Gert við plastið 16 MANNS hafa sótt námskeið á vegum Endurmenntunar bílgreina í viðgerðum á plasthlutum bíla og var Ole Shutte, kennari í Tækniskólanum í Hróarskjöldu í Danmörku fenginn til að kenna á námskeiðinu.

Gert við plastið

16 MANNS hafa sótt námskeið á vegum Endurmenntunar bílgreina í viðgerðum á plasthlutum bíla og var Ole Shutte, kennari í Tækniskólanum í Hróarskjöldu í Danmörku fenginn til að kenna á námskeiðinu. Að sögn Finnboga Eyjólfssonar sem á sæti í Endurmenntunarnefndinni hefur verið skortur á kunnáttu í viðgerðum á plasti hérlendis og aðeins 2-3 menn setið að öllum slíkum viðgerðum.

Plastefni er orðið afar algengt í bílum, t.a.m. stuðurum, mælaborði og í kringum ljósabúnað. Danir byrjuðu að gera við plast á bílum sem skemmist í árekstrum upp úr 1987 og kaupa nú plastefni til viðgerða fyrir 300 milljónir danskra kr. á ári. Shutte segir að um sé að ræða einar átta gerðir plastefna sem notaðar séu í bíla. Áður en viðgerð fari fram þurfi viðgerðarmenn að greina hvaða plastefni það séu sem eigi að gera við því mismunandi aðferðum er beitt eftir því hvaða efni eiga í hlut. Ekki þurfi að kosta miklu til við viðgerðirnar og verkfærakostnað telur hann vera um 30 þúsund ÍSK. Viðgerð á plasti taki skamman tíma, yfirleitt um eina klukkustund og í Danmörku sé miðað við að viðgerðarkostnaður sé undir helmingi af verði nýrra hluta.

Shutte segir að mikill þjóðhagslegur sparnaður hafist upp úr því að gera við plasthluti. Það sé atvinnuskapandi og auk þess sparist kostnaður við förgun plastefnanna.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Ole Shutte (l.t.h.) sýnir íslenskum þátttakendum á námskeiðinu réttu handtökin við viðgerðir á plaststuðara.