslu í þessari grein við búnaðarskólann á Hvanneyri og að fenginn sje maður, helzt frá Jótlandi, sem vel er að sjer í öllu verklegu, sem lýtur að smjör- og ostagerð, til þess að annast kennsluna."

Af reynslu Dana var Sigurði vel ljóst að árangur smjörsölunnar ylti mjög á því að tækist að framleiða gæðavöru. Tillögur hans áttu eftir að verða að veruleika og hafa þýðingu fyrir framvindu landbúnaðarins í mörgum byggðarlögum.

ÞÁTTUR ALÞINGIS

Kennslu í mjólkurmeðferð bar á góma á Alþingi sumarið 1899. Við meðferð frumvarps til fjárlaga mun landbúnaðarnefnd þingsins hafa lagt til að fé yrði veitt til þess að kenna góða meðferð á mjólk. Samþykkt var að veita tvö þúsund króna styrk hvort árið 1900 og 1901 til kennslu í mjólkurmeðferð. Styrkurinn var veittur Búnaðarfélagi Íslands "með því skilyrði að félagið útvegi mann frá Danmörku, er hafi fullkomna kunnáttu og góða æfingu í mjólkurmeðferð samkvæmt því sem gerist á góðum mjólkursamlagsbúum í Danmörku. Maður þessi sé ráðinn til 2 eða 4 ára, til þess að kenna á góðu mjólkurbúi í landinu, helst á Hvanneyrarskóla, tilbúning osta og smjörs með þeim áhöldum og aðferðum, sem hægt er að koma við á hinum stærri sveitabúum hér á landi, og fari kenslan fram kostnaðarlaust fyrir nemendur".

Virðist styrkveitingin hafa verið sprottin upp úr umræðum um fjárveitingar til stofnunar mjólkurbúa, sem Búnaðarfélag Íslands, þá nýstofnað, hafði farið fram á. Varð sú athyglisverða skoðun ofan á, að veita bæri fjármagn "til kennslu í mjólkurmeðferð, áður en farið er að veita mikið fé til þess að stofna mjólkurbú" eins og fram kom í máli framsögumanns fjárlaganefndar.

Tilgangurinn með kennslunni skyldi vera að undirbúa "stúlkur í mjólkurmatseld svo, að þær geti tekið að sér störf og stjórn á mjólkurbúum hér á landi" en hugmyndin með mjólkurbúunum var einkum sú "að bæta smjörverkunina svo smjörið verði boðleg vara á mörkuðum erlendis," eins og Sigurður ráðunautur orðaði það í kynningargrein haustið 1900.

Á þessum árum voru menn ekki mjög uppteknir af menntun kvenna. Í grein í Búnaðarriti nokkru fyrr velti Sigurður Sigurðsson því fyrir sér hvort skólinn ætti að vera fyrir stúlkur eða pilta. Þar bendir hann á að í Danmörku starfi karlmenn einkum á mjólkurbúunum, en í Noregi séu það vanalega stúlkur. Álit Sigurðar var að hér á landi væru konurnar sjálfkjörnar til að annast búverkin á smjörbúunum; mjólkur- og rjómabúin hér á landi yrðu seint það stór og umfangsmikil að verkin yrðu ofvaxin eða um of erfið konum; ennfremur að kvenfólk hefði "vanalega næmari þrifnaðartilfinningu en karlmenn". Má því vel minnast stuðnings Sigurðar ráðunauts við sókn íslenskra kvenna til mennta og starfsréttinda.

SKÓLANUM FUNDINN STAÐUR - RÁÐINN SKÓLASTJÓRI

Mjólkurskólanum var valinn staður á Hvanneyri eins og Sigurður hafði lagt til. Nokkurt þóf stóð um framkvæmdina. Búnaðarfélagið taldi sig eiga nóg með að útvega kennslukrafta og vildi atbeina skólanefndar Hvanneyrarskóla til þess að fá amtsráðið, er þann skóla rak, til að koma upp húsnæði fyrir Mjólkurskólann. Það varð úr að amtsráðið legði fram "svo sem 250 kr., til þess að setja ofna í tvö herbergi, og gjöra nokkrar breytingar við annað þeirra, til að gjöra þau hæf til íbúðar, en búnaðarfjelagið skyldi leggja þar á móti kostnað þann, sem leiddi af því að gjöra nauðsynlega breytingu á kjallaranum í húsinu á Hvanneyri, setja í hann eldavjel og leggja til þau áhöld, sem eigi væru til á Hvanneyri . . .".

