9. október 2009 | Minningargreinar | 1349 orð | 1 mynd

Gunnar Hvammdal Sigurðsson

Gunnar Hvammdal Sigurðsson, veðurfræðingur, fæddist í Reykjavík 12. febrúar 1926. Hann lést 5. október sl. Foreldrar hans voru Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Efsta Hvammi í Dýrafirði, og Sigurður Skúlason kaupmaður í Reykjavík. Samfeðra var Agnar Sigurðsson flugumferðastjóri, f. 1920, d. 1993. Gunnar ólst upp í bernsku hjá fósturforeldrum sínum, Ástríði J. Einarsdóttur og Finnboga Benónýssyni, frá Hæsta Hvammi í Dýrafirði.

Gunnar kvæntist 1956 Ástríði Magnúsdóttur, f. 6.6. 1931. Foreldrar hennar voru Magnús Ásmundsson og Þóra Þórðardóttir. Þau slitu samvistum. Dætur þeirra eru 1. Guðrún Ingibjörg, f. 1.9. 1955, maki Willie Jenkins. Börn þeirra eru Elon Thor, Gunnar Dell, Daníel, Inga Elísabet, og Alexandra. 2. Helga, f. 5.6. 1957, maki Val Bracey. Börn þeirra eru Austin Magnús og Elín. 3. Ásta Kristín, f. 17.7. 1961, maki Oddur Björnsson. Börn þeirra eru Hildur, Baldvin og Helga.

Gunnar varð stúdent frá MR, 1948, Cand.Phil. Háskóla Íslands 1949, og BA próf í veðurfræði frá UCLA, Kaliforníuháskóla í Los Angeles, 1953. Gunnar vann á Veðurstofu Íslands frá 1948-1949, var veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í Flugveðurstofu Íslands á Keflavíkurflugvelli, 1953-1979, og síðan á Veðurstofu Íslands frá 1979-1996. Ættfræði Vestfirðinga og annarra Íslendinga átti hug hans allan og kom hann að útgáfu margra ættfræðirita. Hann var einstaklega fróður um fólk og staði í Reykjavík. Einnig hafði hann unun af því að tefla og var í skáksveitum víða. Síðustu mánuðina dvaldist Gunnar á Landakoti.

Útför Gunnars Hvammdal fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 9. október, og hefst athöfnin kl.13.

mbl.is/minningar

Nú kveð ég elskulegan föður minn, með djúpum söknuði.

Það er margs að minnast með þakklæti, gjafmildina, heiðarleikann, samviskusemina og hugulsemina í hans fasi og öllu sem hann tók að sér.

Hann var líka með eindæmum gjafmildur.

Pabba var mjög umhugað að við dæturnar hans fengjum gott uppeldi, ást, öryggi og blíðu. Honum tókst það.

Hann var góður og ástríkur faðir.

Pabbi vann sem veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands mestan sinn starfsaldur.

Við nutum þess að fara saman í nokkur ferðalög, bæði til Dýrafjarðar, þaðan sem hann var ættaður, og einnig í sólarlandaferðir.

Ættfræðin átti hug hans allan, og var hann með eindæmum fróður um ættir Vestfirðinga, og Íslendinga.

Það var gaman og fróðlegt að labba með honum í miðborg Reykjavíkur, hann gat nánast rakið sögu hvers húss, frá upphafi.

Ég gat ekki beðið um betri og fallegri föður í þessu jarðlífi, en þann sem ég fékk, Gunnar Hvammdal Sigurðsson.

Ég kveð þig um sinn, með þökk, eilífðri ást og kærleika.

Ó, pabbi minn kæri

við kveðjumst um sinn

tárin mín hníga

hljóð niður kinn.

Allt sem þú gafst mér,

það þakka ég vil.

Skilja nú leiðir,

um ómarkað bil.

(Bryndís Halldóra Jónsdóttir.)

Guðrún Ingibjörg

Gunnarsdóttir.

Afi Gunnar hefur kvatt okkur hinstu kveðju. Eftir erfið veikindi hans undanfarin misseri sjáum við nú á bak umhyggjusömum föður, tengdaföður og afa.

Á vinnáttu okkar Gunnars bar aldrei skugga þann tæpa aldarfjórðung er leiðir okkar lágu saman. Fór þar gagnkvæm virðing og væntumþykja. Var hann alltaf til reiðu að taka þátt í gleði okkar og sorgum og nutum við ætíð nærveru hans.

Gunnar fæddist í Reykjavík en ólst upp að Hvammi í Dýrafirði. Minntist Gunnar fósturforeldra sinna ávallt af miklum hlýhug og bar æ síðan sterkar taugar til æskustöðvanna. Vitjaði hann liðinna tíma í sveitina sína reglulega á meðan heilsan leyfði.

Eftir háskólanám í Reykjavík hélt hann til Bandaríkjanna og lagði stund á veðurfræði við Kaliforníuháskóla í Los Angeles. Þrátt fyrir þröngan kost unga námsmannsins ofan af Íslandi á þessum eftirstríðsárum gerði Gunnar gott úr sínu og átti einkar góðar minningar frá Ameríkuárunum. Í Hollywood heyrði hann margar af skærustu stjörnum klassískrar tónlistar þess tíma og var aldrei samur eftir. Fátt gladdi hann meira en láta fara vel um sig og hlýða á upptökur gömlu meistara óperuhúsanna. Yfir sherrýtári sátum við gjarnan og hörmuðum hlutskipti Toscu í frábærri túlkun dívu Callas. Mátti þá ósjaldan sjá glitta í tár á hvörmum.

