Grafíkvinir er ný tegund vinatengsla "Við höfum látið okkur detta í hug að nemendur sem hafa lokið námi í MHÍ geti nýtt sér aðstöðuna. Þetta gæti verið stökkpallur yfir í nám erlendis eða framhaldsnám hjá okkur sem tengdist skólanum." eftir Hildi...

Grafíkvinir er ný tegund vinatengsla "Við höfum látið okkur detta í hug að nemendur sem hafa lokið námi í MHÍ geti nýtt sér aðstöðuna. Þetta gæti verið stökkpallur yfir í nám erlendis eða framhaldsnám hjá okkur sem tengdist skólanum."

eftir Hildi Friðriksdóttur

ÞAÐ vakti athygli fyrir nokkrum misserum þegar Íslendingum gafst kostur á að gerast vinir Hafnarfjarðar. Hugmyndin þótti nýstárleg og viðbrögð landans voru að henda gaman að henni eins og oft vill verða þegar ekki er vitað hvernig á að taka á málum. Nú hefur félagið Íslensk grafík hins vegar fylgt í kjölfarið með von um góðar undirtektir og gefst listunnendum tækifæri til að gerast Grafíkvinir. Hugmyndin kviknaði hjá félagsmönnum í tengslum við hópsýningu, sem haldin hefur verið í Norræna húsinu undanfarnar fjórar vikur og lýkur í dag. Fleira spennandi er á döfinni hjá félagsmönnum því í haust hefur þeim verið boðið að taka þátt í grafíksýningu í Kína. Þar fyrir utan er stefnt á opnun verkstæðis með aðstöðu fyrir gestalistamenn síðar á þessu ári.

orgunblaðið hitti nokkra félagsmenn í Norræna húsinu í liðinni viku til að fá nánari vitneskju um þessa atburði. Þarna voru saman komnar Aðalheiður Skarphéðinsdóttir formaður félagsins, Þorgerður Sigurðardóttir ritari, Valgerður Hauksdóttir formaður verkstæðisnefndar og Aðalheiður Valgeirsdóttir sem á sæti í stjórn félagsins.

Hugmyndin með grafíkvinum er leið til að efla tengsl listvina og listamanna, auk þess að safna styrktarfé fyrir grafíkverkstæði sem er í undirbúningi að opna. "Árgjaldið er fimm þúsund krónur en í staðinn bjóðast ýmis hlunnindi eins og 10% afsláttur af myndum á félagssýningum og í gallerí félagsins sem fyrirhugað er að opna á árinu, svo og boðsmiðar á sýningar grafíklistamanna," sagði Aðalheiður Skarphéðinsdóttir.

"Grafíkvinur fær einnig litla mynd árlega, sem verður eingöngu búin til fyrir klúbbfélaga," bætti Þorgerður við. "Þá fá klúbbfélagar fréttabréf þegar eitthvað stendur til eins og sýningar, námskeið eða opið hús.

Hugmyndin er það ný af nálinni að við höfum ekki ákveðið formið endanlega, en höfum rætt um að einn listamaður á ári hafi opið hús. Við sjáum þannig möguleika á að auka tengsl almennings við listamenn og jafnframt að gefa þeim aukið tækifæri til að koma verkum sínum á framfæri."

Talið berst því næst að boðinu sem félaginu hefur borist frá Vináttustofnun Kína við erlend ríki. "Sex listamönnum er boðið að dveljast í Peking í 4-5 daga við opnun sýningarinnar, en einnig er í athugun að hún fari á fleiri staði," sagði Aðalheiður. "Þetta er fyrsta samsýning íslenskra myndlistarmanna í Kína og fyrirhugað er að áttatíu verk verði send utan."

