Íslenskur jeppi vekur mikla athygli í Köln TOYOTA Hilux Extra Cab sem Toyota aukahlutir breyttu hefur vakið mikla athygli blaðamanna og gesta á stórri jeppasýningu í Köln í Þýskalandi og hafa tíu stórir aðilar, söluaðilar Toyota og fleiri bíltegunda, í...

Íslenskur jeppi vekur mikla athygli í Köln

TOYOTA Hilux Extra Cab sem Toyota aukahlutir breyttu hefur vakið mikla athygli blaðamanna og gesta á stórri jeppasýningu í Köln í Þýskalandi og hafa tíu stórir aðilar, söluaðilar Toyota og fleiri bíltegunda, í Þýskalandi falast eftir umboði fyrir bílinn. Það er fyrirtækið Ísfar hf. sem á bílinn og stendur fyrir þessu fyrirtæki. Að sögn Reynis Jónssonar verslunarstjóra hjá Toyota aukahlutum, sem staddur er í Köln, er Extra Cab-inn eini jeppinn á sýningunni sem er skráður í Þýskalandi. Hann segir að svo virðist sem fæstir trúi því í fyrstu að bíllinn sé í raun ökuhæfur. Gestir hafa flykkst í íslenska básinn að skoða bílinn og látið sannfærast þegar þýskri skráningu bílsins, þeirri ströngustu í heiminum, hefur verið hampað.

Um 300 sýnendur taka þátt í jeppasýningunni og er hún til húsa í þremur stórum höllum sem hver um sig er á við fimm Laugardalshallir að stærð. Ísfar býður jeppann á 88 þúsund mörk, um 3,7 milljónir ÍSK, og innifalið í verðinu er að kaupandinn fær hann sendan frá Íslandi að heimili sínu, en áður er honum boðið í einnar viku ferð til Íslands til að reyna bílinn við erfiðar aðstæður undir íslenskri fararstjórn. Reynir segir að verið sé að bjóða til sölu breytta bíla á sýningunni sem ekki fá skoðun í Þýskalandi á allt upp í 130 þúsund mörk. Hilux-inn er hækkaður fyrir 36" dekk og boðinn með standard-vélum og hinn glæsilegasti á að líta.

Evrópumenn langt á eftir

"Í gær [miðvikudag] var mikill fjöldi blaðamanna í kringum bílinn. Það er mikið af breyttum bílum hérna en það er ekki líklegt að hægt verði að aka nokkrum þeirra og enginn er skráður á þýsk númer annar en Hilux-inn. Hinir bílarnir hafa ekki farið í gegnum sérskoðun og fengju því ekki skráningu. Það sem okkar bíll býður upp á umfram aðra bíla á sýningunni er að það er hægt að keyra hann og hann stenst allar þýskar reglur í sambandi við bifreiðaskoðun," sagði Reynir.

"Margir stórir söluaðilar á bílum hafa lýst yfir áhuga að fá bílinn til að selja hann, vilja fá hann í salinn hjá sér. Við eigum eftir að ákveða hvaða umboðsaðili verður fyrir valinu. Bíllinn er í allt öðrum gæðaflokki en hér greinilega þekkist, Evrópumenn eru langt á eftir okkur í breytingum á bílum. Miðað við viðtökur hérna er ég mjög bjartsýnn á að töluverður útflutningur geti orðið á breyttum bílum til Evrópu," sagði Reynir.

Toyota Hilux Extra Cab eins og hann er sýndur á jeppasýningunni í Köln.