Í ársbyrjun 1900 sneri stjórn Búnaðarfélags Íslands sér til danska landbúnaðarfélagsins og bað það útvega sér mann sem kennt gæti mjólkurmeðferð og mjólkurvinnslu. Gekk það lipurlega og til starfans var ráðinn ungur mjólkurfræðingur, Hans Grönfeldt Jepsen, frá Ölgod á Vestur-Jótlandi, þá nýútskrifaður frá mjólkurskólanum í Ladelund.

Ekki voru allir á eitt sáttir um ráðningu mjólkurfræðingsins. Í grein í blaðinu Plógur 6. okt. 1900 segir m.a.:

"Alþing hefur kveðið upp þann dóm yfir sinni eigin þjóð, að enginn meðal hennar geti neitt á við Danskinn. Það var alþing vort, sem vildi ekki leggja fé til mjólkurkennslu nema að Danskurinn sæi um hana . . . Það er meira en smá lítilþægni af ísl. að þiggja þessa sendingu frá Dönum." Skrifunum svaraði stjórnarmaður Búnaðarfélagsins. Ekki er vitað um fleiri óánægjuraddir vegna ráðningar Grönfeldts. Hann kom til landsins 30. júní 1900 og varð nú kennari og skólastjóri Mjólkurskólans allan starfstíma skólans. Jafnframt ferðaðist hann um meðal bænda og leiðbeindi þeim og starfsfólki rjómabúanna um vinnubrögð og verkhætti.

SKÓLASTARFIÐ UNDIRBÚIÐ

Ekki virðist aðkoma hins unga mjólkurfræðings að Hvanneyri hafa verið björguleg: ". . . var alt óundirbúið til þess að skólinn gæti tekið til starfa . . ." skrifaði Grönfeldt í fyrstu starfsskýrslu sinni. Skólanefnd Hvanneyrarskóla var áhyggjufull og aðeins fjórum dögum eftir komu Grönfeldts að Hvanneyri skrifaði hún í bréfi til amtmanns Suðuramtsins m.a.:

"Skólastjórinn á Hvanneyri hefir í dag fundið okkur að máli og sagt okkur frá því að kominn sé að Hvanneyri danskur "mejerist," H. G. Jepsen, sendur þangað af stjórn búnaðarfélags landsins, og er ekki annað að sjá, en að ætlun félagsstjórnarinnar sé sú að hann setjist þar að til veru að staðaldri [­ ­ ­] "Fáum við með engu móti skilið, í hverjum tilgangi mjólkurmeðferðarkennarinn hefir verið sendur að Hvanneyri til nokkurra langdvala, því þar hefir hann ekkert að gera nú sem stendur . . ."

Bar skólanefndin við plássleysi og þrengslum, en óskaði eftir aðstoð til þess að koma upp aðstöðu fyrir mjólkurmeðferðarkennsluna "sem lærisveinar [búnaðar]skólans taki þátt í og allt að fjórum nemöndum öðrum". Það varð úr og fékk Mjólkurskólinn kjallarann undir skólahúsinu á Hvanneyri til umráða og stofu til kennslunnar. Var nú ekkert að vanbúnaði að hefja skólastarfið.

KENNSLAN HEFST

- EINN NEMANDI

Haustið 1900 var kennslan auglýst og skyldi hún hefjast 1. nóvember. Inntökuskilyrðin voru þau að stúlkurnar skyldu vera "hraustar og vel þrifnar að upplagi . . . fullþroskaðar, hafa lært skrift og 4 höfuð greinar í heilum tölum í reikningi . . ." Kennsluna skyldu þær fá ókeypis en greiða 75 kr. fyrir fæði og húsnæði um námstímann er vera skyldi þrír mánuðir.

Einn nemandi kom til náms á fyrsta námstímabili Mjólkurskólans. Var það Guðlaug Óskarsdóttir úr Reykjavík. Þar með var starfið hafið. Aðsóknin fór vaxandi. Sérstakt hús var reist fyrir mjólkurskólann á Hvanneyri sem tekið var í notkun á Þorláksmessu fyrir jól árið 1901. Húsið var tvílyft, 14×10 álnir að grunnfleti: ostakjallari, mjólkurskáli, smjörbúr og kennslustofa á miðhæð og svefnherbergi nemenda og kennara á efstu hæð - hin myndarlegasta bygging, reist að danskri fyrirmynd. Gerð hennar og sögu verður ekki lýst nánar hér heldur vikið að daglegu lífi námsmeyjanna í skólanum.

