Helgi Helgason - viðb Hve oft gekk ég ekki inn heimreiðina að Fornastekk 17 og við mér blöstu opnar bílskúrsdyrnar. Þar fyrir innan stóð hávaxinn teinréttur maður og horfði sínu sérstaka óráðna augnaráði á þann sem nálgaðist. Hverju gat ég átt von á í þetta skiptið? Eitt var víst að ekki varð ég fyrir vonbrigðum með það sem beið mín. Alltaf kennslustund í einhverju þeirra fjölbreyttu áhugamála sem tengdafaðir minn, Helgi, átti sér. Oftar en ekki stóð hann með lítinn og veikburða trjágræðling í höndunum. Ég hafði fengið að fylgjast með, alveg frá því að fræinu var sáð og síðan þroskanum og um leið kenndi hann mér vinnubrögðin við að ná árangri í trjáræktinni. Ef litazt var um í skúrnum sást klukka á vegg, ekki venjuleg klukka heldur mikið klukkuverk, gert af fagmanni öðru hvoru megin við síðustu aldamót. Ef að var gáð mátti sjá að hún sýndi hárréttan tíma. Þessa klukku hafði ég séð hjá honum nokkrum vikum áður, lúna, þreytta og með öllu óvirka. Það var ótrúlegt hvað hann gat gert með þessum lipru fingrum. Á hefilbekknum voru fallega skreytt nautgripahorn, skarpgripir og nokkrir krossar úr silfri, að sjálfsögðu unnir að öllu leyti af honum. Þeir voru á mismunandi stigum, en allir ætlaðir börnum og barnabörnum, sem nú varðveita þá og minnast föður og afa þegar þeir eru bornir.

Hrein unun var að hlusta á hann þegar hann gleymdi sér við að ræða um blóm og tré og þar var ekki komið að tómum kofunum eins og garðurinn umhverfis húsið ber glögg merki um. Ég veit ekki hve margar mismunandi tegundir þar voru, enda treysti ég mér engan veginn til að telja. Helgi skilaði svo sannarlega skuld sinni til landsins með trjárækt sinni, enda var hann ósínkur á að gefa frá sér til þeirra sem hann treysti til að fara rétt með.

Þegar hann fékkst til að taka sér hlé frá því sem hann var að dunda við og við settumst niður við kaffibolla bar margt á góma. Oft vék hann sér til baka í tíma og sagði frá samferðafólki fyrri tíma og lífinu í höfuðborginni á þeim árum sem hann var að alast upp. Ekki ósjaldan leitaði hugur hans og frásögn til þeirra tíma og þess fólks sem hann dvaldi hjá í æsku, austur í Flóa, og hann tengdist svo sterkum böndum.

Ég þakka þér, Helgi minn, fyrir samfylgdina, sem að vísu var ekki löng í árum talið og vona að ég hafi vit og visku til að fylgja fyrirmynd þinni í hvívetna.

Friðrik G. Gunnarsson.