Rafbíll sem framleiðir eigin orku Á bás Daihatsu verksmiðjanna gat að líta forvitnilegan rafbíl, nógu forvitnilegan til að hafa hann í aðalsýningarsalnum í stað þess að sýna hann í tjaldinu utan við höllina þar sem aðrir rafbílar máttu hírast.

Rafbíll sem framleiðir eigin orku Á bás Daihatsu verksmiðjanna gat að líta forvitnilegan rafbíl, nógu forvitnilegan til að hafa hann í aðalsýningarsalnum í stað þess að sýna hann í tjaldinu utan við höllina þar sem aðrir rafbílar máttu hírast. Daihatsu rafbíllinn heitir DASH 21 og er frumgerð en forráðamenn verksmiðjanna segja tækni hans þó fyllilega raunhæfa og verði fjöldaframleiðsla byggð á þessari hugmynd í stórum dráttum. Rafmótorinn er 20 kW og er bíllinn búinn nikkel-vetnis rafgeymum. Og bíllinn framleiðir rafmagnið sitt sjálfur með 8 kW bensínvél sem er þriggja strokka og 660 rúmsentimetrar.

Hugmynd Daihatsu verksmiðjanna með þessum bíl er að koma með raunhæft framlag í heimi bensínbíla. Vandamál rafbíla fyrir utan of stutta endingu á rafhlöðunum er að hvorki samgöngukerfi borganna né þjóðvegakerfin bjóða uppá þægilegan aðgang að rafmagni til hleðslu. Bensínstöðvarnar" eru með öðrum orðum of fáar og í stað þess að reyna að breyta þessu kerfi vilja forráðamenn Daihatsu aðlaga rafbílinn að núverandi ástandi. Einfaldasta leiðin til þess er því að hann bíl sem framleiðir eigið rafmagn.

Orkuverið er bensínhreyfill og rafall sem hlaða rafmagni inn á rafhlöðurnar. Fer bensínvélin í gang þegar tómahljóð er komið í rafhlöðurnar og sér tölva um að gangsetja hana. Eini tilgangur bensínvélarinnar er þessi rafmagnsframleiðsla og til að draga sem mest úr útblæstri er vélin látin ganga stöðugt á þeim hentuga snúningi sem útblásturinn er minnstur. Útblástur er líka mun minni þegar vélin gengur á slíkum kjörsnúningi heldur en í venjulegri bensínvél sem þarf að snúast eftir því sem ökumaður og aðstæður krefjast.

Nikkel-vetnis rafgeymarnir eru ennþá í þróun en Daihatsu-menn staðhæfa að þau gefi meiri orku, komi bílnum lengra á hleðslunni og séu endingarbetri, endist jafnvel líftíma bílsins. DASH 21 er fjögurra manna og framdrifinn, 4,16 m langur, 1,69 á breidd og 1,51 m hár. Bíllinn vegur 1.310 kg, kemst uppí 120 km hraða og getur farið 450 km á hleðslunni með 40 km meðalhraða.

DASH 21 er bogadreginn að utan og allur sléttur og felldur og er afturhjólið að miklu leyti hulið. Þótt framendinn sé ekki langur er hann búinn sjálfvirkri viðvörun þannig að hætti ökumaður sér of nærri næsta bíl eða hindrun er vælt á hann. Að innan geta ökumaður og þrír farþegar hans látið fara vel um sig og fá nægilegt höfuðrými og eru öll sætin búin rafstillingum. Bíllinn er sjálfskiptur og ef menn eiga kort eða leiðabækur á tölvudiski er hægt að skella honum í þar til gerðan stað á mælaborðinu og fá upplýsingar í skjámynd.

Morgunblaðið/jt

Daihatsu rafbíllinn heitir DASH 21 og er án efa merkilegt skref inní 21. öldina og gæti átt stóran þátt í að koma mönnum til að nota rafbíla. Rafgeymarnir liggja eftir endilöngum bílnum og næst þannig gott jafnvægi.