ÁRIÐ HANS Spielbergs? SPÁÐ Í DUTTLUNGA BANDARÍSKU KVIKMYNDAAKADEMÍUNNAR 1994 eftir Sæbjörn Valdimarsson Á MORGUN rætast æðstu vonir örfárra listamanna en þeir verða þó fjórfalt fleiri sem snúa heim, aðeins reynslunni ríkari.

ÁRIÐ HANS Spielbergs? SPÁÐ Í DUTTLUNGA BANDARÍSKU KVIKMYNDAAKADEMÍUNNAR 1994 eftir Sæbjörn Valdimarsson

Á MORGUN rætast æðstu vonir örfárra listamanna en þeir verða þó fjórfalt fleiri sem snúa heim, aðeins reynslunni ríkari. Orrustan um Óskarinn hefur ekki verið tvísýnni um árabil. Óvissa er orð dagsins. Það er jafnan hálfgert happdrætti að segja til um sigurvegarana í flestum flokkanna, en nú verður lukkan að koma til hjálpar sem aldrei fyrr! Árið 1993 fæddi nefnilega af sér fáeinar afburðamyndir sem munu halda þessu ártali í heiðri á síðum kvikmyndasögunnar. Listi Schindlers, Dreggjar dagsins, Í nafni föðurins, Píanóið, Flóttamaðurinn, Far vel frillan mín, allt eru þetta verk sem hafa burði til að skara framúr hvaða ár sem er. Og fleiri snjallar og minnisstæðar myndir eins og Öld sakleysisins, Dave, Menace II Society, Tina, Ys og þys útaf engu, að Júragarðinum ógleymdum, litu dagsins ljós.

ímarnir breytast og mennirnir með. Nú eru Óskarsverðlaunin orðin snar þáttur í auglýsingaherferð kvikmyndahúsanna, tilnefningar sem verðlaunahafar. Að öllum líkindum eru þau hvergi jafn áberandi í auglýsingum utan Bandaríkjanna sjálfra. Íslensku dreifingaraðilar standa sig líka æ betur, nú eru allar bestu myndirnar komnar til landsins, aðeins Philadelphia enn ósýnd. Auk þess eru allar aðrar myndir sem getið er hér á eftir væntanlegar á hvíta tjaldið á næstu vikum.

Besta mynd ársins

Strax í upphafi einkennir tvísýnan valið. Að Flóttamanninum undanskildum, þeirrar annars ágætu og afar spennandi en veigalitlu myndar, geta allar hinar fjórar staðið uppi sem sigurvegarar. Þó freistast ég til að álíta að Píanóið eigi hverfandi möguleika, þótti hólið jaðri við oflof á köflum. Philadelphia tekur fyrst stórmynda á vágestinum eyðni og gerir það vel undir stjórn Jonathans Demme (Lömbin þagna). Eyðnin hefur bankað hvað vægðarlausast uppá hjá kvikmyndagerðarmönnum og vissulega nýtur hún samúðar meðal akademíumeðlima.

Í nafni föðurins er sláandi mynd um rotið réttarkerfi og ótrúleg en sönn afdrif norður-írskra smælingja í greipum þess. Krydduð afbragðs leik Daniels Day-Lewis og jafnvel enn betri frammistöðu Petes Postlethwaites, í hlutverkum feðga sem voru fórnarlömb Breta í baráttu þeirra við hryðjuverkamenn. Það er engin spurning að hún getur unnið. Á hitt ber að líta að efnið er afar viðkvæmt og í sviðsljósinu þessa dagana, það getur ráðið úrslitum. Og akademían er íhaldssöm.

Ef að líkum lætur fellur heiðurinn annaðhvort Dreggjum dagsins eða Lista Schindlers í skaut. Þetta eru að flestra dómi bestu myndir ársins. Framleiðandanum Merchant, leikstjóranum Ivory og handritshöfundinum Jhabvala tekst firna vel upp í Dreggjum dagsins, sem státar jafnframt af einstæðum leik Anthonys Hopkins í aðalhlutverkinu. Þessi lágstemmda mynd um einmanna sálir í skel sinni gefur ekkert eftir fyrri myndum þessa fræga þríeykis, nema síður sé. En myndir þess hafa oftar en ekki komið við sögu verðlaunanna á undanförnum árum.

Sigurstranglegust frá mínum bæjardyrum séð er þó Listi Schindlers, hið átakanlega stórvirki Spielbergs um atburði sem aldrei mega gleymast. Hrylling Helfarar gyðinga, útrýmingarbúðanna, djöfulskapar nasista og hugrekki kaupsýslumannsins Oskars Schindlers og lífsþorsta gyðinganna. Hér er valinn maður í hverju rúmi, efnistökin slík að um tímamótaverk er að ræða, myndin raunar svo veigamikil að framhjá henni verður tæpast gengið. Spielberg á líka inni hjá akademíunni sem hefur jafnan hundsað myndir hans, þar með taldar nokkrar þær vinsælustu í sögunni. Og ekki skaðar að í akademíunni er fjöldi gyðinga og roskinna meðlima.

