Reykjavíkurlistinn lagði fram stefnuyfirlýsingu á opnum fundi í gær Félagshyggja, kvenfrelsi og umhverfisvernd að leiðarljósi STEFNUYFIRLÝSING sameiginlegs lista fernra stjórnmálasamtaka og áhugafólks, vegna borgarstjórnarkosninganna í vor, var lögð fram...

Reykjavíkurlistinn lagði fram stefnuyfirlýsingu á opnum fundi í gær Félagshyggja, kvenfrelsi og umhverfisvernd að leiðarljósi

STEFNUYFIRLÝSING sameiginlegs lista fernra stjórnmálasamtaka og áhugafólks, vegna borgarstjórnarkosninganna í vor, var lögð fram á opnum borgarafundi á Hótel Sögu síðdegis í gær. Listinn gengur undir nafninu Reykjavíkurlistinn og býður fram undir kjörorðinu "Opin og lýðræðisleg borg - heimili - atvinna skóli". Í yfirlýsingunni segir að listinn muni hafa hugmyndir félagshyggju, kvenfrelsis og umhverfisverndar að leiðarljósi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóraefni listans, og fleiri frambjóðendur fluttu ávörp á fundinum. Ingibjörg sagði ákvörðunina um að gefa kost á sér í baráttusæti listans hafa verið sér erfiða persónulega. Það væri hvorki einfalt né útlátalaust fyrir sig sem þingmann Reykvíkinga að yfirgefa þau verkefni og skyldur sem hún tók að sér í síðustu þingkosningum. Hún myndi eftir sem áður vinna fyrir og sækja umboð sitt til þess fólks sem hún þekkti best, það er Reykvíkinga.

Flokkarnir sem standa að listanum eru Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Kvennalistinn. Meðal helstu markmiða listans er að auka valddreifingu í borginni, meðal annars með stofnun embættis umboðsmanns borgarbúa, skýrri hverfaskiptingu og auknum rétti borgarbúa til að hafa áhrif, meðal annars með því að greiða atkvæði um einstök borgarmál.

Atvinna og aðbúnaður

Reykjavík á að verða miðstöð nýsköpunar og þróunar í atvinnumálum. Stefnt er að samstarfi við verkalýðsfélög og atvinnurekendur um örvun atvinnulífs, stofnun atvinnuþróunarsjóðs og stuðningi við lítil og meðalstór fyrirtæki.

Vinna á að því að tryggja öllum börnum, sem á þurfa að halda, aðgang að leikskóla meðan foreldrar eru utan heimilis. Endurskoða á fyrirkomulag og eftirlit með dagvistun og vinna að því að grunnskólinn verði einsetinn og skóladagur samfelldur.

Stuðlað skal að auknum jöfnuði í lífskjörum borgarbúa. Aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur á að miðast við að hjálpa þeim til sjálfshjálpar. Stefnt skal að aukinni þjónustu við aldraða hjúkrunarsjúklinga og lögð áhersla á uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Umhverfis- og menningarmál

Það er markmið Reykjavíkurlistans að borgin taki forystu í umhverfismálum hér á landi. Skipulag mannvirkja, borgarhverfa og allrar starfsemi taki mið af náttúrulegu umhverfi og virðingu við sögu borgarinnar. Öryggissjónarmið hafi forgang við hönnun umferðarmannvirkja. Bæta á aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Endurskoða á aðferðir við förgun úrgangs og nýta lífrænan úrgang.

Styrkja á Reykjavík sem miðstöð menningarlífsins og efla list- og verkmenningu. Styrkja á menningarhlutverk skólanna, efla almenningsíþróttir og stuðla að greiðari aðgangi almennings að íþróttamannvirkjum.

Fjármál og framkvæmdir

Hætta skal bruðli og vanhugsuðum skyndiákvörðunum í fjármálum borgarinnar og hafin endurreisn borgarsjóðs. Byggja á ákvarðanir um verklegar framkvæmdir á þörfum borgarbúa fyrir nýja eða bætta þjónustu. Endurskoða skal rekstur borgarinnar og stjórnkerfi hennar með það fyrir augum að gera hvort tveggja skilvirkara og hagkvæmara. Setja á skýrar reglur um allar framkvæmdir og bjóða út allar nýframkvæmdir. Þá á að stöðva einkavæðingu þjónustufyrirtækja borgarinnar og færa rekstur SVR í fyrra horf.

Morgunblaðið/Þorkell

Kynningarfundur

STEFNUYFIRLÝSING Reykjavíkurlistans var kynnt á opnum fundi í Súlnasal Hótels Sögu kl. 14 í gær.