STÖÐUGT VERÐLAG ER KJÖLFESTAN Seðlabankastjóri Svíþjóðar segir fastgengi og sameiginlegan gjaldmiðil nauðsynleg markmið eftir Steingrím Sigurgeirsson ömul hefð er fyrir því að þegar nýr seðlabankastjóri tekur við í einhverju Norðurlandanna þá byrji hann á...

STÖÐUGT VERÐLAG ER KJÖLFESTAN Seðlabankastjóri Svíþjóðar segir fastgengi og sameiginlegan gjaldmiðil nauðsynleg markmið eftir Steingrím Sigurgeirsson ömul hefð er fyrir því að þegar nýr seðlabankastjóri tekur við í einhverju Norðurlandanna þá byrji hann á því að heimsækja aðra norræna seðlabanka. Um síðustu áramót tók Urban Bäckström við stöðu seðlabankastjóra í Svenska Riksbanken, sænska seðlabankanum. Bäckström er nýjasti og jafnframt yngsti seðlabankastjórinn á Norðurlöndum, einungis tæplega fjörutíu ára gamall. Hann segir þetta í sjálfu sér ekki vera mjög óvenjulegt. Tíu menn hafa gegnt stöðu seðlabankastjóra í Svíþjóð á þessari öld og sex þeirra voru á aldrinum 32-46 ára er þeir tóku við starfinu. Fyrsti norræni seðlabankinn, sem hann heimsækir, er sá íslenski. "Það eru tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi sú að ég hef aldrei komið til Íslands áður. Í öðru lagi að fyrst að ég er yngsti seðlabankastjórinn þá er eðlilegast að ég byrji á því að heimsækja yngsta ríkið," segir Bäckström og brosir.

Sænski seðlabankastjórinn er um margt frábrugðinn þeirri ímynd, sem maður gerir sér af mönnum í hans stöðu. Í fyrsta lagi er það auðvitað aldurinn en einnig útlitið og framkoman. Það er léttur og vinalegur blær yfir Bäckström og maður finnur undir eins að þetta er maður sem á auðvelt með að slá á létta strengi.

Bakgrunnur Bäckströms er fjölbreyttur, hann hefur starfað innan einkageirans, opinbera geirans og í stjórnmálum. "Það sem er óvenjulegt við mína fyrri starfsreynslu er að ég hef verið hótelstjóri. Skýringin á því er að foreldrar mínir reka hótelkeðju og faðir minn varð alvarlega veikur. Ég tók því yfir reksturinn í tvö ár. Að þessu undanskildu hef ég ávallt unnið við hagfræði eða þá fjármálalega hagfræði. Ég hef meðal annars verið forstjóri fjármálafyrirtækis og undanfarin tvö ár bar ég ábyrgð á því að reyna að finna lausn á bankakreppunni í Svíþjóð."

Stjórnmálareynsla ekki stjórnmálastarf

Bäckström hefur einnig komið nálægt stjórnmálum. Hann var tvívegis yfirhagfræðingur Sænska hægriflokksins og þegar hann var skipaður seðlabankastjóri gegndi hann embætti aðstoðarráðherra í fjármálaráðuneytinu. Hversu mikið telur hinn nýskipaði seðlabankastjóri að æskilegt sé að blanda saman stjórnmálum og stöðu seðlabankastjóra? "Ég hef aldrei gegnt pólitískum trúnaðarstöðum. Ég hef aldrei verið kjörinn þingmaður eða sveitarstjórnarfulltrúi. Hins vegar hef ég starfað fyrir stjórnmálaflokk og fyrst og fremst verið aðstoðarráðherra. Ég held að það sé kostur að seðlabankastjóri hafi reynslu af stjórnmálum sem slíkum en hins vegar er ég ekki skipaður í embættið vegna pólitískra starfa minna heldur til að gegna stöðu embættismanns. Það hefur líka verið hugsunin í Svíþjóð að skilja að stjórnmálin og seðlabankann. Þannig er þingið kosið til þriggja ára en seðlabankastjóri til fimm ára í senn. Forveri minn í embætti [Bengt Dennis] var því seðlabankastjóri jafnt undir stjórn jafnaðarmanna sem borgaralegu flokkanna, þrátt fyrir að hann hafði áður verið aðstoðarráðherra í ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins."