1. Listi Schindlers

2. Dreggjar dagsins

3. Í nafni föðurins

Besta erlenda myndin

Fjórar myndanna eru nánast óþekktar hérlendis þegar þessar línur birtast; hin spænska Belle Epoque, Hedd Wyn frá Bretlandi, Brúðkaupsveislan frá Hong Kong og víetnamska myndin Ilmurinn af grænum papæja. Ekki gerir orðsporið þær líklegar til að veita hinni sigurstranglegu Far vel frillan mín umtalsverða samkeppni. Hún er ein minnisstæðasta mynd sem komið hefur frá Austurlöndum fjær eftir að aldurinn fór að færast yfir Kurosawa. Hinar eru vissulega óséðar og Brúðkaupsveislan hefur vakið talsverða athygli, einkum á meðal minnihlutahópa, en myndin tekur að sögn á málum samkynhneigðra af óhlutdrægni. Það dugar henni þó að líkindum skammt.

1. Far vel frillan mín

Besti leikstjórinn

Það er hollt að hafa hugfast að besta myndin á það til, oftar en ekki, að vinda uppá sig við verðlaunaveitingarnar og altítt að a.m.k. leikstjóri hennar fái einnig Óskarinn. Ég gef mér það að Listi Schindlers fari með sigurlaunin í ár og þá Spielberg sömuleiðis. Nú gefst akademíunni tækifæri að bæta undrabarninu skarðan hlut á umliðnum árum og margir eru þeirrar skoðunnar að hún grípi það fegins hendi. En það sem vitaskuld vegur þyngst á metunum er að Listi Schindlers hefur allt það til brunns að bera sem prýtt getur sigurvegara.

Sú skoðun er ráðandi á þessum bæ að Bandaríkjamaðurinn James Ivory hafi aldrei gert betur en nú, Dreggjar dagsins hafi vinningin yfir Herbergi með útsýni, Hávarðsenda og fleiri listagóðar myndir leikstjórans. Ef akademían gengur framhjá Spielberg eina ferðina enn þá verður það Ivory sem hampar Óskarnum í ár. Jim Sheridan er heitur og hér er hann með sitt langbesta verk frá því hann gerði Vinstri fótinn árið 1989. Það væri synd að segja annað en að óvissan réði hér ríkjum. Jane Campion og Robert Altman eiga þó að öllum líkindum sáralitla möguleika.

1. Steven Spielberg

2. James Ivory

3. Jim Sheridan

Besti karlleikari ársins

Eftir að hafa séð Tom Hanks ummyndast úr ungum lögfræðing á uppleið í dauðvona eyðnisjúkling, taldi ég hann vissan um sigurinn. Hanks er aukinheldur afar vinsæll leikari í sínu heimalandi og hin geðþekkasta persóna. Myndin sú fyrsta sem tók á málum eyðnismitaðra í stórmyndaflokknum, áhrifarík og meiningin góð. En þessi nýjasta mynd Jonathans Demmes einfaldar hlutina óneitanlega og fyrir bragðið verður hún eilítið yfirborðskennd. Möguleikar Hanks minnkuðu óneitanlega eftir að maður varð vitni að enn einum stórleik Daniels Day-Lewis í Í nafni föðurins. Day-Lewis er einn af bestu yngri leikurum okkar tíma og hlaut Óskarinn eftirsótta árið 1989 fyrir Vinstri fótinn. Hann væri nokkuð öruggur í ár ef ekki kæmi til frammistaða Anthonys Hopkins í Dreggjum dagsins. Hver getur gengið framhjá þessum leiksigri? Hopkins hlaut reyndar Óskarsverðlaunin fyrir aðeins þremur árum fyrir kraftmikla frammistöðu sína í Lömbin þagna. Hlutverk hans í Dreggjum dagsins er miklum mun dýpra og hér kemur ekkert gervi til hjálpar. Hopkins kemur ógleymanlega til skila öllum þeim átökum sem hið húsbóndaholla hjú byrgir innra með sér, einmannaleikanum, sársaukanum, söknuðinum, af þvílíkri snilld að árangurinn minnir á bestu landa hans í leikarastétt, meistarana John Gielgud, Alec Guinnes, Ralph Richardson og Lord Laurence Olivier.

