Harðhausinn gerist hugsjónamaður Kvikmyndir Sæbjörn Valdimarsson Bíóhöllin: Á dauðaslóð - On Deadly Ground Leikstjóri Steven Seagal. Aðalleikendur Steven Seagal, Michael Caine, Joan Chen, John C. McGinley, R. Lee Ermy. Bandarísk. Warner Bros 1994.

Harðhausinn gerist hugsjónamaður Kvikmyndir Sæbjörn Valdimarsson Bíóhöllin: Á dauðaslóð - On Deadly Ground Leikstjóri Steven Seagal. Aðalleikendur Steven Seagal, Michael Caine, Joan Chen, John C. McGinley, R. Lee Ermy. Bandarísk. Warner Bros 1994.

Það boðar ekkert gott þegar harðhausar á borð við Steven Seagal taka allt í einu uppá því að setja sig í stellingar og gerast hugsjónamenn. Á dauðaslóð er gott og nærtækt dæmi. Ekki skortir Seagal viljann heldur getuna. Hann hefur ætlað sér að setja markið hátt og ekki vantar að aumingja manninum er mikið niðri fyrir og telur sig hafa margt og mikið að segja. Því miður er árangurinn hroðalegur. Nýjasta mynd þessa liðtæka slagsmálahunds er heimskuleg blanda boðskapar og barsmíða. Hugsjónirnar; umhverfismálin, náttúruverndarsjónarmiðin og samúðin með inúítum á norðurslóð, kafna í bægslagangi stjörnunnar sem fer eins og logi um akur. Berjandi, brjótandi, sprengjandi og drepandi úrhrök sem sakleysingja er hann ekki par trúverðugur sem prédikari Græningja.

Annars fjallar þessi furðulegi samsetningur um hetjuna Seagal sem vinnur fyrir sér við að kæfa eld í olíuborholum. Vinnandi við eitt slíkt vítisbál norður í Alaska kemst Seagal að því að ekki er allt með felldu því olíufurstinn Michael Caine hefur sparað sér ómælt fé með því að nota ódýra hluti í olíuhreinsistöð sem hann er að setja í gang þar norður frá. Seagal kemst í kynni við frumbyggjana og sér dauðvona höfðingi þeirra nýjan leiðtoga í þessum goðumlíka slökkviliðsmanni og setur allt sitt traust á hann. Seagal bregst snöfurmannlega við, vitjar sprengiefnalagers uppá nokkur tonn sem hann lúrir á uppi í fjöllum og heldur síðan með dúllunni, höfðingjadótturinni (Joan Chen), og leggur til atlögu við óvígan her manndrápsmanna og þarf ekki að spyrja að leikslokum. Hreinsistöðin hættulega sprengd í tætlur og vondu kallarnir og allt verkamannagengið með og heldur okkar maður síðan sigursæll á braut með dúllunni og þá verða hugsjónamanninum á mestu mistökin. Hann má til með að halda ræðu í þinghúsi Alaskabúa, hvar ínúítahjörðin knéfellur kumrandi fyrir þessum nýja guði sínum sem heldur svona á að giska fimm mínútna fyrirlestur um umhverfismál, einkum djöfulskap olíufélaga. Þetta hefði getað orðið hin þarfasta lesning, í þessu samhengi er hún nánast fíflagangur.