Eitt stærsta verkefni Bäckströms á næstu árum verður væntanlega að aðlaga sænskt peningakerfi að hinu evrópska. Með aðildarsamningnum við Evrópusambandið samþykkja Svíar að gerast aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) þar sem markmiðið er að ESB-ríkin taki upp sameiginlega peningastefnu og að lokum sameiginlega mynt í síðasta lagi árið 1999. Hversu vel telur Bäckström að sænskt efnahagslíf sé undir þetta búið? "Við uppfyllum sum skilyrði EMU en önnur ekki. Við stöndumst þær verðbólgukröfur, sem gerðar eru, og þær kröfur, sem gerðar eru til langtímavaxta. Hins vegar stöndumst við ekki kröfur um skuldastöðu ríkisins og halla á fjárlögum."

Fastgengisstefna ekki tímabær

Hann segir erfitt að meta hversu langan tíma það muni taka Svía að aðlaga sig þeim kröfum sem EMU-samstarfið gerir til efnahagslífsins. Svíar eru nýbúnir að ganga í gegnum mestu efnahagskreppu frá því fyrir stríð og 19. nóvember 1992 urðu þeir líkt og t.d. Finnar að hverfa frá fastgengisstefnunni, tengingu við evrópsku mynteininguna ECU, og láta sænsku krónuna fljóta á gjaldeyrismörkuðum. Þrátt fyrir að sænski seðlabankinn hafði hækkað millibankavexti upp í 500% til að reyna að tryggja stöðugleika urðu Svíar að lokum að viðurkenna ósigur í baráttunni um krónuna. "Sá lærdómur sem við höfum dregið af þessu er að við verðum fyrst að koma skikkan á fjármálin áður en við göngum inn í svona samvinnu. Það þýðir að við munum standa fyrir utan Evrópska gengissamstarfið (ERM) þar til að við höfum sjálfir náð innra jafnvægi. Okkar mat er að það muni líða töluverður tími þar til að við getum aftur tekið upp fastgengisstefnu."

Aðspurður vill Bäckström ekki skilgreina nánar hvað felist í "töluverðum" tíma en segir ljóst að um einhver ár sé að ræða.

Þegar síðasta haust byrjaði margt að benda til þess að Svíar væru á leið út úr kreppunni. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs var hagvöxtur 2% sem jafngildir 8% á ársgrundvelli. Var það í fyrsta skipti frá því kreppan hófst að hagvöxtur jókst tvo ársfjórðunga í röð. Fyrst og fremst eru það útflutningsgreinar sænsks efnahagslífs sem standa á bak við þennan hagvöxt en þær hafa notið góðs af hagstæðu gengi krónunnar. Virðist sem gengislækkunin sem orðið hefur frá því í nóvember 1992 hafi nýst útflutningsgreinunum betur en þær gengisfellingar sem urðu á síðasta áratug. Það hafa þó einnig sést greinilegar vísbendingar um að heimamarkaðurinn sé einnig að rétta úr kútnum og benda kannanir til að heimilin hafi ekki verið bjartsýnari varðandi efnahagsþróunina frá því á árinu 1986. Þá virðist bankakreppunni vera lokið og flest bendir til að vaxtamunur muni halda áfram að lækka og öll lánsskilyrði verða hagstæðari í Svíþjóð á næstunni.

Sænska fjármálaráðuneytið sem og seðlabankinn spá því að hagvöxtur verði um 2% á þessu ári og 3% á næsta ári. Fjármálaráðuneytið telur að á árunum 1996-1999 verði meðalhagvöxtur 4% og verðbólga einungis 2%. Hver raunin verður ræðst þó að miklu leyti af því hvernig til tekst í allra nánustu framtíð. Telur seðlabankastjóri Svíþjóðar að það geti ógnað þróuninni í átt að heilbrigðara ástandi í ríkisfjármálunum að árið í ár sé kosningaár. Gæti það hægt á þróuninni í átt að minni fjárlagahalla og opinberri skuldsetningu? "Við sjáum engin tákn þess að menn hyggist leggja fram útþennslufjárlög. Það sem við teljum að sé mikilvægast er að ríkisfjármálin verði í jafnvægi. Núverandi ríkisstjórn hefur lagt mikinn metnað í að ná árangri í þeim efnum og gripið til aðgerða, sem munu skila sér á næstu árum. Það er líka nauðsynlegt að svo verði því annars munum við fá skell á fjármálamörkuðunum. Staðan er samt miklu betri en hún var fyrir einu og hálfu ári. Það var ekki fylgt nógu skynsamlegri stefnu í kjölfar þess að frelsi var aukið á fjármagnsmarkaði. Út frá því litla sem ég þekki til Íslands held ég að hér hafi verið farið mjög skynsamlega að. Lægðin í efnahagslífinu var notuð til að koma þessum breytingum á í stað þess að gera það í góðæri líkt og í Svíþjóð. Það leiddi til mikilla erfiðleika."