Laurence Fishburne er einn af bestu skapgerðarleikurum Hollywood og er eftirminnilega góður sem rustinn Ike Turner í Tinu en Liam Neeson á líklega hvað minnstu möguleikana að vinna í þeim tólf flokkum sem Listi Schindlers keppir í í ár. Stendur þessi ágætisleikari sig þó með láði. Robin Williams hlaut ekki náð fyrir augum akademíunnar í ár, sjálfsagt hefur Mrs. Doubtfire verið talin heldur léttvæg, það skyggir þó ekki á stórkostlega frammistöðu eins langbesta gamanleikara okkar tíma.

1. Anthony Hopkins

2. Daniel Day Lewis

3. Tom Hanks

Besti kvenleikari í aðalhlutverki

Hér stendur slagurinn á milli tveggja afburðaleikara. Hinnar virtu Emmu Thompson í Dreggjum dagsins og Holly Hunter, sem bar Píanóið uppi. Í mínum huga kemur engin önnur en Hunter til greina. Hún getur ekki notað tungutakið sér til framdráttar í hlutverki hinnar sorgbitnu konu sem neitar að tala í Píanóinu. Svo frammistaða hennar er enn stórkostlegri fyrir bragðið. Hún lét þögnina tala, gnæfði yfir myndina og gaf henni reisn. Emma Thompson er frægari og virtari og stendur sig eftirminnilega í Dreggjum dagsins, en hverfur þar örlítið í skuggann af stórleik Hopkins og hlutverk hennar ekki jafn burðarmikið. Og aðeins tvö ár síðan hún fékk Óskarinn fyrir Hávarðsenda. Þar var hún í fararbroddi. Þá er Angela Bassett ótalin, en hún fór óaðfinnanlega með hádramatískt hlutverk söngkonunnar hressu, Tinu Turner, í Tinu. Sú mynd, þó góð sé, er ekki í alveg sama gæðaflokki og Píanóið, að maður tali ekki um Dreggjar dagsins, en það er eins gott að afskrifa hana ekki alveg.

Six Degrees of Seperation og Shadowlands eru veigaminni myndir, því ókunnari akademíumeðlimum sem öðrum. Þær Stockard Channing og Debra Winger, miklar ágætisleikkonur báðar tvær, eiga því hverfandi möguleika í ár.

1. Holly Hunter

2. Emma Thompson

3. Angela Bassett

Besti karlleikari í aukahlutverki

Í þessum flokki getur svo sannarlega allt gerst, fjórir af fimm koma sterklega til greina. Hér saknar maður engu að síður Seans Penns sem stóð sig frábærlega vel sem kókfíkillinn, lögfræðingur Al Pacino, í Carlito's Way og Bens Kingsleys í Lista Schindlers. En myndin hans Spielbergs á sinn fulltrúa hér, sem og í flestum öðrum flokkum í ár. Sá er bretinn Ralph Fiennes, kunnur sviðsleikari í heimalandinu og sýnir mögnuð tilþrif sem Amon Goeth, SS-foringinn illi, í afar neikvæðu hlutverki sem að öllu jöfnu er ekki í náðinni hjá akademíunni. Óskadrengurinn hennar í ár er að öllum líkindum Tommy Lee Jones og hann á ekkert nema gott skilið fyir reffilega túlkun sína á lögregluforingjanum í Flóttamanninum. Og Jones er virtur og vinsæll fyrir vestan í dag. Engu að síður er sú skoðun ríkjandi á þessum bæ að Pete Postlethwaite standi sig best í þessum hópi. Það er aðdáunarvert að sjá virðinguna og reisnina sem hann glæðir hlutverk föðurins í Í nafni föðurins, á hverju sem gengur í lífi þessa lánlausa manns. Þá er kameljónsins Johns Malkovich enn ógetið, en þessi hæfileikaríki leikari sýndi á sér margar hliðar í myndinni Í skotlínunni, með góð gervi sér til fulltingis. En myndin sú var frumsýnd í sumar og því farið að fenna yfir afrek Malkovich. Hann á þó engu að síður sína möguleika, en það verður tæpast sagt um Leonardo DiCaprio sem hlaut þó mjög góða dóma fyrir þátt sinn í Hvað nagar Gilbert Grape?.

