Vitleysuráð Íslands Halldóri M. Baldvinssyni: Það er ekki öll vitleysan eins þegar Verslunarráð Íslands er annars vegar.

Vitleysuráð Íslands Halldóri M. Baldvinssyni: Það er ekki öll vitleysan eins þegar Verslunarráð Íslands er annars vegar. Nú síðast hefur heyrst í fjölmiðlum að það ætli að fara hringla í klukku okkar landsmanna, öllum til ama og leiðinda og engum til gagns. Ráðið vill taka upp svokallaðan sumartíma og er ástæðan sú samkvæmt framkomnum "rökum" Vilhjálms Egilssonar framkvæmdastjóra ráðsins, að þegar helstu viðskiptaþjóðir okkar taka upp sumartíma á vorin þá henti okkar tími illa í samskiptum við þær. M.a. hefur verið látið í veðri vaka hjá Vilhjálmi hinum Vísa, að þegar "við" erum að fara á stjá á morgnana þá séu okkar viðskiptamenn í V-Evrópu að fara í mat. Síðan þegar "við" komum úr mat séu þeir að fara á fund og þar fram eftir götunum. Það má vera að framangreindar fyrirætlanir séu byggðar á prívat-skoðunum Vilhjálms Egilssonar sjálfs, sem hlýtur eiginlega að vera því meiri líkur eru á því að einn maður sé svo vitlaus heldur en allt Verslunarráðið! Skyldi Vilhjálmi nokkurn tíma hafa dottið í hug að vakna eins og klukkutíma fyrr á sumrin? Skyldi honum nokkuð hafa dottið í hug að stundum taka fyrirtæki og stofnanir upp á því að breyta opnunartíma hjá sér yfir sumartímann?

Ekki er ein báran stök því Vilhjálmur vill einnig færa lögboðna frídaga eins og uppstigningardag og sumardaginn fyrsta fram á sumar. Maður er eiginlega hissa á því að Vilhjálmur vilji ekki stíga skrefið til fulls með því að færa jólin og páskana fram á sumar svo hægt sé að skeyta þeim við sumarfríið!

Allir vita hversu mikla röskun það hafði í för með sér hringlið með klukkuna fyrir svo sem 25 árum og ætti það mál að vera fyrir löngu afgreitt. Nema að vinkonur Vilhjálms, beljurnar í Skagafirði, búi yfir svo góðu tímaskyni!

Nei, það er líklega betra fyrir Vilhjálm og Verslunarráðið að einbeita sér að verslun og viðskiptum, en láta aðra sjá um klukkumál.

Vilhjálmur minn, stilltu klukkuna þína á sumrin, kallinn, og hættu þessu drolli fram eftir öllu! Annars er hætta á því að kollegar þínir út í Evrópu séu farnir heim að grilla þegar þú loksins kemst á fætur.

HALLDÓR M. BALDVINSSON,

Æsufelli 2,

Reykjavík.