FRÉTTALJÓS ÚR FORTÍÐ Ísland danskt jarlsdæmi Dr.

FRÉTTALJÓS ÚR FORTÍÐ Ísland danskt jarlsdæmi Dr. Knud Berlin, sérfræðingur Dana í íslenskum stjórnmálum uppúr síðustu aldamótum, ritaði árið 1910 grein í eitt af dönsku tímaritunum sem hann nefndi: Framtíðarstaða vor gagnvart Íslandi, og leggur þar til að Ísland verði gert að dönsku jarlsdæmi. Ísafold birti laugardaginn 2. apríl 1910 útdrátt úr þessari grein "Með því að dr. Berlin, í Dana hóp, mun talinn spámaður mikill í þessum greinum", eins og segir í formála að grein dr. Berlin í Ísafold.

Í grein sinni getur dr. Berlin þess að Íslendingar hafi sett sér hátt mark: fullvalda konungsríki, en heldur því fram að í raun réttri muni kjör Íslands, undir jarli, gerðum út af dönsku krúnunni, bæði frjálslegri og öruggari en þau, er í vændum væru, ef Ísland gerðist sérstakt konungsríki eða lýðveldi ­ á kafi í flokkadráttum.

Ísafold getur þess jafnframt að dr. Berlin ætlist auðvitað til að jarlinn verði Dani og stöðu Íslands, sem "hluta Danaveldis", verði ekki rift að neinu leyti. Dr. Berlin bendir á í grein sinni, að jarlsstjórn eða landstjórafyrirkomulag sé gömul íslensk hugmynd, runnin frá sjálfum Jóni Sigurðssyni og margsamþykkt af alþingi í frumvarpsformi, og fer allhörðum orðum um nærsýni Dana, er þeir neituðu samþykkt þess. Dr. Berlin klykkir út með því að lýsa því yfir, að hann hafi sjálfur ritað á móti jarlshugmyndinni 1907 af því að hann hafi þá búist við, að Íslendingar myndu láta sér lynda status quo með smávegis formbreytingum. En eins og sakir standi nú, álíti hann að ástæða sé til að koma hreyfingu á jarlsfyrirkomulag, ef Íslendingar óski þess.

Í Ísafold 7. maí 1910 segir frá því að félagið Landvörn hafi á fundi skömmu áður rætt um stjórnarfyrirkomulag hér á landi með landstjórn eða jarli. Jón Þorkelsson dr. phil. og Þorsteinn Erlingson skáld tóku þar til máls og leiddu báðir mörg rök að því að slíkt stjórnarfyrirkomulag með dönskum jarli, sem ekki bæri ábyrgð fyrir neinu valdi innanlands, heldur fyrir konungi einum, og sérstaklega mundi ætlað að reka hér erindi Dana og gæta hagsmuna þeirra á landi hér, "væri, eftir því sem nú væri komið stjórnarfari voru, afar viðsjárvert á marga vegu". Loks var þess getið, að jarlsfyrirkomulaginu hefði enginn á fundinum lagt liðsyrði.

Bæjarsamfélag er að vaxa upp. Krakkar á Vesturgötunni í Reykjavík (Útg. Thomsens Magasin).

2

Hinn 11. júlí tók til starfa "Gasstöð Reykjavíkur". Gasstöðin stendur við Rauðarárlæk. - Carl Francke frá Bremen hefur samkv. samningi við bæjarstjórn Reykjavíkur byggt gasstöðina og komið gasæðunum fyrir í götum bæjarins.