ÍSLAND UNDIR JÖKLUM Helgi Björnsson jöklafræðingur hefur verið ráðinn prófessor í jöklafræðum við Háskólann í Osló. Hann mun þó jafnframt halda vísindamannsstöðu sinni við Raunvísindastofnun og stunda hér rannsóknir.

ÍSLAND UNDIR JÖKLUM Helgi Björnsson jöklafræðingur hefur verið ráðinn prófessor í jöklafræðum við Háskólann í Osló. Hann mun þó jafnframt halda vísindamannsstöðu sinni við Raunvísindastofnun og stunda hér rannsóknir. Á næsta ári er að ljúka könnun og íssjármælingum hans á öllum stóru jöklunum hér á landi, á undirlagi þeirra og yfirborði. Hefur þar komið í ljós að margt býr undir jökulísnum.

eftir Elínu Pálmadóttur

JÖKLARANNSÓKNIR hafa verið mjög öflugar á Íslandi á undanförnum áratugum undir forustu dr. Helga Björnssonar jöklafræðings. Það hefur ekki farið fram hjá Norðmönnum, sem leitað hafa til hans um að taka að sér prófessorsstöðu í jöklafræðum við Háskólann í Osló. Helgi hefur umsjón með þeim stúdentum sem eru að búa sig undir meistarapróf og doktorsgráðu í jöklafræðum við Háskólann í Osló, en jafnframt heldur hann áfram sínu fulla starfi við Raunvísindastofnun. Þannig nær Oslóarháskóli tengslum við þessar öflugu jöklarannsóknir hér á landi og Helgi fær tengsl við doktorsnemendur og samstarf við þá um rannsóknir. Er hugmyndin að Helgi þrói námskeið í jöklafræði fyrir doktorsefni við aðra norska háskóla og jafnvel háskóla annars staðar á Norðurlöndum. Í rúman áratug hafa Helgi og samstarfsmenn hans skipulega verið að kanna landið undir jöklum landsins, bæði botninn og yfirborðið, og sér nú fyrir endann á því verki. Því er nú hægt að skoða á korti undirlagið undir jöklunum og segja til um hvert ís og bræðsluvatn rennur ef einhver umbrot eru þar og ráða í framhaldið, sem er ómetanlegt vegna mannvirkja og almannavarna. Við ræddum við Helga um stöðu þessara merkilegu jöklarannsókna.

ælingar og könnun á undirlagi jöklanna er gerð með svonefndri íssjá, sem hefur verið þróuð og smíðuð á Raunvísindastofnun Háskólans undir stjórn Helga Björnssonar. Hafa mælingarnar gengið mjög vel og er þeim að ljúka á öllum stóru jöklunum.

"Við erum búnir með Mýrdalsjökul og Hofsjökul. Á Vatnajökli er allt mælt nema syðsti hluti Skeiðarárjökuls, sem við klárum í vor. Skriðjöklarnir bröttu, sem falla niður í Austur-Skaftafellssýslu, hafa verið látnir bíða, og væri hægt að ljúka þeim líka á næsta ári. Þá er aðeins eftir einn stórleiðangur á Langjökul, sem áform eru um að fara næsta sumar. Þá hafa allir stórjöklarnir verið mældir," segir Helgi þegar hann er spurður hvar þetta verk sé statt.

Hann bætir við að þegar búið sé að fá yfirlit yfir botninn undir jökli, vitað sé hvar eldstöðvar eru og hvernig jökullinn skiptist á fallvötnin, sem mörg hafa verið virkjuð, þá hafi í framhaldi verið farið í að skoða afkomu jökulsins, hve mikið bætist ofan á, hvernig það hreyfist sem ís og rennur svo sem vatn frá honum. "Þetta er mikilvægt fyrir virkjanir og vegagerð og einnig fyrir almannavarnir. Ef til dæmis verða jarðskjálftar sem benda til eldsumbrota, þá getum við núna litið á kortin og séð hvert jakar og vatnsflóð muni falla. Þar geta verið mannvirki, vegir og brýr."

Nýjasta dæmið er Katla, sem reynist vera 110 ferkílómetra askja, hulin jökli. "Ef jarðfræðingarnir geta spáð um hvar eldgosið kemur upp, þá get ég nú litið á kortið og séð hvert flóðið fer, hvort það kemur fram á Mýrdalssand, á Sólheimasand eða vatnið fer í Markarfljót. Á 70 ferkílómetra svæði innan öskjunnar féllu jökulhlaupin niður Mýrdalssand, en 20 ferkílómetra til hvors hinna."

