Gyða Kristjánsdóttir ­ Minning Fædd 29. september 1917 Dáin 14. febrúar 1994 Elsku amma mín er dáin. Það er eitthvað svo óraunverulegt. Einhvern veginn er maður aldrei viðbúinn því að missa ástvini sína. En amma mín vr búin að vera svo veik og ég veit að núna líður henni vel. Það er samt sárt að hugsa til þess að sjá hana ekki framar og að litla dóttir mín skuli ekki fá að kynnast því hversu góð hún amma mín var.

Ég minnist allra ferðanna okkar systkinanna norður á Siglufjörð á sumrin með mömmu og pabba til að heimsækja ömmu. Hvað hún var alltaf kát og glöð að sjá okkur og tók alltaf vel á móti okkur. Þegar amma var sjötug fór hún í sína fyrstu og einu utanlandsferð til Hollands og var þar með okkur í sumarhúsi. Það var henni ógleymanlegt ævintýri. Líf hennar var ekki alltaf auðvelt, en hún var dugleg og sterk og lét ekki mótlæti buga sig. Hún vr alltaf hress og kát á hverju sem gekk.

Amma eignaðist níu börn og eru sjö þeirra á lífi. Hún ól líka upp eina dótturdóttur sína.

Elsku pabbi minn, Maja frænka, Gréta, Örn, Valur, Björg, Gummi, Stína og fjölskyldur. Ég bið góðan Guð að gefa ykkur styrk í sorginni. Mynd góðrar móður, ömmu og langömmu mun alltaf geymast í hjörtum okkar allra.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Ragnhildur Svansdóttir.