Börnin voru okkar sameiginlega áhugamál og fylgdist afi Gunnar grannt með uppvexti þeirra og þroska. Hann hafði sérstaklega gaman af að njóta sigra þeirra á tónlistarsviðinu og var ætíð reiðubúinn að ljá þeim eyra þegar glíman við ný verkefnin virtist vera að skila árangri. Átti afi þá iðulega í handraðanum lófatak og hlý hvattningarorð ungu listamönnunum til handa. Börnin kveðja nú vin í raun.

Við leiðarlok er afa Gunnari þökkuð samfylgdin, umhyggjan og kærleikurinn sem hann umvafði okkur.

Góður Guð blessi minningu Gunnars Hvammdals Sigurðssonar. Megi hann hvíla í friði.

Oddur Björnsson.

Gunnar Hvammdal Sigurðsson frá Hvammi í Dýrafirði lést 5. október sl. Hann yfirgaf ungur æskuslóðirnar í Dýrafirði, lærði veðurfræði og starfaði sem slíkur. En hann gleymdi ekki heimahögunum. Tómstundum varði hann við ættfræðigrúsk og söfnun heimilda um Dýrfirðinga, lífs og liðna. Óhætt er að fullyrða að hann hafi verið kominn í flokk með mestu ættfræðingum landsins. Stálminni hans á því sviði var viðbrugðið.

Gunnar stundaði ættfræðina af ástríðu og nákvæmni. Hann vildi vita allt um einstaklinginn sem hann fjallaði um hverju sinni. Skipti þá ekki máli hvort hann var að leita upplýsinga um góðbændur eða umkomulaust vinnufólk. Æviferillinn var rakinn frá vöggu til grafar og engin fyrirhöfn spöruð til að öll kurl kæmust á sinn stað. Það gat tekið daga eða vikur að rekja slóð manna sem víða fóru. Það var fátítt að Gunnar gæfist upp við slíkt. Lokapunkturinn var jafnan að finna dánardag, dánarstað og helst dánarorsök.

Undirritaður hefur síðustu tíu-tólf árin verið að grípa í að setja saman æviskrár Dýrfirðinga og þá einkum í Dýrafjarðarþingum. Allan þennan tíma hefi ég notið aðstoðar Gunnars Hvammdals við þetta verk. Ég hefi einkum unnið að þessu að vetrinum á heimili mínu í Dýrafirði en Gunnar var í Reykjavík.Við höfðum jafnan samband gegnum síma. Ef mig rak í vörðurnar, vantaði t.d. upplýsingar um Dýrfirðing sem hafði farið í annan landshluta eða til útlanda, þá hringdi ég í Gunnar og hann leysti úr málunum, annað hvort strax eða hann hringdi síðar og var þá búinn að finna það sem ég leitaði eftir. Þannig voru okkar samskipti árum saman. Færi ég til Reykjavíkur heimsótti ég Gunnar á Snorrabrautina og við ræddum um ættir og lífshlaup Dýrfirðinga langtímum saman.

Gunnar var sjófróður um allt er viðkom Dýrafirði og Dýrfirðingum. Hann sagði skemmtilega frá og kunni urmul sagna um dýrfirska einstaklinga. Í öllum okkar samtölum fékk ég að heyra eina eða fleiri skemmtilegar sögur. Sumar hef ég punktað niður en aðrar hverfa inn í móðu gleymskunnar.

Gunnar veiktist á síðastliðnu sumri og lá þungt haldinn á Landakotsspítala. Ég kom þar til hans nokkrum sinnum, seinast 25. ágúst sl. Mér virtist hann gera sér ljóst að nú væri hann kominn að endastöð, dánarstaðurinn var fundinn, aðeins vantaði dánardaginn svo æviskráin væri fullkomnuð. Þrátt fyrir þetta var létt yfir honum og tal okkar barst fljótlega að áhugamáli okkar beggja, ættfræðinni. Hið ótrúlega minni hans og áhugi var óskert. Þegar ég kvaddi hann var hann glaður í bragði og þannig mun ég minnast hans, því þannig var hann ætíð í öllum okkar samtölum.

Ég er þakklátur Gunnari fyrir öll okkar samskipti. Hann hefur lagt drjúgan skerf til ritunar sögu Dýrfirðinga þó lítill hluti þess hafi enn komið fyrir almenningssjónir.

Aðstandendum Gunnars færi ég hugheilar samúðarkveðjur.

Valdimar H. Gíslason,

Mýrum, Dýrafirði.

Kveðja frá Vestfirska forlaginu

Gunnar S. Hvammdal veðurfræðingur unni heimahögunum og sýndi það oft í verki. Hann sparaði hvorki tíma, fé né fyrirhöfn þegar Dýrafjörður og Dýrfirðingar áttu í hlut. Það má glöggt sjá í bókaflokkunum Frá Bjargtöngum að Djúpi og Mannlíf og saga fyrir vestan.

Gunnar var sérfræðingur okkar í ættfræði og var aldrei komið þar að tómum kofunum. Þá var hann ótrúlegur eljumaður að safna gömlum myndum úr mannlífi hér vestra og bjargaði þar menningarverðmætum sem væru nú týnd og tröllum gefin hefði hans ekki notið við. Hann kannaðist við og gat sagt frá mörgum Dýrfirðingum aftan úr öldum og fram á okkar daga og gat nefnt þá marga með nafni og fæðingar- og dánardegi. Hann var hafsjór af fróðleik um allt þetta fólk og hefur margt af þeim fróðleik ratað í áðurnefndar bækur.

En nú er skarð fyrir skildi í þeim efnum. Við þökkum þeim góða dreng, Gunnari S. Hvammdal, fyrir samstarfið og allan fróðleikinn og leiðbeiningarnar. Megi hann fá góða heimkomu.

Hallgrímur Sveinsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.