Reyndum að sleppa ódýrt

En hvaða lærdóm telur Urban Bäckström að þeir sem ráði ferðinni í sænsku efnahagslífi eigi að draga af kreppu undanfarinna ára? "Lærdómurinn er sá að við verðum að einblína á stöðugt verðlag. Undanfarin tuttugu ár höfum við reynt að sleppa ódýrt frá hlutunum sem hafa getið af sér verðbólgu og loks efnahagssamdrátt. Þannig var málum háttað á áttunda áratugnum og þannig var málum háttað á níunda áratugnum. Sú efnahagskreppa, sem nú er að baki, er sú mesta frá því á millistríðsárunum. Lærdómurinn sem við verðum að draga af þessu er að nauðsynlegt er að verðlag haldist stöðugt og að ríkisfjármálin séu í lagi."

En er pólitískt raunhæft að ætla að ná fram þeim mikla niðurskurði, sem nauðsynlegur er til að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum og draga úr opinberum skuldum. Þær neyðaraðgerðir, sem ákveðnar voru haustið 1992, voru fyrst og fremst langtímaaðgerðir, sem enn á eftir að koma í ljós hve miklu muni skila. Reynslan alls staðar að sýnir að mjög erfitt er að skera niður ríkisútgjöld í "æskilega" stærð út af pólitískum aðstæðum. Er hægt að ná jafnvægi milli þess sem er nauðsynlegt og þess sem er framkvæmanlegt? "Í lok síðasta og byrjun þessa áratugar hefur endurmat átt sér stað jafnt meðal jafnaðarmanna sem borgaralegu flokkanna. Það hefur margt verið gert til að draga úr hinum kerfislæga vanda sem og hinum fjármálalega. Það er enn langt í land en margt hefur verið gert og það tel ég mjög jákvætt. Greinilega hafa fjármálamarkaðirnir túlkað stöðuna á sama hátt því að langtímavextir hafa lækkað verulega. Enn er gengi krónunnar veikt en við vonumst til að það muni styrkjast á næstu árum. Ég vil þó ítreka eftirfarandi: Við eigum eftir að leysa mjög erfið vandamál og lausn þeirra mun gera miklar kröfur til hins pólitíska kerfis. Ég held að stjórnmálamenn geri sér líka grein fyrir því."

Þrátt fyrir vandamál undanfarinna ára er sænskt efnahagslíf eitt hið öflugasta í Evrópu, sem sést kannski best á því að Svíar verða sú þjóð, sem mest mun greiða til sameiginlegra sjóða Evrópusambandsins miðað við höfðatölu í framtíðinni. Fyrst að Svíar treysta sér ekki til að taka upp fastgengisstefnu og ná markmiðum EMU á næstu árum er þá ekki mjög ólíklegt að mörg önnur Evrópuríki standist þær kröfur sem hinn efnahagslegi og peningalegi samruni Evrópusambandsríkjanna, sem ákveðinn var með Maastricht-sáttmálanum, gerir til þeirra? Mætti ekki jafnvel segja að hugmyndin um efnahagslegan samruna sé óraunhæf? "Nei. Svíar hafa lýst því yfir að þeir gangist við ákvæðum Maastricht og að því er stefnt. Við eigum við sérstök vandamál að stríða í okkar efnahagskerfi þegar kemur að fjárlagahallanum. Það er hreinlega hlutur sem við verðum að taka á. Það hefur líka margt breyst með því að verulega aukin viðmiðunarmörk voru tekin upp innan ERM. Það hefur tímaáætlun verið ákveðin fyrir þessa þróun og af okkar hálfu liggur fyrir að við föllumst á hana og viljum fylgja henni. Rétt eins og önnur ríki áskiljum við okkur þó þann rétt að okkar þjóðþing taki sjálfstæða ákvörðun er kemur að því að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil. Það er erfitt að segja eitthvað ákveðið um tímasetningar. Fyrst verðum við að gera hreint fyrir okkar dyrum í efnahagsmálunum."

