KVIKMYNDIR/SAMBÍÓIN frumsýna á næstunni bandarísku spennumyndina Pelíkanaskjalið, The Pelican Brief, sem gerð er eftir samnefndri metsölubók eftir John Grisham, en skammt er síðan Sambíóin sýndu Fyrirtækið, sem einnig var gerð eftir sögu eftir Grisham.

KVIKMYNDIR/SAMBÍÓIN frumsýna á næstunni bandarísku spennumyndina Pelíkanaskjalið, The Pelican Brief, sem gerð er eftir samnefndri metsölubók eftir John Grisham, en skammt er síðan Sambíóin sýndu Fyrirtækið, sem einnig var gerð eftir sögu eftir Grisham. Aðalhlutverkin í Pelíkanaskjalinu leika Julia Roberts og Denzel Washington.

Ys og þys út af vitn-

eskju laganemans

PELÍKANASKJALIÐ er nýjasta mynd bandaríska leikstjórans Alan J. Pakula, sem sennilega er hvað þekktastur fyrir myndirnar Sophie's Choice, All The President's Men og Presumed Innocent, en auk þess að leikstýra Pelíkanaskjalinu og framleiða myndina skrifaði Pakula handritið eftir metsölubók John Grishams. Í myndinni er sögð ævintýraleg saga Derby Shaw (Julia Roberts), laganema frá New Orleans, sem skyndilega flækist inn í flókinn svikavef sem nær allt til æðstu embætta bandaríska stjórnkerfisins, en ástæða þess er að hún skrifar stutta ritsmíð þar sem hún flettir ofan af ólöglegu athæfi valdamikils olíujöfurs. Þegar þeir sem standa henni nærri eru myrtir hver af öðrum hefst æðisgengin barátta unga laganemans fyrir lífi sínu, og verður rannsóknarblaðamaðurinn Gray Grantham (Denzel Washington) eini bandamaðurinn sem hún getur treyst, en í sameiningu leggja þau allt kapp á að fletta ofan af ráðabruggi olíujöfursins og kumpána hans.

veir hæstaréttardómarar, sem þykja frjálslyndir og hallir undir skoðanir umhverfisverndarsamtaka, eru myrtir af leigumorðingja og vekur mál þetta áhuga Derby Shaw, en kennari hennar við lagadeild háskólans í New Orleans og elskhugi, Callahan (Sam Shepard), hafði áður starfað með öðrum dómaranna. Derby kannar margvísleg gögn til að reyna að átta sig á því hvers vegna dómararnir hafa verið myrtir, og þegar hún telur sig vera komna með líklega skýringu skrifar hún stutta ritgerð um málið, Pelíkanaskjalið, og afhendir Callahan. Hann afhendir skjalið háttsettum vini sínum innan alríkislögreglunnar, en þaðan berst það um víðan völl í stjórnkerfinu og meðal annars inn í Hvíta húsið. Þegar Callahan er myrtur og Derby sleppur naumlega undan morðingjum hans verður henni ljóst að hún hefur hitt naglann á höfuðið í tilgátu sinni. Hún reynir hvað hún getur til að fara í felur í New Orleans, en illþýðið er þó alltaf á hælunum á henni og fer hún því til Washington þar sem hún hefur samband við rannsóknarblaðamanninn Grantham, en á honum hafði Callahan haft mikið dálæti. Hún segir honum frá innihaldi Pelíkanaskjalsins og tilgátu sinni um yfirhylmingu sem nær allt til æðstu embætta innan ríkisstjórnarinnar, og sameiginlega reyna þau að afla staðfestinga á grunsemdunum áður en Grantham birtir frásögnina í blaði sínu. En morðingjarnir eru ekki lengi að komast að því hvar laganeminn og samstarfsmaður hennar eru niðurkomin og leggja þeir allt kapp á að ráða niðurlögum þeirra áður en þau koma vitneskju sinni á framfæri.

Ekkert jafnast á við angistaróp áhorfenda

Alan J. Pakula, sem leikstýrir Pelíkanaskjalinu, á að baki margar af bestu spennumyndum seinni ára, en hann hefur einatt leitast við að skyggnast í sálfræðina að baki þráhyggju manna og skýra raunveruleikann að baki pólitískri spillingu. Margar mynda hans af þessu tagi eru þegar orðnar klassískar í kvikmyndasögunni, og má þar nefna Klute, The Parallax View, All The President's Men og Presumed Innocent. "Ég hef mesta ánægju af því að gera spennumyndir, og það er ekkert sem jafnast á við að heyra angistaróp áhorfenda. Það er ákveðin geðhreinsun fólgin í því að fylgjast með og skynja hættu og sleppa síðan frá henni. Að sviðsetja ótta er því mjög ánægjulegt fyrir mig," segir Pakula.

