Bílasala fer vel af stað í mars SALA á nýjum bílum fór vel af stað í marsmánuði. Alls voru nýskráningar nýrra ökutækja á tímabilinu 1. mars til 11. mars 220 talsins, þar af voru nýskráðir 174 fólksbílar.

Bílasala fer vel af stað í mars

SALA á nýjum bílum fór vel af stað í marsmánuði. Alls voru nýskráningar nýrra ökutækja á tímabilinu 1. mars til 11. mars 220 talsins, þar af voru nýskráðir 174 fólksbílar. Með sama áframhaldi í nýskráningum má ætla að bílasalan verði yfir 600 bílar í mánuðinum sem er mun meiri sala en tvo síðustu mánuði.

Toyota var langsöluhæsti bíllinn eins og svo oft áður. Fyrstu tíu daga mánaðarins seldust 35 Toyotur, þar af 26 Corolla-bílar. Önnur söluhæsta tegundin var Nissan, en alls seldust 22 Nissan-bílar, þar af 9 Sunny SLX. Volkswagen var í þriðja sæti með 19 selda bíla, þar af 18 VW Golf. Huyndai var í fjórða sæti með 18 selda bíla, þar af 11 Huyndai Pony.

Nýskráningar nýrra ökutækja eftir framleiðslulöndum fyrir þetta tímabil leiðir í ljós að 102 bílar eru framleiddir í Japan, 32 í Þýskalandi og 24 í Suður-Kóreu.

.