Öryggisráð SÞ fordæmir drápin í Hebron Arabar fallast á friðarviðræður Sameinuðu þjóðunum, Túnis. Reuter.

Öryggisráð SÞ fordæmir drápin í Hebron Arabar fallast á friðarviðræður Sameinuðu þjóðunum, Túnis. Reuter.

ÖRYGGISRÁÐ Sameinuðu þjóðanna fordæmdi á föstudagskvöld morð gyðings á um 30 Palestínumönnum og Bandaríkjastjórn tilkynnti skömmu síðar að þrjár arabaþjóðir og hugsanlega Frelsissamtök Palestínumanna (PLO) myndu hefja friðarviðræður að nýju við Ísraela.

Madeline Albright, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að Sýrlendingar, Jórdanir og Líbanir hefðu fallist á að hefja samningaviðræður við Ísraela í apríl. Ennfremur var tilkynnt í gær að Ísraelsstjórn myndi senda nefnd háttsettra embættismanna á fund PLO í Túnis í dag, sunnudag, til að ræða framhald samningaviðræðnanna um sjálfstjórn Palestínumanna á Gaza-svæðinu og Jeríkó á Vesturbakkanum.

PLO-maður í Túnis sagði við fréttaritara Reuters að ráðgert væri að Yasser Arafat, leiðtogi PLO, og Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, kæmu einnig saman í Kaíró í dag eða á morgun.

PLO og samninganefndir arabaþjóðanna hættu viðræðunum eftir að gyðingurinn Baruch Goldstein drap og særði tugi Palestínumanna sem voru á bænafundi í mosku í bænum Hebron á Vesturbakkanum 25. febrúar. Arabaþjóðirnar vildu ekki hefja viðræðurnar að nýju nema öryggisráðið fordæmdi fjöldamorðið.