Í skýrslu Grönfeldts skólastjóra um fyrsta starfsárið getur hann kennslugreinanna sem voru þessar: mjaltir, verkleg meðferð mjólkur, smjör og ostagjörð, þvottur og ræsting, mjólkurreikningshald, bæði á mjólkurbúum og heimilum, fræðsla í mjólkurmeðferð, bæði skrifleg og munnleg, mæling á fitu með "Gerbers"-fitumæli o.s.frv. Sigurður ráðunautur var ánægður með skólastarfið og kvað kennsluna svo góða "sem framast má vænta, þegar litið er á allar ástæður, stuttan undirbúningstíma, ónóg húsakynni, fjárskort og fleira" eins og segir í grein hans um kennsluna sumarið 1901.

Nærri má geta að nærvera mjólkurskólastúlknanna hafi lífgað upp á heimilisbraginn á Hvanneyri, þar sem fyrir var hópur ungra manna í almennu búnaðarnámi. Grípum eitt dæmi úr dagbók nemanda Mjólkurskólans veturinn 1902­1903 frá þrettándanum 1903:

"Tombóla á Hvítárvöllum. Fór héðan 26 manns, 4 mjólkurskólastúlkur, heldur var það léleg tombóla . . . Svo var dans á eftir; alla nóttina var fólkið að tínast heim . . . kvöldið eftir var þrettándinn. Farið var ofan á Fit (við Hvítá) og sungið og dansað, síðan farið heim og drukkið kaffi, og með því klykkt út með jólin; þessi lengstu jól sem eg hef vitað haldin . . . Á sunnudaginn þann 11. [jan.] fórum við tíu upp á Vatnshamravatn og dönsuðum."

En skyndilega var endi bundinn á glaðværðina og gott gengi Mjólkurskólans á Hvanneyri. Í hönd fóru erfiðir tímar:

HÚSBRUNI Á HVANNEYRI

Aðfaranótt 6. október 1903 brunnu íbúðarhús Búnaðarskólans og Mjólkurskólahúsið til grunna. Tjónið varð mikið. Í skyndingu var ákveðið að flytja kennsluna til Reykjavíkur en áhöldum skólans var flestum bjargað. Húsnæði við hæfi fékkst í Aðalstræti 18 og þar hófst bókleg kennsla 19. október. Mjaltaæfingar fóru fram í fjósi sr. Þórhalls Bjarnarsonar, formanns Búnaðarfélags Íslands, í Laufási.

Veturinn, sem í hönd fór, urðu töluverðar umræður um framtíð Mjólkurskólans. Sambýli Búnaðarskólans og Mjólkurskólann virðist ekki hafa verið hnökralaust. Það varð úr að Búnaðarfélag Íslands keypti Barónshúsið á Hvítárvöllum af Ólafi Davíðssyni, bónda þar, til þess að halda áfram starfi Mjólkurskólans. Jafnframt stofnuðu bændur rjómabú þar. Var þá skammt um liðið frá búskap barónsins, Charles Gauldré Boilleau, sem brotið hafði upp á ýmsum nýjungum í búskap, m.a. starfrækslu mjólkurbús. Á Hvítárvöllum bjó Grönfeldt um Mjólkurskólann sumarið 1904 og hófst skólastarfið formlega 1. október.

Á Hvítárvöllum átti Mjólkurskólinn flest starfsár sín og blómaskeið. Að jafnaði dvöldu þar 8­10 stúlkur við nám. Grönfeldt annaðist kennsluna að mestum hluta einn, en kona hans, Þóra Þorleifsdóttir frá Skinnastað, mun einnig hafa komið nokkuð að kennslunni. Skólastarfinu var haldið áfram með svipuðu sniði og mótast hafði á Hvanneyri. Námstíminn var lengdur í átta mánuði úr þremur áður.

Hafin var kennsla í nýjum greinum. Í skólaskýrslu 1905 er til dæmis getið kennslu um líkama mannsins og í leikfimi. Grönfeldt var því meðal frumkvöðla leikfimikennslu hérlendis. Leikfimisýningar námsmeyjanna þóttu mikil nýlunda á samkomum Hvanneyringa og Hvítárvallameyja á þessum árum. Þannig lýsir Hvanneyringur skólasamkomu á Hvítárvöllum í ársbyrjun 1907 m.a.:

". . . Stúlkurnar sýndu okkur "Gymnastik" í klukkutíma, og höfðum við mjög mikið gaman af því. Og hljóta þær að vera vel skynsamar, þar eð þær sýndu þær kúnstir, sem ekki eru taldar sem kvenlegastar af meðalmönnum . . ."

