Vestmannaeyjabær leitar til verðbréfafyrirtækja sem bjóða lága vexti Bæjarisjóður sparar tugi milljóna á lánstímanum VESTMANNAEYJABÆR hefur nú flutt nærfellt öll lánaviðskipti frá viðskiptabönkum sínum og til einkafyrirtækja á verðbréfamarkaði vegna...

Vestmannaeyjabær leitar til verðbréfafyrirtækja sem bjóða lága vexti Bæjarisjóður sparar tugi milljóna á lánstímanum

VESTMANNAEYJABÆR hefur nú flutt nærfellt öll lánaviðskipti frá viðskiptabönkum sínum og til einkafyrirtækja á verðbréfamarkaði vegna hagstæðari vaxtaprósentu. "Við erum að spara tugi milljóna króna vegna hagstæðari vaxta, miðað við lánstímann, og það er vægt til orða tekið," segir Guðjón Hjörleifsson bæjarstjóri og kveðst telja framtíðarskipan lánamála sveitarfélaga verða með þessum hætti, haldist munurinn á vöxtum svipaður áfram. Frá miðju ári 1993 hefur Vestmannaeyjabær skuldbreytt um 300 milljónum kr. fyrir bæinn og stofnanir hans. Sveitarfélögin gefa út skuldabréf sem boðin eru verðbréfafyrirtækjunum til kaups í lokuðu útboði og síðan kaupa lífeyrissjóðirnir bréfin án affalla. Viðskipti með skuldabréf þessi námu milli 2,5­3 milljörðum á seinasta ári og áætla má að skuldabréf hafi selst fyrir um milljarð það sem af er þessu ári, að sögn Pálma Sigmarssonar hjá verðbréfafyrirtækinu Handsali.

Pálmi segir nú öra þróun í þá átt að sveitarfélag flytji öll sín lánaviðskipti til verðbréfafyrirtækja. Aðdragandinn nái um fimm ár aftur í tímann, en seinustu mánuði hafi þróunin tekið undir sig stökk og nú séu mörg stærri sveitarfélaga með allar sínar langtíma lántökur hérlendis í þessu formi, auk þess sem viðskipti sveitarfélaga með skammtímalán, s.s. víxillán, færist hratt í aukana á þessum markaði. Hann segir ávöxtunarkröfu vera á bilinu 5,8­6,2%, eftir stöðu þess sveitarfélags sem gefur skuldabréfin út, sem sé um 1,5­3% lægra en bankarnir bjóða almennt, og 6­7% á skammtímaskuldabréfum, sem sé allt að 4­5% hagstæðari kjör en bjóðast í bankakerfinu. Lánstíminn sé yfirleitt lengri en sveitarfélögin verða að sætta sig við í bankakerfinu, afborgunarkjör sveigjanlegri og lántökugjald sé jafnframt allt að helmingi lægra. "Meðal lífeyrissjóða og stærri fjárfesta hefur verið mikil eftirspurn eftir þessum bréfum, enda sjá þeir sér hag í að kaupa skuldabréf þar sem sveitarfélög eru greiðendur eða ábyrgðaraðilar. Nú er um 1­1,5% vaxtamunur milli ríkistryggðra bréfa og bréfa sveitarfélaga, eftir stöðu sveitarfélaga," segir Pálmi.

Unnið í samvinnu við banka

Guðjón segir að í því vaxtaumhverfi sem nú ríkir séu lántökur hagstæðastar með þessum hætti. Bankarnir geri sér grein fyrir því og hreyfi ekki andmælum. "Lánamál okkar eru unnin í samvinnu við bankastjóra viðskiptabanka okkar, þeir gera sér einfaldlega grein fyrir að við erum að fá hagstæðari lán en þeir geta boðið og telja að þar sem við stöndum í skilum eigum við að njóta þess. Við höfum á þessu kjörtímabili unnið sameiginlega að endurskipulagningu lánamála bæjarins, þannig að þeir setja sig ekki á móti þessu," segir Guðjón.