Áki Elísson - viðb Veturinn 1992­93 vorum við í stjórn skólafélags Menntaskólans á Akureyri. Í starfi líku því sem skólafélagið stendur fyrir þarf að vinna mörg handtök og eigi það að ganga þrautalaust þarf samheldni, dugnað og áhuga. Áðurnefndan vetur var starfsemi skólafélagsins með skemmtilegra móti og kom þar fyrst og fremst til áhugi og gott samstarf milli nemenda og starfsmanna skólans. Þennan vetur var samstarf skólafélagsins, skólayfirvalda og annarra starfsmanna að mörgu leyti sérstakt. Með okkur tókust ánægjuleg kynni sem við reynum enn að rækja þrátt fyrir að við í stjórninni höfum farið hvert í sína áttina. Við höfðum mest samband við skólameistara, Skúla húsvörð og Jón og Áka smiði skólans. Í leik og starfi í skólanum liðu dagarnir áhyggjulitlir og framtíðin var björt og feigðin fjarri. Nú er einn úr hópnum, Áki smiður, dáinn og ekkert sem við getum gert getur breytt því.

Áki var einstaklega þægilegur í samstarfi. Hann var alltaf til í að leggja okkur lið og sýndi viðfangsefnum okkar jafnan áhuga. Þrátt fyrir rólegt og yfirvegað fas var stutt í glaðværðina og ósjaldan var gert góðlátlegt grín að háfleygum hugmyndum okkar. Með samstilltu átaki okkar og starfsmannanna urðu þó ótrúlegustu hlutir að veruleika.

Við erum þakklát fyrir kynni okkar af Áka og kveðjum sómamann með vinsemd og virðingu. Við vottum fjölskyldu hans og aðstandendum samúð okkar í þungum harmi þeirra.

Ómar, Aðalsteinn,

Tryggvi, Jóhann, Rósa,

Emilía og Sigfús í

stjórn Hugins '92­93.