Svo virðist að með árunum hafi kennslan í Mjólkurskólanum hneigst í átt til almennra hússtjórnarfræða, þótt alla tíð væri verkleg og bókleg mjólkurfræði meginviðfangsefnið. Áhugi Grönfeldts stóð snemma til þess að skólinn veitti verðandi húsmæðrum fræðslu.

Grönfeldt gekkst fyrir ýmsum tilraunum með vinnubrögð við mjólkurvinnsluna, m.a. með mismunandi aðferðir við sýringu rjómans og áhrif þeirra á gæði smjörsins. Hann kannaði líka, m.a. í samvinnu við danska landbúnaðarháskólann áhrif þess að blanda sauðamjólk saman við kúamjólkina fyrir smjörgerð, en það var umdeilt atriði varðandi smjörgæðin.

UNDANHALD - ENDALOK

Er fram á annan áratug aldarinnar kom tók að þyngjast fyrir fæti rjómabúanna. Bar þar margt til, svo sem heimsófriður og breytt viðskiptakjör. Kjöt hækkaði í verði og fráfærur lögðust af. Bændur tóku í vaxandi mæli að selja smjör beint til neytenda. Minna hráefni barst til rjómabúanna og þeim fækkaði til mikilla muna. Árið 1919 starfaði aðeins eitt rjómabú af hverjum sex er flest voru í landinu. Jafnframt dró mjög úr aðsókn að Mjólkurskólanum.. Veturinn 1918­1919 féll kennslan í Mjólkurskólanum niður "sakir þess að bændur töldu sig ekki geta lagt til mjólk eða rjóma til meðferðar" segir í skólaskýrslu. Næsta ár sótti enginn um skólavist. Árið 1921 var Grönfeldt sagt upp skólastjórastarfinu og Mjólkurskólinn í reynd lagður niður. Nokkrum árum síðar seldi Búnaðarfélagið eignir sínar á Hvítárvöllum. Var þá saga skólans öll.

Alls voru það 192 stúlkur sem stunduðu nám við Mjólkurskólann þá tæpu tvo áratugi sem hann starfaði. Margar réðust til starfa sem rjómabústýrur víðs vegar um land. Aðrar hurfu til húsmóðurverka. Með þeim hafði Mjólkurskólinn vafalítið mjög mikil áhrif víða - bein og óbein. Þarna var á ferð ein fyrsta skipulega starfsmenntunin á sviði matvælaiðnaðar í landinu. Mjólkurskólinn stuðlaði með öðru að nýsköpun aldagamalla atvinnuhátta í landbúnaði.

Vafalítið hefur menntun rjómabústýranna í Mjólkurskólanum átt drjúgan hlut í því hve vel starf rjómabúanna íslensku gekk þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þáttur Hans Grönfeldts Jepsens mjólkurfræðings var mikill; á herðum hans hvíldi stjórn Mjólkurskólans og öll kennsla, en einnig leiðbeiningar til starfsfólks rjómabúanna, verk sem hann vann öll af "mikilli árvekni og dugnaði" svo notuð séu orð Guðmundar Jónssonar frá Hvanneyri.

Hér hefur verið stiklað á nokkrum þáttum úr starfi Mjólkurskólans á Hvanneyri og Hvítárvöllum. Mörgu hefur verið sleppt. Þótt ýmsir hafi stungið niður penna um skólann er undra lítið vitað um margt er starf hans varðar. Til dæmis er lítið vitað um kennsluefni hans, þótt vafalaust leynist í fórum einhverra afkomenda námsmeyja Mjólkurskólans verðmætar minjar um það, svo sem uppskriftir af fyrirlestrum, reikniæfingar, verkefni, myndir úr skólastarfinu og jafnvel munir þaðan. Höfundur þessarar greinar væri afar þakklátur lesendum fyrir hvers konar ábendingar þar að lútandi.

Höfundur er kennari við Hvanneyrarskóla.

Sigurður Sigurðsson, ráðunautur, frá Langholti í Flóa (1864­1926); einn helzti forgöngumaður að stofnun Mjólkurskólans og rjómabúanna.

Hans Grönfeldt Jepsen skólastjóri með námsmeyjum Mjólkurskólans veturinn 1902­1903, en þá starfaði skólinn í húsnæði Búnaðarskólans á Hvanneyri.

Í Mjólkurskólanum kynntust nemendur nýrri erlendri verktækni. Stórir vélknúnir strokkar komu til dæmis í stað gamla bullustrokksins við smjörgerðina.

Frá Hvítárvöllum á öðrum tug aldarinnar. Hús Mjólkurskólans er lengst til vinstri. Í skúrnum við gafl þess fór mjólkurvinnslan fram.

Auglýsing úr Ísafold haustið 1903.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.