20 km fjörður undir jökli

Annað dæmi um gagnsemi þess að geta séð undir jökulhettuna er Jökulsárlónið, þar sem kom í ljós 20 km langur fjörður sem liggur úr því og inn undir Breiðamerkurjökul, 200­300 metrum undir sjávarmáli. Sú vitneskja er mjög mikilvæg, því þarmeð er borin von að jökullinn hörfi upp úr lóninu og hægt verði að leggja veg þar fyrir framan. Þetta verk var unnið fyrir Vegagerðina, sem á þarna mikilla hagsmuna að gæta vegna hringvegarins. Og Landsvirkjun tók einnig þátt í verkinu. Sjórinn hefur undanfarin ár árlega tekið um 8 metra af ströndinni, og nálgast veginn eins og hann liggur núna milli lónsins og sjávar. Skýringin er sú, að eftir að lónið myndaðist, um 1930, hætti aurburður frá jöklinum fram í sjó og fer í staðinn í lónið. Þá er ekkert sem vegur á móti því sem sjórinn brýtur af landi. Sjórinn hefur betur. Með sama áframhaldi sækir hann stöðugt nær veginum og brúnni. Getur grafið sér leið upp í lónið og rofið alveg veginn, sem er hringvegurinn sunnan Vatnajökuls. Menn höfðu verið að gera því skóna að þegar jökulinn styttist og hörfaði upp úr lóninu yrði hægt að færa veginn milli jökuls og lóns. En svo fundu Helgi og hans menn þennan langa fjörð út úr lóninu inn undir jökulinn og mældu hann. Þarmeð fór sú von. Varð nú að leita annarra ráða. Sem kunnugt er hafa Vegagerðamenn verið að velta ýmsum úrræðum fyrir sér. M.a. að flytja veginn með brúnni ofar og fá frest. Þar sem sjórinn gengur inn og út úr lóninu hafa komið fram hugmyndir um að setja þar einhvers konar þröskuld, til að draga úr rofi í árfarveginum, sem gæti grafið undan brúnni. Og loks hafa heyrst hugmyndir um að flytja Jökulsá til, fara með hana austar. Þetta er gott dæmi um gagnsemi þess að vita hvað undir býr þar sem jöklar eru.

Helgi segir að næsta skref sé mælingaferð á Skeiðarárjökul, sem þeir byrjuðu að kanna í fyrra. Tóku þá efri hlutann og komust niður undir Grænalón, og ætla nú að snúa sér að því að ljúka þar mælingum. En eftir er jökullinn neðan við 1.100 metra hæð. "Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Vegagerðina, eins og við höfum gert í mörg ár. Skeiðarárjökull hljóp fram 1991. Þá urðu miklar breytingar á afrennsli vatns frá honum meðan á framhlaupinu stóð. Vatn kom þá víða undan jöklinum og menn höfðu áhyggjur af því að það færi í gamla farvegi og þá á veginn þar sem engar brýr eru. Vegurinn var lagður þarna 1974 í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar, sem kunnugt er," segir Helgi. Þegar hann er spurður hvort hann haldi að hringvegurinn sé í hættu vegna jökulsins, svarar hann aðeins: "Meðan jökullinn er þarna, er margs að gæta, því að undan honum falla jökulhlaup frá Grímsvötnum og jökullinn sjálfur hleypur fram. Og þegar spurt er verðum við að þekkja þennan jökul betur og vita hvað þar er til þess að fá nánar svar við því hvað getur gerst. Til þess er verið að afla gagna."

