Helgi Már Jónsson - Minning Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin. Einir fara og aðrir koma í dag, og alltaf bætast nýir hópar í skörðin. Og til eru ýmsir, sem ferðalag þetta þrá, en þó eru margir, sem ferðlaginu kvíða.

Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,

en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

(Tómas Guðmundsson)

Herbergið var undir súð og loftið þakið kvikmyndaplakötum. Kate Bush á fóninum og stóra skrifborðið þakið teikningum og hugmyndun íbúans. Hér var höllin hans og hreiður. Þannig kom herbergið hans Helga Más mér fyrir sjónir þegar hann bauð mér þangað í fyrsta sinn. Hann var brosandi - eins og alltaf. Helgi Már var eins og sólargeisli hvar sem hann fór. Hann yljaði fólki með viðmóti sínu og horfði á mann djúpum bláum augum þar sem kímnin og hlýjan héldust í hendur eins og systur.

Það er svo margs að minnast og margt að þakka fyrir. Þó fyrst og fremst fyrir þau forréttindi að hafa fengið að vera samferða svo yndislegum manni smá vegarspotta.

Mig langar að óska vini mínum Helga Má góðrar ferðar. Hann hafði alltaf gaman af að kanna hið nýja og óþekkta og ég finn í hjarta mér að hann á eftir að njóta þessarar ferðar. Ég bjóst ekki við, frekar en aðrir, að hann ætlaði svona fljótt en ég óska honum góðrar heimkomu. Við sem eftir sitjum varðveitum minninguna um Helga Má í hjarta okkar, uns við hittumst á ný.

Öllum aðstandendum votta ég innilega samúð.

Anna Pálína.