Norðmenn sömdu um ESB-aðild NORÐMENN hafa náð samningum um aðild að Evrópusambandinu og eru norsk stjórnvöld mjög ánægð með þá.

Norðmenn sömdu um ESB-aðild

NORÐMENN hafa náð samningum um aðild að Evrópusambandinu og eru norsk stjórnvöld mjög ánægð með þá. Segja þau, að með þeim hafi tekist að tryggja hagsmuni Norðmanna í landbúnaðar- og bygðamálum og í sjávarútvegsmálum, sem verið hafa mesta deiluefnið. Segja þau, að afli ESB-skipa við Noreg muni ekki aukast hlutfallslega og Norðmenn munu hafa full yfirráð yfir miðunum fyrir norðan 62. breiddarbaug fram til 1998. Fá Norðmenn fullan markaðsaðgang strax fyrir sjávarafurðir en fyrstu fjögur árin getur ESB takmarkað innflutning á ákveðnum fisktegundum, laxi, síld, rækju, makríl o.fl. Samkvæmt skoðanakönnun er meirihluti norskra kjósenda ánægður með samninginn en helstu samtök sjómanna eru afar óánægð og einnig andstæðingar aðildar á þingi.

Atvinnuleysið rætt á iðnríkjafundi

ATVINNU- og fjármálaráðherrar helstu iðnríkjanna, Sjö-ríkja-hópsins svokallaða, héldu fund um atvinnuleysisvandann í Detroit í Bandaríkjunum á mánudag og þriðjudag í síðustu viku. Var það helsta niðurstaða hans, að engar töfralausnir væru til, heldur væri nauðsynlegt að grípa til verulegrar uppstokkunar og kerfisbreytinga, einkum í Evrópu. Ljóst þykir nú, að jafnvel góður hagvöxtur muni ekki eyða því mikla atvinnuleysi, sem grafið hefur um sig í Evrópu, en hugmyndum um stóraukin, opinber útgjöld var vísað á bug. Þess í stað var rætt um "þriðju leiðina", aukna áherslu á starfsmenntun og iðnnámsfyrirkomulagið í Evrópu og á sveigjanleikann í Bandaríkjunum

Færeyskir togarar aftur á sjó

VERKFALLI togaramanna í Færeyjum er lokið og héldu sum skipanna aftur til veiða á fimmtudag. Fengu þeir framgengt nokkrum breytingum á kvóta í aukaafla og fyrirheit um, að kvótalögin verði endurskoðuð í ágúst nk. Þá var togurunum heimilað að selja allt að 30% aflans erlendis án þess að fjármagnsstyrkir til þeirra lækkuðu.

Rússar í friðarsamstarf

RÚSSAR hafa í hyggju að undirrita samning við Atlantshafsbandalagið, NATO, um Samstarf í þágu friðar fyrir næstu mánaðamót. Skýrði Pavel Gratsjov, varnarmálaráðherra Rússlands, frá þessu á fimmtudag en Vladímír Lúkín, formaður utanríkismálanefndar dúmunnar, líkti áformunum við nauðgun og Sergei Júshenko, formaður varnarmálanefndar, sagði, að hún hefði samþykkt að ganga ekki til samstarfsins nema sérstaða Rússlands sem kjarnorkuveldis yrði viðurkennd.

Brundtland