Skriðjöklar Vatnajökuls hreyfast of hægt

Við víkjum að þeim þætti jöklarannsókna sem snýr að hegðun jöklanna. "Verkefnið er að ná gögnum um hreyfingar jökulsins, um snjóinn sem bætist á hann og afrennslið frá honum. Í samstarfi við Landsvirkjun byrjuðum við fyrir 8 árum að afla gagna um þetta og mæla. Þá kom fljótlega í ljós að flestir skriðjöklar Vatnajökuls hreyfast ekki nægilega hratt til þess að bera fram þann ís eða snjó sem á þá safnast. Þá hleðst snjórinn upp á hájöklinum og skriðjöklarnir verða síbrattari, þar til þeir hlaupa fram eins og Síðujökull gerir nú. Það virðist vera þeirra eðli. Þeir bera ekki ísinn nægilega hratt og samfellt fram, þar til þetta endar með ósköpum. Spennan undir þeim verður svo mikil að vatnsgöng við botn eyðileggjast og vatn hættir að geta runnið greitt fram og dreifir úr sér svo að jökullinn flýtur fram á vatnslagi eða á vatnsósa setlögum. Þessvegna var ljóst fyrir 5 árum að stefndi í framhlaup í Síðujökli og fyrir tveimur árum sást að hann herti á sér, fór sífellt hraðar. Í fyrra lá ljóst fyrir að framskriðið var hafið."

Sama er að gerast í Tungnaárjökli. Árið 1986 kom í ljós að hreyfingin í jöklinum var ekki nema helmingurinn af því sem þurft hefði og því hlaut að stefna í framhlaup. Tungnaárjökull er farinn að herða á sér, hreyfist nú 7 sinnum hraðar en hann gerði 1986. Frá Tungnaárjökli kemur vatnið í margar stórvirkjanir okkar og það hlýtur að vekja spurningu um hvað muni gerast. "Við munum fylgjast með jöklinum. Býðum í ofvæni eftir að sjá hvað hann gerir," segir Helgi hinn rólegasti.

"Hvað virkjanirnar snertir hefur framhlaup vissa kosti, en líka ókosti. Þegar svona jöklar hlaupa fram stóreykst aurburður, sem berst fram í lónin. Vatnið verður eins og korgur og ekki gaman að fá það í túrbínurnar. Svo geta komið flóð undan jökli. En ég reikna með að nægilega langt sé frá jöklinum að virkjununum til þess að þeir ráði við slík flóð og á leiðinni eru uppistöðulón, sem geta tekið við vatninu. Kostirnir fyrir virkjanirnar eru margir. Eftir framhlaupið verður í langan tíma aukið vatnsmagn frá jöklinum. Jökullinn er sundurtættur og sprunginn og hlýtt loft kemst betur að til að bræða hann. Auk þess hefur í framhlaupum borist snjór frá hájöklinum niður á leysingasvæðið, þar sem bráðnun er mikil. Þetta er margra áratuga úrkoma, sem hefur safnast á hájökulinn, og berst skyndilega í framhlaupum niður á leysingssvæðið og þaðan sem vatn út í árnar. Þetta er því athyglivert vegna virkjananna vegna þess að það veldur sveiflum í afrennsli sem ekki stafa af loftslagsbreytingum. Vatnsrennsli í árnar eykst og hægt er að vera ánægður með það."

Við þetta má bæta að fleiri virkjaðar ár koma undan skriðjöklum af þessari gerð, svo sem úr Köldukvíslarjökli, Dyngjujökli, að ekki sé talað um Brúarárjökul, sem hljóp fram um 8 metra 1963 með miklum tilþrifum.

Íslenskar jöklarannsóknir og norsk doktorsefni

Gerð korta af botni og yfirborði á öllum stóru jöklunum hefur gengið mjög vel. Ekki eru nema 20 ár síðan Helgi fór að hugsa um slíkar mælingar og 15 ár síðan þær hófust af fullum krafti. Jöklarannsóknir eiga sér lengri sögu á Íslandi. Jöklarannsóknafélagið var stofnað til slíkra rannsókna fyrir 30 árum undir forustu Jóns Eyþórssonar og dr. Sigurðar Þórarinssonar. Stofnanir eins og Raunvísindastofnun Háskólans, Landsvirkjun, Vegagerðin og Orkustofnun hafa löngum lagt hönd á plóginn við jöklarannsóknir. Þá hafa Rannsóknasjóður Eggerts V. Briem, Rannsóknasjóður Háskólans og Vísindasjóður ásamt Landsvirkjun og Vegagerð haldið uppi þessum rannsóknum, því fjárveitingum til Raunvísindastofnunar hefur alla tíð verið þröngur skorinn stakkur. Sjálfur hefur Helgi verið tengdur Jöklarannsóknafélaginu frá 1963, er hann fór fyrst að fara á jökul, og er hann nú formaður félagsins. Norðmenn hafa fylgst með þessum öflugu jöklarannsóknum hér á landi og með Helga Björnssyni, sem stundaði á sínum tíma nám við Oslóarháskóla. Því sóttust þeir nú eftir að fá hann sem prófessor til leiðbeiningar fyrir þá sem lengst eru komnir í þeim fræðum, doktorsefni og þá nemendur sem eru að búa sig undir meistarapróf. Það er prófessorsstaða með öllum réttindum, sem þeir bjóða vísindamönnum utan skólans, er þeir sækjast eftir Helga Björnssyni í. Helga telst svo til að hann verði þar í 20% starfi. Hann hyggst efna til tveggja strangra þriggja vikna námskeiða í jöklafræði haust og vor og vera svo í sambandi við skólann og nemendur þess á milli. Það sé auðvelt með nútíma samskiptatækni. Í framhaldi segir hann stefna í að Háskólinn í Osló bjóði öðrum háskólum í Noregi námskeið í jöklafræðum fyrir doktorsefni í jarðvísindum og hefur hann verið beðinn um að undirbúa það. Og jafnframt er talað um að bjóða öðrum háskólum á Norðurlöndum þátttöku í slíkum námskeiðum.