Bäckström segir að það yrði mikill kostur fyrir Svía að taka upp fast gengi. Efnahagskerfi þeirra sé lítið og opið og rétt eins og önnur smáríki séu þeir mjög háðir utanríkisviðskiptum. "Svíar höfðu mjög mikinn hag af föstu gengi um margra áratuga skeið og það er nauðsynlegt að við hverfum aftur til þess ástands. Síðast var gengi sænsku krónunnar fljótandi á fjórða áratugnum og allur hugsunarháttur Svía tekur því mið af fastgengi."

Kostir sameiginlegs gjaldmiðils

Fastgengi er eitt en sameiginlegur gjaldmiðill annað. Gjaldmiðlar einstakra ríkja, s.s. þýska markið og breska pundið, eru ákveðin þjóðartákn. Er nauðsynlegt að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil þó að maður fylgi fastgengisstefnu og getur það ekki jafnvel verið varasamt? "Það fylgja því miklir kostir fyrir okkur að hafa fast gengi og hið endanlega fastgengi er auðvitað sameiginlegur gjaldmiðill. Þegar við tengjum gengisskráninguna öðrum gjaldmiðlum er alltaf hætta á spákaupmennsku. Til lengri tíma litið er niðurneglt gengi því Svíum hagstætt. Svo koma auðvitað til sögunnar þjóðernisleg sjónarmið og viðkvæmni við að skipta um gjaldmiðil. Sænska ríkisstjórnin hefur hins vegar sagt að það æskileg þróun, sem stefnt sé að."

En er það framkvæmanlegt að ætla að taka upp sameiginlega stefnu í peningamálum þegar til dæmis er haft í huga hversu gjörólíkri peningastefnu er fylgt í til dæmis Þýskalandi og Grikklandi? Allar hefðir í þessum efnum eru mjög ólíkar í þeim ríkjum, sem ætla að taka þátt í þessu samstarfi. Fátt er sameiginlegt með sögu, hugsunarhætti og skipulagi Bundesbank, Banque de France og Bank of England. Hvernig á það að vera framkvæmanlegt að bræða þetta allt saman á örfáum árum? "Það er mjög erfitt að ræða um tímasetningar. Ef við lítum hins vegar á evrópska gengissamstarfið á níunda áratugnum þá leiddi það til þess að samræma verðbólguhraða og raunar fjármálaþróunina á flestum sviðum. Það var mikill kostur. Ef við lítum aftur til ársins 1970 eða jafnvel 1980 þá var mikill munur á verðbólgu í Evrópuríkjunum. Úr þeim mun dró mjög verulega á síðasta áratug. Þá skall sameining Þýskalands á, sem hafði mikil fjármálaleg áhrif og truflaði þessa þróun. Bundesbankinn varð að hækka vexti sína sem gerði mörgum öðrum ríkjum, þar á meðal Svíþjóð, erfiðara fyrir og leiddi til alls konar truflana. Til lengri tíma litið er hins vegar ljóst að fastgengi eflir hið frjálsa flæði vöru, þjónustu og vinnuafls."

En má ekki segja að þessi "truflun" sé einmitt sönnun þess að sameiginleg peningastefna og sameiginlegur gjaldmiðill getur ekki orðið að raunveruleika? Þegar Þýskaland sameinaðist varpaði þýski seðlabankinn öllum "samevrópskum" hagsmunum og sjónarmiðum fyrir róða og fylgdi peningastefnu sem tók algjörlega mið af hinum sérþýsku aðstæðum. "Við verðum að muna að flest Evrópuríki urðu að greiða enn hærri vexti en í Þýskalandi. Það kom álag á þýsku vextina og auk þess stöðugar árásir spákaupmanna á fjármálamörkuðum gegn gjaldmiðlunum. Þar sem gengisskráning allra ríkja tók mið af gengisskráningu annarra ríkja varð vandinn enn meiri. Ef búið hefði verið að koma á peningalegum samruna þá hefði þetta aukaálag ekki komið til. Reynslan af þessu er sú að það er erfitt að halda uppi gengisskráningu sem tekur mið af gengi annarra gjaldmiðla vegna hættunnar á spákaupmennsku. Fljótandi gengi eða algjört fastgengi eru valkostirnir og það hlýtur að lokum að leiða til sameiginlegs gjaldmiðils. Það er hins vegar rétt hjá þér að það krefst þess að ríkisfjármál einstakra ríkja séu í jafnvægi. Menn geta ekki leyft sér að reka ríkissjóð með of miklum halla heldur verða að vera með sín mál í lagi. Það krefst kerfisbreytinga og ákveðins sveigjanleika. Ávinningurinn yrði hins vegar mjög mikill."

Morgunblaðið/Kristinn