NÝIR BÍLAR Opel Omega orðinn rýmri og sparneytnari Nýr Opel Omega var frumsýndur á bílasýningunni í Genf en þessi bíll er í efri millistærðarflokki hjá Opel fjölskyldunni.

NÝIR BÍLAR Opel Omega orðinn rýmri og sparneytnari Nýr Opel Omega var frumsýndur á bílasýningunni í Genf en þessi bíll er í efri millistærðarflokki hjá Opel fjölskyldunni. Omega hefur tekið hægum breytingum, er kominn með ávalari framenda, breiðari, lengri og hærri en fyrirrennarinn og er ekki síst orðinn rúmbetri að innan með því að framrúðan var færð fram um eina 18,6 cm. Omega er fáanlegur bæði sem stallbakur og langbakur.

Vélaframboðið hefur einnig verið endurnýjað og hafa verksmiðjurnar þar lagt mesta áherslu á að ná meiri sparneytni og minni útblæstri. Bensínvélarnar eru fjögurra eða sex strokka, 136 eða 210 hestöfl og sex strokka dísilvélin með forþjöppu er 130 hestöfl. Staðhæft er að bensíneyðsla þeirra sé 12,5% minni og meðaleyðslan sé 8,5 til 10 lítrar á 100 km. Dísilvélin eyðir 7,4 l á hverja 100 km.

Þá hafa öryggismál verið tekin fastari tökum og nú eru Omega bílarnir búnir líknarbelg bæði fyrir bílstjóra og farþega. Af öðrum öryggisatriðum má nefna styrktarbita og sérstaka froðu í hurðum, hæðarstillanleg sætisbelti, höfuðpúðar fyrir öll sæti og hemlalæsivörn. Langbakurinn hefur 1800 lítra flutningarými sé aftursæti lagt fram og sé farþegasæti við hlið ökumanns einnig lagt fram næst 2,9 metra langt flutningarými.

Flaggskipið í Omega-flotanum er MV6 gerðin en hún er búin þriggja lítra og sex strokka vél sem á að vera alveg laus við mengandi útblástur, fjögurra þrepa sjálfskiptingu, rafstillingu á sætum, upplýsingatölvu, skriðstilli og fleiru. Þá býður Opel í fyrsta sinn í bílum sínum sérstakar festingar og tengingar fyrir GSM farsímana, 160 watta hljóðkerfi, þjófavörn og blástur á aftari hliðarrúður.

Góð staða - meiri fjárfestingar

Á blaðamannafundi þar sem Opel Omega var kynntur staðhæfði Louis R. Hughes forstjóri General Motors í Evrópu að þrátt fyrir að bílasala í Evrópu hefði dregist meira saman 1993 en GM spáði hefði markaðshlutdeild fyrirtækisins aukist um 0,7%. Þessi tveggja milljóna bíla minni sala árið 1993 en 1992 er álíka mikil og afkastageta sex til tíu bílaverksmiðja. Sala okkar minnkaði um 11,4% sem við héldum samt fyrsta sætinu sem bílaverksmiðja með mestan hagnað eða um 600 milljónir dala. Við erum með 12,7% markaðshlutdeild í Evrópu og eru Opel og Vauxhall bílar áfram þeir mest seldu eða alls 1,43 milljónir bíla," sagði Louis R. Hughes. Hann sagði að markaðshlutdeild Opel hefði hækkað í 13 Evrópulöndum, hún væri 10% í tólf löndum, Opel væri í einu af þremur efstu sætunum í 12 Vestur-Evrópulöndum og væri mest seldi bíllinn í 25 ár í Hollandi og 12. árið í röð í Sviss.

Forstjórinn sagði að Opel Corsa ætti sinn stóra þátt í góðri stöðu Opel, hún hefði aukist um 15% í Vestur-Evrópu í fyrra og alls numið 355 þúsund bílum. Um 90 þúsund bílar hefðu selst í Þýskalandi, 63 þúsund í Bretlandi, 50 þúsund í Frakklandi og 41 þúsund á Ítalíu.

Við sjáum engin teikn um mikla aukningu í bílasölu í Evrópu á þessu ári, efnahagsástand og atvinnuleysi benda ekki til að fólk leggi í miklu meira mæli í bílakaup en verið hefur og gerum því ráð fyrir alls um 11,4 milljón bíla sölu. Þýskaland verður áfram heldur veikt að þessu leyti, örlítil aukning verður ef til vill á Ítalíu og Spáni og sama er að segja um Frakkland og Bretland. Ástandið ætti einnig að lagast á Norðurlöndum en þar var samdrátturinn orðinn svo mikill að það tekur trúlega lengri tíma að ná bata."

Á þessu ári ráðgerir GM fyrirtækið að fjárfesta fyrir um einn milljarð dollara í Evrópu, m.a. í Bretlandi, Belgíu, Þýskalandi og á Spáni þar sem fyrir eru verksmiðjur og í nýrri verksmiðju í Ungverjalandi og annarri í Póllandi. Við erum einnig að líta til verkefna í Malaysíu, Indónesíu, Indlandi og Tælandi og jafnvel Kína og Rússlandi. Corsa er orðinn einna alþjóðlegastur af framleiðslu okkar því auk framleiðslunnar á Spáni og í Þýskalandi er framleiðsla hans að hefjast í Brasilíu og Mexíkó og hugsanlega síðar í Rússlandi," sagði Louis R. Hughes.

jt

Morgunblaðið/jt

Opel Omega var frumsýndur í Genf. Auk þess sem hann er heldur stærri og allur ávalari en eldri gerð hefur verið lögð sérstök áhersla á þróun sparneytnari véla.

Omega er einnig fáanlegur sem langbakur. Búist er við Opel Omega til Íslands snemmsumars.

Opel kynnti einnig sportbílinn Tigra en framleiðsla hans á að hefjast í haust og er hann einkum ætlaður yngri kynslóðum. Hann er búinn sömu öryggisþáttum og Omega og með þessum bíl ætlar GM að keppa við svipaða bíla frá japönskum framleiðendum.