Mark Page aðalráðgjafi Drewrys ráðgjafarfyrirtækisins Efast ekki um að upplýsingarnar séu réttar "ÞAÐ virðist vera einhver ruglingur þarna á ferðinni og kannski á ég einhverja sök á því að hafa ekki gert nægilega skýra grein fyrir þessi í ræðu minni á...

Mark Page aðalráðgjafi Drewrys ráðgjafarfyrirtækisins Efast ekki um að upplýsingarnar séu réttar "ÞAÐ virðist vera einhver ruglingur þarna á ferðinni og kannski á ég einhverja sök á því að hafa ekki gert nægilega skýra grein fyrir þessi í ræðu minni á ráðastefnunni, þar sem ég reyndi að draga saman aðalatriðin úr mikilli skýrslu í stuttri ræðu," segir Mark Page, aðalráðgjafi Drewry Shipping Consultants, í samtali við Morgunblaðið um þá gagnrýni, sem komið hefur frá talsmönnum skipafélaganna á samanburð ráðgjafarfyrirtækisins á flutningsverði til og frá landinu.

Mark Page sagði að grundvallarupplýsingunum um flutningskostnað til og frá Íslandi, sem útreikningar í skýrslu Drewrys byggðust á, hefði Félag íslenskra stórkaupmanna safnað saman á Íslandi og sent til fyrirtækisins í London. "Þær upplýsingar sýndu flutningskostnað í íslenskum krónum miðað við þyngd vörunnar í tonnum. Ég hef enga ástæðu til að ætla að þessar upplýsingar séu ekki að öllu leyti réttar. Það var ljóst að þær komu ekki beint frá skipafélögunum. Þær eiga að mínu mati að vera hundrað prósent réttar. Það var hins vegar nauðsynlegt, til að færa þessar tölur úr íslenskum krónum miðað við tonn yfir í áætlaðar tekjur af hverjum gámi, að umreikna bæði milli gjaldmiðla og til að finna út meðalþyngd hverrar gámaeiningar. Það var gert hér í London. Þannig fengust áætlaðar tekjur miðað við hvern gám, eins og greint var frá á ráðstefnunni og fram kom í skýrslunni," sagði hann.

Meðalverð

Mark Page sagði hugsanlegt að um lítilháttar ónákvæmni væri að ræða við umreikninginn yfir meðalþyngd gáma. Upplýsinganna hefði verið aflað frá ýmsum aðilum og þær byggðust á gögnum frá Reykjavíkurhöfn. "Þær eiga að vera mjög nálægt raunverulegri nýtingu þótt ekki sé hægt að útiloka einhverja smávægilega skekkju. Ég er þess vegna mjög sáttur við þær upplýsingar líka og sé þeim bætt við upprunalegu upplýsingarnar frá Íslandi þá eru tölurnar að mínu mati mjög nákvæmar," sagði hann.

Mark Page sagðist telja að misskilningurinn hafi snúist um það, að fulltrúar Eimskips og Samskipa hafi lýst yfir efasemdum um að gámaflutningsverðið sem er sýnt í skýrslunni í bandaríkjadollurum væri rétt, þar sem fram kemur að meðaltalskostnaður sé 2.500 dollarar fyrir 20 feta gámaeiningu í flutningum frá Norður-Ameríku til Íslands. "Ég vil taka fram að þetta er meðalverð, sumir greiða hærra verð og aðrir lægra verð. Þeir sem greiða lægra verð, eru að öllum líkindum þeir flutningskaupendur sem flytja vörur sínar í fullhlöðnum gámum og fá afslátt af flutningsgjöldum vegna þess. Mér skilst hins vegar að stór hluti af vöruinnflutningi til Íslands sé fluttur í smáum förmum til innflytjenda sem nýta sér ekki gáma. Þeir þurfa að greiða eftir rúmmáli vörunnar eða þyngd hennar og í þeim tölum, sem við höfum áætlað er tekið tillit til þeirrar staðreyndar að þeir greiði mun hærri flutningsgjöld en innflytjendur sem fá vörur sínar fluttar í fullhlöðnum gámum. Þær tölur sem ég setti fram í skýrslunni og benti á á ráðstefnunni eru meðaltöl þessara mismunandi flutningsmáta. Það sem tölurnar sýna raunverulega, reiknað í gámaeiningum, eru áætlaðar meðaltekjur sem skipafélögin fá fyrir hvern gám sem þau flytja yfir hafið. Þetta eru sömu aðferðir og notaðar eru við samanburð á fragtflutningum á öðrum mörkuðum. Það er einfaldlega verið að sýna hversu miklar tekjur skipafélög fá fyrir þá farma sem þau flytja. Þarna er því ekki endilega um sömu upphæðir að ræða og einstakir innflytjendur greiða fyrir fullhlaðinn gám en í heildina tekið sýna þær meðaltekjur skipafélaganna af gámaflutningum," sagði hann.

Hærri en kostnaður gefur tilefni til

Mark Page var inntur álits á því sem haldið hefði verið fram að aðstæður á Íslandi væru ekki samanburðarhæfar að þessu leyti þar sem ekki væri tekið tillit til ýmissa kostnaðarliða innanlands. Hann svaraði því til að það hefði engin áhrif á þessa útreikninga. Hins vegar hefðu talsmenn skipafélaganna nokkuð til síns máls varðandi tvö atriði. Annars vegar varðandi útflutning, því á Íslandi væri um að ræða mjög hátt hlutfall útflutningsvara sem fluttar væru í frystigámum frá landinu. Slíkir gámar væru dýrari en venjulegir sem endurspeglaðist í hærra flutningsverði heldur en af vörum sem fluttar væru í venjulegum gámum. Í samanburði við flutninga á öðrum mörkuðum væri hlutfall flutninga í frystigámum frá Íslandi mjög hátt. Í öðru lagi væru ýmsar séraðstæður á hverjum markaði "Mér dettur ekki í hug að að halda því fram að flutningsgjöld ættu að vera alveg þau sömu á öllum svæðum. Þar geta komið til kostnaðarliðir vegna séraðstæðna á hverju svæði sem réttlæta að einhverju leyti hærri gjöld," sagði Mark Page en benti á að meginniðurstaða skýrslunnar væri sú að sá mikli flutningskostnaður, sem kæmi sérstaklega fram í innflutningi til Íslands virtist vera mikið hærri en svo að hægt væri að réttlæta hann með því að vísa til sérstakra aðstæðna hér á landi.

Morgunblaðið/Þorkell

Sérfræðingurinn

MARK Page flytur erindi sitt á fundi Félags íslenskra stórkaupmanna í vikunni.