Þegar spurt er hvort Norðmenn eigi nokkra jökla sem talandi sé um, segir Helgi að þeir eigi fjölmarga smájökla í landinu sjálfu. En á Svalbarða eru stórir jöklar og geysimikill áhugi á að efla þar rannsóknir á næstu árum. Svo halda þeir ítökum sínum á Suðurskautslandinu og fara alltaf rannsóknaleiðangra þangað og hafa gert allt frá því Amundsen komst á Suðurpólinn.

Af þessu fyrirkomulagi, að Helgi sé prófessor við Oslóarháskóla, jafnframt því að stunda á Íslandi jöklarannsóknir, er gagnkvæmur ávinningur. Norðmenn eru í tengslum við öflugar jöklarannsóknir hér og Helgi segir að sinn ávinningur sé að fá á móti bein tengsl við nemendur í doktorsnámi og meistaranámi, sem hann hafi ekki hér, þar sem íslenskir nemendur fari gjarnan utan þegar kemur að rannsóknaverkefnunum í háskólanáminu. Auk þess opnist þarna tengsl við þá sem eru í rannsóknum á Svalbarða.

Helgi Björnsson jöklafræðingur

Morgunblaðið/Júlíus og Rax

Við Jökulsárlón. Fremst á myndinni má greina Suðurströndina, þá kemur Jökulsárlónið og hvíta línan sýnir jökuljaðarinn. Upp úr lóninu er 20 km langur fjörður inn undir jökulinn og er botninn 200-300 undir sjávarmáli. Eftir að þessi fjörður kom í ljós með íssjármælingum, er borin von að vegurinn verði færður handan lónsins þótt sjórinn ógni núverandi vegarstæði og brú.

Myndir Helgi Björnsson og Finnur Pálsson.

Mýrdalsjökull reyndist vera 110 ferkm askja, Kötluaskjan. Á myndinni sést landið undir jökli. Horft er í vestur, í átt til Eyjafjallajökuls. Fimmvörðuháls sést fjærst. Askjan er á miðri mynd. Höfðabrekkujökull til vinstri, um skarðið kom hlaupið 1918. Á börmum öskjunnar er Háabunga að sunnan, Kötlukollar að austan, Austmannsbunga að norðan og Goðabunga að vestan. Er eins og sólin gylli tinda þeirra. Askjan er rúmlega 700 metra djúp, botninn í 650 m hæð, en hæstu tindar á Háubungu og Goðabungu í 1.380 m hæð.

Yfirborð Mýrdalsjökuls eins og það sést úr flugvél, en undir felst þessi gríðarmikla Kötluaskja.

Við erum búnir með Mýrdalsjökul og Hofsjökul. Á Vatnajökli er allt mælt nema syðsti hluti Skeiðarárjökuls, sem við klárum í vor. Skriðjöklarnir bröttu, sem falla niður í Austur-Skaftafellssýslu, hafa verið látnir bíða, og væri hægt að ljúka þeim líka á næsta ári. Þá er aðeins eftir einn stórleiðangur á Langjökul, sem áform eru um að fara næsta sumar. Þá hafa allir stórjöklarnir verið mældir,"