Áki Elísson - viðb Þeim sem eru í fullu fjöri og hafa nóg fyrir stafni er dauðinn víðs fjarri. Jafnvel þótt við séum minnt á hann daglega í fréttum og dánarfregnum er hann fjarlægur engu að síður. Það er þá fyrst sem einhver sem manni er nálægur og kær stendur frammi fyrir dauðanum, að maður áttar sig á hversu nærri dauðinn er öllum þeim sem lifa. Þessar og fleiri hugsanir komu upp í hugann þegar ég frétti að minn kæri svili á Akureyri lægi þungt haldinn á sjúkrahúsi og tvísýnt væri um líf hans. Úr fjarlægð fylgdist ég með því hversu honum elnaði sóttin og á fjórum dögum var hann allur. Góður drengur er horfinn sjónum okkar, langt um aldur fram. Elskuleg mágkona mín og börnin þeirra fjögur hafa nú misst þann sem þeim er kærastur.

Leiðir mínar og Áka Elíssonar lágu saman um þær mundir sem við vorum báðir að ná í konuefnin okkar. Margar góðar stundir áttum við saman hjá tengdaforeldrum og tengdafjölskyldu okkar á Nípá í Köldukinn, jafnt að sumri sem vetri. Þessum glaðsinna og ljúfa dreng átti ég eftir að kynnast betur eftir því sem árin liðu. Þótt fjarlægðir skildu okkur að voru samverustundirnar býsna margar þegar litið er yfir farinn veg. Gaman var að spjalla saman um heima og geima og ekki var síður skemmtilegt að velta fyrir sér tæknilegum lausnum þegar Áki tók að sér að lagfæra húsið okkar hjóna á Seltjarnarnesi. Það verk vann hann með stakri prýði, faglegri nákvæmni og útsjónarsemi. Þegar við hittumst gáfust stundum tækifæri til styttri ferðalaga. Ófáar stundir flugum við saman um loftin blá til þess að skoða landið okkar fagra.

Árið 1980 hófu Áki og Bryndís búskap í fallegu einbýlishúsi á Akureyri sem þau byggðu saman af miklum myndarskap og dugnaði. Á fyrsta árinu fæddist þeim fyrsti sólargeislinn þeirra, hún Fjóla. Á næstu árum bættust tvær yndislegar telpur í hópinn, Sóley og Lilja. Það var mikil ánægja með það í fjölskyldunni þegar litli Brynjar Elís kom í heiminn og strákur kominn í barnahópinn. Vegna ferða minna og vinnu kom ég í ófáar heimsóknir til Áka, Bryndísar og barnanna á Akureyri og hjá þeim fannst mér sem ég ætti mitt annað heimili.

Á þessum fimmtán árum sem ég þekkti Áka þótti mér meira til hans koma með hverju árinu sem leið. Hlýja og glettni voru samofin öllu hans fasi. Áki kunni að hlusta betur en margur maðurinn og þegar hann lagði eitthvað til málanna var það gert af íhygli og yfirvegun. Ég hefi oft hugsað með tilhlökkun til þess tíma að við gætum átt fleiri stundir saman, því Áki var svo gefandi og það var svo gott að vera í návist hans. Ég sakna þess mjög að geta ekki lengur ræktað vináttu við þennan fölskvalausa og hjartahreina dreng sem Áki var, en er þess jafnframt fullviss að leiðir okkar liggi saman síðar í tilverunni.

Við Guðfinna vottum elskulegri systur hennar og mágkonu minni ásamt börnunum innilega samúð okkar, ekki síst henni Fjólu. Sömuleiðis allri fjölskyldu okkar og Áka heitins. Megi góður Guð styrkja þau í sorg þeirra. Ég bið kærum mági mínum blessunar, þegar hann sér á bak sínum besta vini. Megi Guð opna augu okkar allra fyrir því hversu lífið er dýrmætt og hversu þakklát við megum vera fyrir þann tíma sem við fáum að vera samvistum við ástvini okkar.

Kæri Áki minn, ég þakka þér allar þær góðu stundir sem við höfum átt saman. Ég bið þér Guðs blessunar til æðri starfa á ljóssins vegum.

Björn Rúriksson.