Jaguar Sovereign Gold frumsýndur á sýningu í Genf Jagúar hefur talsvert sterka stöðu í Sviss enda var það fyrsta landið sem tók að kaupa þennan breska eðalvagn.

Jaguar Sovereign Gold frumsýndur á sýningu í Genf Jagúar hefur talsvert sterka stöðu í Sviss enda var það fyrsta landið sem tók að kaupa þennan breska eðalvagn. Salan í Sviss á síðasta ári jókst um 11% eða úr 329 bílum í 362 en heildarsöluaukning í Evrópu var 4,3% og í Bandaríkjunum jókst hún um heil 47% en meðalsöluaukning var 11% í heiminum öllum.

Jaguar Sovereign Gold var frumsýndur í Sviss en honum er ætlaður staður á lúxusbílamarkaði meginlands Evrópu og í Japan. Þessi nýja gerð er fáanleg í sjö útgáfum en sameiginlegt þeim öllum eru gulli slegnar skreytingar að framan sem aftan. Bíllinn er búinn líknarbelg í báðum framsætum, hefur 3,2 eða 4,0 lítra sex strokka álvélar, 200 eða 223 hestöfl, og sjálfskipting er staðalbúnaður en hægt að fá hann með fimm gíra handskiptingu.

Jagúar verksmiðjurnar hafa kappkostað að bjóða viðskiptavinum sínum að tína til þann búnað og aukahluti sem hver og einn kaupandi óskar og hefur það sérstaklega átt við XJ6 gerðirnar. Í auknum mæli er nú boðið uppá það í stærstu bílunum og geta menn valið ýmis atriði eftir smekk og þörfum, atriði er einkum varða þægindi og fínheit í innréttingu. Meðal staðalbúnaðar má nefna hemlalæsivörn, rafstýrðar framsætastillingar, fjarstýrðar læsingar með þjófavörn, stillanlega hæð á stýri, hljómkerfi með 8 hátölurum og þriggja ára ábyrgð.

Þá má nefna búnað eins og sjálfvirka stjórnun á birtu í baksýnisspegli sem dregur úr birtu ef ljós bíls fyrir aftan lýsa á spegilinn en hann lýsist á ný ef bíllinn er settur í bakkgír.

jt

Morgunblaðið/jt

Jaguar Sovereign Gold var frumsýndur í Genf en í Sviss hefur Jagúar mjög sterka stöðu.