Pelíkanaskjalið er þriðja skáldsaga rithöfundarins John Grisham, en hann snéri sér að skáldsagnagerð eftir að hafa stundað lögfræðistörf um skeið. Fyrsta bókin hans, A Time To Kill, naut ekki mikilla vinsælda þegar hún var gefin út, en önnur bókin, The Firm, fór hins vegar beint inn á metsölulista um allan heim. Pelíkanaskjalið gerði það sömuleiðis og fyrsta bókin líka í kjölfarið, og þessa daga trónir nýjasta bókin, The Client, á metsölulistum. Alan J. Pakula beið ekki boðanna þegar vinsældir The Firm urðu ljósar, og tryggði hann sér kvikmyndaréttinn að Pelíkanaskjalinu áður en Grisham var svo mikið sem byrjaður að setja fyrstu stafina á blað. Pakula hreifst af hraðri framvindu sögunnar þegar hún leit dagsins ljós og var þá staðráðinn í að gera eftir henni kvikmynd. "Þetta er spennusaga með mikið skemmtanagildi, og Grisham hefur þann hæfileika að fá mann stöðugt til að vilja vita hvað gerist næst. Þessa sömu tilfinningu hafði ég reyndar við gerð kvikmyndarinnar," segir Pakula, en í myndinni er raunverulega verið að segja þrjár sögur í einu. Í fyrsta lagi er um að ræða morðin á hæstaréttardómurunum, síðan er það saga Derby Shaw, sem er þungamiðjan, og í þriðja lagi er það sagan um spillinguna á æðstu stöðum í stjórnkerfinu.

Rannsóknir á mannlegu eðli

Óskarsverðlaunahafinn Denzel Washington, sem leikur rannsóknarblaðamanninn Gray Grantham, eyddi talsverðum tíma með blaðamönnum og ritstjórum á Washington Post þegar hann var að undirbúa sig fyrir hlutverkið. Hann segir, að það hafi komið sér á óvart að blaðamenn og leikarar ættu fleira sameiginlegt en að vilja búa til fyrirsagnir í blöðum. "Bæði blaðamenn og leikarar eru á vissan hátt við sífelldar rannsóknir á mannlegu eðli, og til þess að ná tökum á hlutverki verð ég ætíð að umgangast raunverulegt fólk til að átta mig á tilfinningum þess og lífsmáta. Á vissan hátt gerir blaðamaðurinn það sama, og báðir leitum við að ástæðunum sem liggja að baki hverju sinni og skilningi á þeim," segir Wahington.

Denzel Washington hefur þegar sannað, að hann er einn af hæfileikamestu leikurum samtímans, en strax fyrir fyrsta kvikmyndahlutverk sitt, sem var í mynd Normans Jewison, A Soldier's Story, hlaut hann mikið lof fyrir leik sinn. Fyrir hlutverk sitt í Cry Freedom hlaut hann tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir bestan leik í aukahlutverki, en verðlaunin hlaut hann síðar fyrir leik sinn í Glory. Washington hefur leikið í tveimur kvikmynda Spike Lee, Mo' Better Blues og Malcolm X, en fyrir hana var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir bestan leik í aðalhlutverki. Upp á síðkastið hefur mátt sjá Washington í kvikmynd Kenneths Branagh, Ys og þys út af engu, og á næstunni fá kvikmyndahúsagestir að njóta afburðaleiks hans í kvikmyndinni Philadelphia þar sem hann leikur á móti Tom Hanks.

Lærifaðirinn

LAGAPRÓFESSORINN Callahan (Sam Shepard), sem jafnframt er elskhugi Derby Shaw (Julia Roberts), tekur í fyrstu ekki mikið mark á samsæriskenningum hennar um morð á tveimur hæstaréttardómurum.

Rannsóknarblaðamaðurinn

GARY Grantham (Denzel Washington) þarf á öllu sínu að halda, þegar hann, ásamt Derby Shaw, reynir að fletta ofan af samsæri á æðstu stöðum.

Leikstjórinn

ALAN J. Pakula leikstjóri Pelíkanaskjalsins nýtur þess að búa til spennumyndir, sem laða fram angistaróp áhorfenda.