1. Pete Postlethwaite

2. Tommy Lee Jones

3. Ralph Fiennes

Besti kvenleikari í aukahlutverki

Hollt er að hafa í huga hvernig úrslitin fóru í þessum flokki í fyrra (og það á svo sannarlega við um alla flokkana ef útí þá sálma er farið). Þá skaut ung og óþekkt gamanleikkona, Marisa Tomei, hinum virtu og góðkunnu Susan Sarandon, Judy Davis, Joan Plowright og Vanessu Redgrave, ref fyrir rass og gekk af hólmi með sigurinn. Rosie Perez er á svipuðum slóðum og Tsomei í fyrra. Hún hlaut mikið lof fyrir leik sinn í Óttalaus, sem er ein örfárra tilnefndra mynda sem ekki er komin til landsins. Hún er því óséð og ungfrú Perez, sem stóð sig með prýði í Hvítir geta ekki troðið, til alls vís. Tilnefning Emmu Thompson kemur á óvart. Hún er vissulega vammlaus sem verjandinn í Í nafni föðurins en það er ekki kröfuhart hlutverk. Sama máli gegnir um hina níu ára gömlu Önnu Paquin í Píanóinu og Holly Hunter í Fyrirtækinu. Svo böndin berast að Winonu Ryder, sem er fínleg og brothætt í Öld sakleysisins. Ryder er, ásamt Juliettu Lewis og örfáum öðrum, í hópi langbestu leikkvenna Hollywood af ungu kynslóðinni.

1. Winona Ryder

2. Emma Thompson Besta frumsamda handritið

Ekki lagast það. Öll eru þessi handrit ágæt útaf fyrir sig en ekkert þeirra framúrskarandi. Með því að beita útilokunaraðferðinni ætla ég að strika strax út Dave, Philadelphiu og Í skotlínunni. Halla mér þess í stað að Píanóinu og Svefnlaus í Seattle og spái Píanóinu naumum sigri.

1. Jane Campion/Píanóið

2. Nora Ephron/Svefnlaus í Seattle

Besta handritið byggt á áður birtu efni

Hér kljást fjórir, snjallir handritshöfundar um sigurinn. Þau Jim Sheridan, Steven Zaillian og Ruth Prawer Jhabvala fyrir Í nafni föðurins, Lista Schindlers og Dreggjar dagsins. Og þá er ógetið þeirra Martins Scorseses og Jay Cocks sem gera afar góða hluti í kvikmyndagerð skáldsögu Edith Wharton, Öld sakleysisins.

Ef ég hitti naglann á höfuðið ætti akademían að senda mér svosem eins og einn Óskar, takk fyrir. Hér getur verðlaunasópskenningin spilaða inní, en ég tek allshugar ofan fyrir frú Jhabvala. Þó hún hafi handfjatlað verðlaunin síðast í fyrra og sé hér eina ferðina enn að kafa í verk E.M. Forsters, þá gerir hún það af slíkri snilld og smekkvísi að ég set Zaillian í annað sætið. Scorsese og Cock ekki langt undan. Skil William Nicholson (Shadowlands) eftir úti í kuldanum.

1. Ruth Prawer Jhabvala/Dreggjar dagsins

2. Steven Zaillian/Listi Schindlers

3. Martin Scorsese og Jay Cocks/Öld sakleysisins

4. Jim Sheridan og Terry George/Í nafni föðurins

Besti kvikmyndatökustjórinn

Hér fer einvalalið, sem annars staðar. Fyrst skal frægan telja Michael Chapman, sem vísast verður getið sem "Íslandsvinar" um ókomna framtíð - ef Saga Kjartans verður að veruleika! Chapman hefur verið, ásamt keppinaut sínum í ár, Corad L. Hall, í fylkingarbrjósti tökusnillinga vestan hafs um langt skeið. Janusz Kaminski er hins vegar lítt þekktur líkt og Stuart Dryburgh. Hin undurfagra taka og lýsing Gu Changwei í Far vel frillan mín, á litla möguleika í orrustunni við hákarlana. Hér er mjótt á mununum sem annars staðar en það má mikið vera ef Kaminski hinn pólski hrósar ekki sigri. Kvikmyndatöku Conrads Hall er viðbrugðið, hinir afturámóti færri sem þekkja til myndarinnar Leitin að Bobby Fischer, sem kolféll og dó drottni sínum á örfáum vikum. Slíkar myndir hafa aldrei þótt vænlegar til vinnings.

1. Janusz Kaminski/Listi Schindlers

2. Michael Chapman/Flóttamaðurinn

3. Conrad L. Hall/Leitin að Bobby Fischer

Þá eru allir helstu flokkarnir upptaldir en ekki kæmi á óvart þó Listi Schindlers hirði að auki Óskarsverðlaunin fyrir bestu búningana, listræna stjórnun og tónlistina. Verðlaun fyrir besta lagið fellur í hlut Philadelphiu en Mrs. Doubtfire fyrir förðun, Á ystu nöf, fyrir sjónrænar brellur (a.m.k. ærði hún eftirminnilega upp lofthræðslu undirritaðs). Og þá er að þrauka framá þriðjudaginn.

Óvissa er orð dagsins.

Árið 1993 fæddi nefnilega af sér fáeinar afburðamyndir sem munu halda þessu ártali í heiðri á síðum kvikmyndasögunnar.

Dreggjar dagsins

Listi Schindlers

Píanó

Í nafni föðurins

Flóttamaðurinn