Júlía snýr aftur JULIA Roberts kemur aftur fram á sjónarsviðið í Pelíkanaskjalinu, en leikkonan tók sér sjálfviljug tveggja ára frí frá kvikmyndaleik og lét lítið fyrir sér fara.

Júlía snýr aftur

JULIA Roberts kemur aftur fram á sjónarsviðið í Pelíkanaskjalinu, en leikkonan tók sér sjálfviljug tveggja ára frí frá kvikmyndaleik og lét lítið fyrir sér fara. Hún var þó eftirlætisefni í slúðurdálkum dagblaðanna á þessu tímabili og var þá meðal annars rætt um að hún ætti að etja við vanda vegna eiturlyfjaneyslu, en hún hefur hins vegar vísað öllu slíku tali á bug. Þegar hún hugðist snúa sér aftur að kvikmyndaleik síðla árs 1992 gerði hún samning við kvikmyndafyrirtækið Caravan Pictures, og í fyrstu var gerð tilraun til að fá Daniel Day-Lewis til að taka að sér hlutverk á móti henni í myndinni Shakespeare in Love sem til stóð að gera, en hann var hins vegar ekki á lausu þá stundina og því varð hlutverkið í Pelíkanaskjalinu fyrir valinu.

oreldrar hinnar 26 ára gömlu Juliu Roberts ráku leikhúsverkstæði í Smyrnu í Georgíu, og ólst Julia ásamt systkinum sínum því upp við leiklist allt frá blautu barnsbeini. Árið 1985 hjálpaði bróðir hennar, Eric Roberts, henni til að fá hlutverk í ódýrri kvikmynd, Blood Red, en hún vakti hins vegar ekki athygli fyrr en hún lék í myndinni Steel Magnolias og hlaut útnefningu til Óskarsverðlauna fyrir túlkun sína. Heimsfrægðin var svo handan við hornið því næsta hlutverk hennar var í kvikmyndinni Pretty Woman þar sem hún lék á móti Richard Gere, og gerði það hana að einni eftirsóttustu leikkonu níunda áratugarins í Hollywood. Hún hélt svo bæði vinsældum sínum og launum, sjö milljónum dollara fyrir mynd, í næstu tveimur myndum, sem voru Flatliners og Sleeping with the Enemy, en auk þess var hún ein mest áberandi leikkonan í samkvæmislífi og einkalífi. Þegar slitnaði upp úr trúlofun hennar og Kiefers Sutherland aðeins þremur dögum áður en brúðkaupið átti að fara fram varð hún að lifandi þjóðsögu í Hollywood. Um svipað leyti fékk svo kvikmyndin Dying Young, sem hún lék í, afar misjafnar móttökur, og afréð hún því að draga sig í hlé um stund. Nú er hún hins vegar komin á fullt skrið á nýjan leik eftir að hafa gengið í hjónaband, og um þessar mundir er hún að leika í myndinni I Love Trouble á móti Nick Nolte.

Úr felum

JULIA Roberts hefur nú hafið kvikmyndaleik af fullum krafti á ný, eftir að hafa dregið sig í hlé um tveggja ára skeið.