Lambi bjargað úr vetrarríki SNORRI bóndi Jóhannesson á Augastöðum í Borgarfirði, Grétar Reynisson bóndi á Höll, Sigmundur Sigurðsson og Halldór Sigurðsson, rúningsmenn norðan af Ströndum og hundurinn Lubbi björguðu lambi ofan af Arnarvatnsheiði síðdegis á...

Lambi bjargað úr vetrarríki

SNORRI bóndi Jóhannesson á Augastöðum í Borgarfirði, Grétar Reynisson bóndi á Höll, Sigmundur Sigurðsson og Halldór Sigurðsson, rúningsmenn norðan af Ströndum og hundurinn Lubbi björguðu lambi ofan af Arnarvatnsheiði síðdegis á föstudaginn.

Hefur lambið augsýnilega sloppið í gegn um fínkembingu leitarmanna síðasta haust. Þótt ljóst sé að lambið hafi átt kalsama vist í hagleysu og hörðu vetrarríki heiðarinnar, virtist það þó furðu vel á sig komið, utan að tennur þess voru óeðlilega slitnar, trúlega af því að naga skófir og fléttur af steinum. Snorri varð fyrst var við lambið fyrir rúmri viku og eltist þá við það fram í myrkur. Fór hann síðan aftur um miðja vikuna, en varð þá frá að hverfa vegna illviðris. Loks er hann fór við fjórða mann ásamt Lubba á föstudaginn gekk björgunin eftir.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Björgunarmennirnir

BJARGVÆTTIRNIR Sigmundur Sigurðsson, Snorri Jóhannesson, Grétar Reynisson, Halldór Sigurðsson og hundurinn Lubbi með lambið út á stokkfreðnu Úlfsvatninu á Arnarvatnsheiði.