Mikil spenna ríkir hjá listamönnunum, sem vita þó ekki enn hverjir fara utan því kostnaður við ferðina og sýninguna er geysilegur. Það kemur í hlut Íslendinga að koma verkunum á sýningarstað og standa undir ferðakostnaði. Verið er að kanna fjármögnunarleiðir og leita eftir styrkjum. "Hér er auðvitað spennandi tækifæri til að kynnast kínverskri grafík, auk þess sem meiningin er að efla tengsl milli landanna tveggja," sagði Aðalheiður Valgeirsdóttir.

Þegar sýningin í Norræna húsinu er skoðuð kemur í ljós, að karlmenn eru í minnihluta sýnenda eða sjö á móti 24 konum. "Hér á landi eru miklu fleiri kvenmenn í grafík en karlmenn. Þetta er eini staðurinn í heiminum, þar sem þessu er þannig háttað, enda erum við oft spurðar að því hér á landi hvort þetta sé kvennalist," sögðu konurnar þegar við höfðum komið okkur fyrir við kubbaborð í leikhorni sýningarsalarins, en það var eini staðurinn þar sem hægt var að setjast niður.

"Hins vegar erum við gjarnan litnar hornauga erlendis og ekki viðurkenndar fyrr en við höfum sýnt og sannað að við getum farið höndum um verkfærin," sagði Valgerður. "Þá fyrst er hægt að drekka með okkur bjór," bætti hún við og kímdi.

Þeirri aðferð sem einna mest hefur verið beitt á undanförnum árum í íslenskri grafík er æting, þrátt fyrir að trérista sé mest áberandi á félagasýningunni. Segja viðmælendur mínir að skýringin á að t.d. steinþrykk sé minna notað tengist að nokkru leyti aðstöðuleysi listamannanna.

Ekki ber á öðru en farið sé að hilla undir lausn á aðstöðuleysinu, því formanni verkstæðisnefndar barst nýlega bréf frá Reykjavíkurborg um leigusamning eftir margra ára baráttu félagsins. Húsnæðið fékk félagið árið 1988 hjá borginni en þá þurfti það lagfæringar við, sem hefur tekið allan þennan tíma, að sögn Valgerðar. Þarna stendur til að opna verkstæði fyrir listamenn, aðstöðu fyrir starfsemi félagsins, gestaíbúð og lítið sölugallerí.

Hugmyndin er að 10-15 listamenn, sem vilja vinna við grafík, geti leigt sér aðstöðu í ákveðinn tíma og fengið afnot af þeim tækjum sem til þess þarf. Ekki er leigan eingöngu bundin við félaga í Íslenskri grafík, heldur er aðstaðan hugsuð fyrir þá sem langar að vinna með grafík eins og t.d. málara. Jafnvel stendur til að halda námskeið fyrir þá sem kunna lítið sem ekkert.

"Einnig höfum við látið okkur detta í hug að nemendur sem hafa lokið námi í MHÍ geti nýtt sér aðstöðuna, því yfirleitt komast þeir hvergi að. Þetta gæti því verið stökkpallur yfir í nám erlendis eða jafnvel framhaldsnám hjá okkur sem tengdist skólanum," sagði Aðalheiður. "Hér verður því um fjölþætta nýtingu húsnæðisins að ræða, sem við bindum miklar vonir við."

Morgunblaðið/Þorkell

Valgerður Hauksdóttir, Aðalheiður Skarphéðinsdóttir, Aðalheiður Valgeirsdóttir og Þorgerður Sigurðardóttir í sýningarsal Norræna hússins. Þær binda miklar vonir við verkstæðið og aðstöðuna sem félagið hygst opna í Hafnarstræti síðar á árinu.

Lux beata Gloriosa. Trérista eftir Þorgerði Sigurðardóttur.

Sæluríki. Æting eftir Grétu Mjöll Bjarnadóttur.

Landrek. Einþrykk eftir Ingiberg Magnússon.

Salurinn sem beðið er eftir að taka í notkun. Leigan verður ekki eingöngu bundin við félaga í Íslenskri grafík, heldur er aðstaðan hugsuð fyrir þá sem langar að vinna með grafík eins og t.d. málara.